Starfsreglur
Kæra kórsystir!
Um leið og við viljum bjóða þig velkomna í Kvennakór Akureyrar (KvAk) þá eru hér nokkrar upplýsingar sem gott er fyrir þig að hafa.
Kórstjóri er Valmar Väljaots. Formaður kórsins er Þórunn Jónsdóttir.
Kóræfingar: fara fram í Brekkuskóla á sunnudögum kl 17-19. Það getur komið fyrir að við þurfum að æfa annarstaðar ef Brekkuskóli er upptekinn og ef svo er berast upplýsingar um það á innra vef á heimasíðunni kvak.is, í tölvupósti og í facebook hópi kórsins. Fyrir tónleika og aðrar uppákomur er æfingum fjölgað. Vinsamleg ábending til kórkvenna er að sýna hver annarri tillitsemi á æfingu – tölum saman í hléinu, ekki trufla æfinguna með masi! Gott er að mæta með vatn á æfingar. Kórsöngur gengur út á að syngja saman, æfa saman, þannig næst góður samhljómur og það verður bæði gaman að syngja í kórnum og gaman að hlusta á okkur.
Æfingadagar eru tveir á vetri, fyrir og eftir áramót. Þeir eru oftast á laugardögum og fara fram utanbæjar, þó ekki langt í burtu. Æfingabúðir geta komið í stað æfingadaga. Tónleikar eru tvisvar til þrisvar á starfsárinu, sem er frá september til loka maí.
Við syngjum í fjórum röddum og raddformenn eru í hverri rödd. Raddformenn sjá um að merkja við mætingar og bera ábyrgð á að koma áríðandi upplýsingum til kvenna í sinni rödd, svo sem ef æfingatími breytist eða annað. Ætlast er til að kórkonur mæti vel á æfingar. Geti konur ekki mætt á æfingar láti þær sinn raddformann vita. Þú getur alltaf leitað til þíns raddformanns eða stjórnar ef þig vantar upplýsingar eða aðstoð. Raddformenn starfsárið 2016 – 2017 eru: Alt 1: Guðrún Hreinsdóttir, Alt 2:Lilja Jóhannsdóttir, Sópran 1: Hafdís Þórvaldsdóttir og Sópran 2: Stella Sverrisdóttir.
Kórgjald: er kr 3000 á mánuði allt árið og greiðist inná reikning kórsins. Gjaldkeri er Sigríður Jónsdóttir (sópran 1). Vinsamlegast komið réttum bankaupplýsingum sem fyrst til gjaldkera. Ætli kona að segja sig úr kórnum skal það gert skriflega til gjaldkera kórsins. Það er á ábyrgð kórkonu að láta sinn banka vita og hætta greiðslum, ef svo vill til að hún hætti í kórnum. Stjórnin getur ekki gert það. Félagsgjaldið fer í að greiða kostnað við starf kórsins, laun stjórnanda og undirleikara eftir því sem við á. Einnig fellur til kostnaður vegna nótnakaupa, ljósritunar og ýmislegs annars.
Búningagjald: er kr 7000 og greiðist við afhendingu kjólsins eða sem fyrst. Hátíðarbúningur kórsins er vínrauður, skósíður kjóll, sem saumaður var sérstaklega fyrir kórinn. Kjólarnir eru geymdir í Litlu saumastofunni, Brekkugötu 9, sjá nánar um búningareglur á heimasíðunni. Ef kórkona hættir þá eru vinsamleg tilmæli að skila kjólnum sem fyrst.
Nótur: Nótnaverðir eru Þórunn Gunnarsdóttir (alt1) og Anna Dóra Gunnarsdóttir (alt1). Hægt er að fá nótur hjá þeim en við reynum að hafa ljósritunarkostnað í lágmarki og því eru nótur einnig aðgengilegar á google drive eða sendar með tölvupósti, sem og hljóðfælar sem mjög gott er að hlusta á og læra þannig röddina. Sumum reynist vel að taka upp laglínur raddarinnar á ipad, síma eða með upptökutæki. Nauðsynlegt er að æfa sig heima, lesa texta vel yfir, skoða nótur og jafnvel hlusta á upptökur. Missi konur úr æfingar bera þær sjálfar ábyrgð á að fylgjast með og vinna upp tapið. Gott er að hafa blýant og yfirstrikunarpenna til að merkja athugasemdir og strika við þína rödd í nótunum.
Gott er að hafa inniskó með sér á æfingar og mælst er til að allir gangi vel um á æfingum. Í Brekkuskóla erum við EKKI á útiskónum inni. Allir hjálpast að við að stilla upp stólum fyrir æfingar og ganga frá skólanum eins og við komum að honum eftir æfingar.
Það eru vinsamleg tilmæli að nota ekki ilmvatn eða hársprey á æfingum og tónleikum.
Nánari upplýsingar um kórstarfið er að finna hér á heimasíðunni. Heimasíðustýra er Aðalbjörg Sigmarsdóttir (alt1). Heimasíðan er opin og aðgengileg en með lokuðu svæði fyrir kórkonur og þarf að skrá sig þar inn með lykilorði sem hægt er að biðja um á kvak@kvak.is. Þar eru meðal annars tilkynningar, dagskrá vetrarins, félagafréttir og lög kórsins.
Við hlökkum til að eiga gott samstarf með þér í söng og gleði.
Kvennakór Akureyrar,
Dalsgerði 5b, 600 Akureyri
Netföng: kvak@kvak.is; formadur@kvak.is; gjaldkeri@kvak.is
Veffang: http://www.kvak.is