Valmar Väljaots 2019 –

Valmar Väljaots fæddist í Eistlandi 1967.

Hann lauk tónlistarnámi frá Tónlistarakademíu Eistlands árið 1994 og flutti sama ár til Íslands.

Valmar var tónlistarkennari á Húsavík, á Laugum og í Mývatnssveit árin 1994-2007 .

Hann hefur starfað sem organisti síðan 1996 og frá árinu 2007 til dagsins í dag í Glerárkirkju.

Í dag stjórnar hann Kvennakór Akureyrar, Karlakór Akureyrar Geysis og Kór Glerárkirkju. Einnig spilar hann með Hvanndalsbræðrum, Killer Queen og Tríó Akureyri.

Sigrún Magna Þórsteinsdóttir 2017-2019

sigrun_litilSigrún Magna Þórsteinsdóttir stundaði tónlistarnám í Tónlistarskólanum á Akureyri, Tónlistarskólanum í Reykjavík, við Tónskóla þjóðkirkjunnar og í Konunglega danska tónlistarháskólanum í Kaupmannahöfn.

Þaðan lauk hún meistaraprófi í kirkjutónlist undir handleiðslu prof. Bine Bryndorf. Í námi sínu lagði hún sérstaka áherslu á barnakórstjórn, tónlistaruppeldi barna og kenningar um tónlistarþroska barna. Hún heldur reglulega tónlistarnámskeið fyrir foreldra ungbarna.

Sigrún hefur starfað sem organisti og kórstjóri í Reykjavík, í Kaupmannahöfn og á Akureyri. Sigrún starfar nú sem organisti við Akureyrarkirkju, við Möðruvallaklausturskirkju í Hörgárdal og kennir við Tónlistarskólann á Akureyri.

Hún hefur haldið fjölda tónleika á Íslandi og erlendis bæði sem einleikari, meðleikari og kórstjóri. Sigrún hefur sótt fjölda námskeiða m.a. hjá Olivier Latry, Hans-Ola Ericsson, Michael Radulescu og Mattias Wager.

Sigrún er framkvæmdastjóri Sumartónleika í Akureyrarkirkju og Kirkjulistaviku í Akureyrarkirkju.
Sigrún fékk úthlutað listamannalaunum frá íslenska ríkinu árið 2016.

Sólveig Anna Aradóttir 2016 – 2017

17857526_10154277979401510_1199674211_nSólveig lærði á píanó í Tónlistarskóla Kópavogs og í Tónlistarskóla Reykjavíkur undir leiðsögn Nínu Margrétar Grímsdóttur.

Hún fékk snemma áhuga á kórum, hún ólst upp í barnakór hjá Þórunni Björnsdóttur og seinna hjá Þorgerði Ingólfsdóttur í Hamrahlíðarkórnum en nú syngur hún með Sönghópnum við Tjörnina.

Hún hefur lokið Kirkjutónlistarprófi frá Tónlistarskóla Þjóðkirkjunnar undir leiðsögn Guðnýjar Einarsdóttur. Kórstjórnun lærði hún hjá Herði Áskelssyni og Magnúsi Ragnarssyni.

Sólveig hefur lokið BA gráðu í Skapandi Tónlistarmiðlun frá Listaháskóla Íslands og er að ljúka Kantorsprófi frá Tónskóla Þjóðkirkjunnar vorið 2017 undir leiðsögn Eyþórs Inga Jónssonar.

Sólveig stýrði Kvennakór Akureyrar frá hausti 2016 til feb. 2017 og jafnframt starfaði hún við afleysingar sem organisti í Akureyrarkirkju. Nú sem stendur er hún að leysa af í Langholtskirkju, þar stýrir hún Graduale kórnum og Kórskólanum.

Sólveig stefnir á frekari nám í Konunglega danska tónlistarháskólanum í Kaupmannahöfn haustið 2017

Daníel Þorsteinsson 2009 – 2016

013
Daníel Þorsteinsson

Daníel Þorsteinsson píanóleikari er fæddur í Neskaupstað og hóf þar sitt tónlistarnám. Hann lauk  burtfarar- og píanókennaraprófi frá Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar 1986 og stundaði framhaldsnám við  Sweelinck tónlistarháskólann í Amsterdam, þaðan sem hann lauk prófi árið 1993.

