Afmælistónleikarnir laugardag 19. nóv.

Það er að koma að því !

Kórinn heldur upp á 10 ára afmæli sitt með veglegum afmælistónleikum í Hömrum í Menningarhúsinu Hofi laugardaginn 19. nóv. kl. 15:00.

Þar mun kórinn stikla á stóru yfir þessi 10 viðburðarríku ár og flytja lög sem spanna sögu kórsins. Einnig mun hann frumflytja afmælislagið Árstíðirnar með texta Önnu Dóru Gunnarsdóttur kórfélaga við lag Daníels Þorsteinssonar stjórnanda kórsins. Með kórnum á tónleikunum spilar hljómsveitin Aladár Rácz á píanó, Pétur Ingólfsson á kontrabassa og Emil Þorri Emilsson á slagverk.

Miðaverð á tónleikana er 2000 og hægt að kaupa miða á www.menningarhus.is eða í afgreiðslunni í Hofi. Frítt er fyrir 14 ára og yngri.

Tvennir tónleikar fyrir jól

Það er mikið um að vera hjá kórnum þessa dagana.  Næsta sunnudag verður haldinn æfingadagur í Valsárskóla, þar sem stíf dagskrá verður frá kl. 9 að morgni og til kl 18 síðdegis. Þarna verða tekin fyrir lög sem sungin verða á tónleikum haustsins.

Fyrst er að nefna afmælistónleika sem haldnir verða í tilefni af 10 ára afmæli Kvennakórs Akureyrar!  Tónleikarnir verða haldnir laugardaginn 19. nóvember kl. 15:00 í Hömrum í Menningarhúsinu Hofi. Á tónleikunum verða tekin lög frá tímabili hvers stjórnanda, en þeir hafa verið fimm talsins. Efnisskráin verður því afar fjölbreytt og endurspeglar það sem kórinn hefur fengist við á þessum 10 árum.
Um kvöldið koma svo núverandi og fyrrverandi félagar ásamt gestum saman í Hlíðarbæ og fagna þessum tímamótum.

Fimmtudaginn 8. desember kl. 20:00 verða haldnir aðrir stórtónleikar þar sem fram fer árleg söfnun fyrir Mæðrastyrksnefnd Akureyrar. Á tónleikunum sem haldnir verða í Hamraborg í Menningarhúsinu Hofi fær kórinn til liðs við sig góða gesti, þ.e. hina góðkunnu söngkonu Guðrúnu Gunnarsdóttur og Ívar Helgason, söngvara, leikara og dansara. Þetta verður frábær skemmtun sem enginn má missa af og það besta er að allur ágóðinn af tónleikunum rennur beint til þeirra sem ekki geta haldið sín jól án stuðnings okkar hinna.

Sjáumst öll í Hofi 19. nóvember og 8. desember !

Æfingar komnar af stað og spennandi vetur framundan

Æfingar hófust af fullum krafti 4. september s.l. og nú hafa bæst við níu konur frá því í fyrra. Tvennir tónleikar verða fyrir jól, kórinn fagnar 10 ára starfsafmæli þann 19. nóvember með tónleikum og hátíð og síðan verða hinir árlegu tónleikar fyrir Mæðrastyrksnefnd Akureyrar haldnir í Hofi 8. desember.  Nánari fréttir um tónleika á vorönn koma síðar en rúsínan í pylsuendanum á þessu starfsári verður söngför til Kanada í byrjun ágúst 2012 !

Tvennir tónleikar í Hofi

Kvennakór Akureyrar stendur fyrir tvennum tónleikum í Hofi á haustönninni. 

Þeir fyrri verða sérstakir 10 ára afmælistónleikar kórsins. Þar verða rifjaðir upp gamlir smellir í bland við nýja. Stjórnendur kórsins þessi 10 ár hafa verið Björn Leifsson, Þórhildur Örvarsdóttir, Arnór Vilbergsson, Jaan Alavere og Daníel Þorsteinsson og hefur lagavalið verið mjög fjölbreytt, eins og sjá má hér. Tónleikarnir verða í Hömrum í Menningarhúsinu Hofi þann 19. nóvember.

Seinni tónleikarnir eru árlegir styrktartónleikar fyrir Mæðrastyrksnefnd Akureyrar. Slíkir tónleikar hafa verið haldnir skömmu fyrir jól allt frá árinu 2003.  Þá hefur kórinn fengið aðra kóra og tónlistarmenn til liðs við sig og að þessu sinni er meiningin að halda veglega tónleika í aðalsalnum í Hofi þann 8. desember. Nánar verður sagt frá þessum tónleikum síðar og þá hvaða tónlistarfólk kemur til liðs við kórinn.

Kórstarfið að hefjast eftir sumarfrí

Það er ýmislegt spennandi og skemmtilegt framundan hjá Kvennakór Akureyrar á næstunni eins og til dæmis 10 ára afmæli kórsins, sem haldið verður upp á með pompi og prakt þann 19. nóvember. Nánar verður sagt frá því síðar.

Haustmarkaður KvAk  verður haldinn 10 september í Hlöðunni að Hömrum (tjaldstæðinu/ útilífsmiðstöð skáta) eins og í fyrra.
Þar verður sitt af hverju tagi á boðstólum, ætt og óætt, til dæmis, handverk, fatnaður, fjallagrös, ber (vonandi) og margt fleira.

Fyrsta æfing starfsársins er áætluð sunnudaginn 4. september kl 17:00 og þá verður einnig auglýst eftir nýjum kórfélögum.

Fréttir af aðalfundinum

Aðalfundur KvAk var haldinn í Brekkuskóla 11. maí s.l. Á dagskrá voru venjuleg aðalfundarstörf, skýrsla formanns, skýrsla gjaldkera, kosningar í stjórn og fleira. Þá var rætt um nýafstaðið landsmót kvennakóra og undirbúning fyrir næsta landsmót árið 2014, en þá verður það einmitt í umsjón Kvennakórs Akureyrar og haldið á vordögum á Akureyri.

Nokkrar umræður voru um 10 ára afmæli kórsins en ætlunin er að halda upp á það í haust. Skipuð hefur verið nefnd til undirbúa afmælishaldið og er formaður hennar Helga Sigfúsdóttir.

Talsverð umskipti urðu í stjórninni þar sem formaðurinn Snæfríð Egilson lét af störfum, einnig varaformaður Ásdís Stefánsdóttir og meðstjórnandinn Una Berglind Þorleifsdóttir.  Í stað þeirra komu Arnfríður Kjartansdóttir, Eygló Arnardóttir og Kamilla Hansen, en áfram sitja Soffía Pétursdóttir og Una Þórey Sigurðardóttir. Ný stjórn skiptir með sér verkum eftir stjórnarskipti 1. september.  Með haustinu verður einnig kosið í nefndir.

Aðalfundur 11. maí

Aðalfundur Kvennakórs Akureyrar er haldinn í dag 11. maí í Brekkuskóla.

Dagskrá:

Fundur settur
Skipan fundarstjóra og fundarritara
Lestur fundargerðar síðasta aðalfundar
Skýrsla stjórnar og umræður
Ársreikingar félagsins lagðir fram til umræðu og samþykktar
Kosning tveggja skoðunarmanna ársreikninga og eins til vara
Kosning stjórnar
Lagabreytingar
Önnur mál
    10 ára afmæli Kvennakórs Akureyrar
    Drög að dagskrá næsta haust
    Landsmót 2014 – hugarflug
    Annað
Fundi slitið
Að venju verður boðið upp á pizzur og gos frá Jóni Spretti.