Daníel hefur verið virkur í íslensku tónlistarlífi um árabil, komið fram  sem einleikari m.a. með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands sem og í  samleik með einsöngvurum og smærri  tónlistarhópum; auk þess sem hann hefur  haldið námskeið í píanóleik, bæði hér á landi og á Spáni. Hann er félagi í Caput og hefur haldið tónleika með hópnum víða í Evrópu auk Norður-Ameríku og Asíu.

Daníel hefur og samið og útsett tónlist s.s. fyrir leikhús, kóra og einsöngvara og leikið inn á fjölda  hljómdiska tónlist af ýmsu tagi. Daníel var tilnefndur bæjarlistamaður á Akureyri árið 2000, býr nú í Eyjafjarðarsveit og gegnir m.a. starfi organista við Laugalandsprestakall í Eyjafirði.

Jaan Alavere – Haustönn 2008

jaan2
Jaan Alavere

Jaan Alavere fæddist í Eistlandi árið 1969. Hann hóf fimm ára gamall píanónám og þegar hann var sjö ára tók hann einnig að læra á fiðlu. Hann gekk í grunn- og framhaldsskóla í Tallinn sem sérhæfður er í tónlistaruppeldi og leggur grunn að frekara námi í tónlist á háskólastigi. Nítján ára gamall útskrifaðist Jaan sem einleikari á fiðlu en jafnframt sem tónlistarkennari og píanóleikari. Hann fór síðan í tónlistarháskóla og lagði stund á fiðluleik og tónsmíðar.
Árið 1994 réðist Jaan sem fiðluleikari að sinfóníuhljómsveit elsta leikhúss í Eistlandi, en það er í borginni Tartu. Hann varð síðar konsertmeistari þeirrar hljómsveitar.
Þrátt fyrir ungan aldur býr Jaan yfir mikilli reynslu sem tónlistarmaður. Hann hefur tekið þátt í tónlistarkeppnum fyrir heimaland sitt, leikið í fjölda hljómsveita, allt frá dans- og djasshjómsveitum til sinfóníuhljómsveita. Hann leikur m.a. með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og var þar konsertmeistari um tíma.
Haustið 1998 var Jaan ráðinn deildarstjóri tónlistardeildar Stórutjarnarskóla og hefur frá þeim tíma einnig verið söngstjóri og undirleikari Söngfélagsins Sálubótar.

Sumarið 2008 var Jaan undirleikari og fararstjóri í söngför Kvennakórs Akureyrar til Eistlands og tók síðan við stjórn hans í september sama ár.

Þórhildur Örvarsdóttir 2003 – 2005

tota
Þórhildur Örvarsdóttir

Þórhildur Örvarsdóttir er fædd og uppalin á Akureyri. Hún hóf söngnám í Reykjavík við Tónlistarskóla FÍH 1993 og fór þaðan í Tónlistarskólann á Akureyri. Hún lauk prófi frá Söngskólanum í Reykjavík vorið 2000. Einnig hefur hún sótt ýmis námskeið t.d. hjá Sigríði Ellu Magnúsdóttur, Elly Ameling og Cathrine Sadolin.
Þórhildur hefur komið víða við í tónlist þar á meðal í söngleiknum Evítu, sungið hlutverk Elisu Doolitte í My fair Lady og Saffiar í óperunni Sígaunabaróninn, auk þess að taka þátt í allskonar tónleikum og tækifærissöng.
Hún var fastur félagi í kammerkór Akureyrarkirkju – Hymnodia 2002-2005 og söngvari í þjóðlagahljómsveit-inni Mór. Hún hefur haldið fjölda námskeiða í söng og raddbeitingu bæði fyrir börn og fullorðna.
Þórhildur hélt sumarið 2005 til Danmerkur, með sína fimm manna fjölskyldu, til frekara náms við The Complete Vocal Institute í Kaupmannahöfn.
Þórhildur var stjórnandi Kvennakórs Akureyrar frá hausti 2003 – vors 2005.

Arnór Vilbergsson – Haust 2005 – haust 2008

Arnór kórstjóri
Arnór Vilbergsson

Arnór Vilbergsson er fæddur í Reykjavík og uppalinn í Keflavík. Hann hóf tónlistarnám sitt í tónlistarskólanum í Keflavík 10 ára gamall á píanó. Upp úr 20 ára aldri hóf hann nám í kirkjuorgelleik sem stendur enn. Þá hefur hann einnig lært töluvert í söng, bæði á vegum Tónskóla þjóðkirkjunnar hjá Guðrúnu Tómasdóttur, og Tónlistarskóla Akureyrar hjá Michael Jóni Clark.
Einnig hefur hann stundað nám í kórstjórn hjá Guðmundi Óla Gunnarssyni. Arnór hefur komið víða við á músíksviðinu, bæði trúarlegu og veraldlegu. Hann er organisti í Hríseyjarprestakalli og Laugalandsprestakalli, þar sem hann stjórnar þeim kirkjukórum sem þar eru. Hann hefur verið tónlistarstjóri í þremur söngleikjauppfærslum hjá Verkmenntaskólanum á Akureyri, komið að tónlistarmálum hjá Leikfélagi Akureyrar og spilað við fjöldann allann af tækifærum með hinum og þessum söngvurum og hljóðfæraleikurum.

Björn Leifsson 2001 – 2003

bjorn
Björn Leifsson

Björn Leifsson er fæddur í Reykjavík árið 1953. Hann er tónlistarkennari að mennt og sérhæfði sig í að kenna á ýmis blásturshljóðfæri. Kennaraprófinu lauk hann frá kennaradeild Tónlistarskólans í Reykjavík 1978 og klarínettukennaraprófi frá Guildhall School of Music and Drama árið 1981. Námskeið sem hann hefur sótt vegna tónlistar hafa borið hann víða: Til Svíþjóðar, Danmerkur, Noregs, Þýskalands, Kanada, Grænlands, Englands og einnig vítt og breitt um Ísland. Áður en hann tók kennaraprófið starfaði hann meðfram menntaskólanámi sínu lítillega við hljóðfærakennslu í Reykjavík, Hafnarfirði og síðar í Vestmannaeyjum, þar sem hann tvítugur að aldri var beðinn að stjórna Lúðrasveit Vestmannaeyja. Þetta var í janúar 1974, ári eftir að eldgosið í Heimaey hófst. Störf hans þar og við tónlistarskólann urðu til þess að hann ákvað að spreyta sig á vettvangi tónlistargyðjunnar.

Björn hefur sem tónlistarmaður komið við á ýmsum stöðum, en eftirfarandi listi er ekki tæmandi: Tónlistar-skóli Vestmannaeyja, Tónlistarskóli Hafnarfjarðar, Skólalúðrasveit Árbæjar- og Breiðholtshverfa, Sinfóníuhljómsveit Íslands, Lúðrasveitin Svanur í Reykjavík, Sinfóníuhljómsveit áhugamanna í Saint Albans, Lúðrasveit Royal Academy of Music, og Hill House drengjaskólinn í London, Tónlistarskóli Borgarfjarðar, þar sem hann starfaði í 14 ár, þar af 9 sem skólastjóri, tónmenntakennari við Grunnskólann í Borgarnesi, stjórnandi Lúðrasveitar Borgarness, leiklistardeild UMF Skallagríms, stjórnandi Samkórs Mýramanna og organisti í afleysingum, félagi í danshljómsveitinni Seðlum, og þátttakandi og kennari á Skálholtsnámskeiðum söngmálastjóra þjóðkirkjunnar; 1994 flutti Björn til Akureyrar, þar sem hann starfaði m.a. sem kennari, lúðrasveitarstjórnandi og deildarstjóri við Tónlistar-skólann á Akureyri, hljóðfæraleikari við Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, Leikfélag Akureyrar, í Lúðrasveit Akureyrar og stjórnandi hennar um skeið, söng með Kór Akureyrar-kirkju og Kammerkór Norðurlands, stjórnaði hljómsveitum á vegum Félags harmonikuunnenda við Eyjafjörð, Karlakór Eyjafjarðar, og HAK-kórnum; frá haustinu 2003 hefur Björn starfað sem organisti við Snartarstaðakirkju, Skinnastaðar- og Garðskirkju og sem kennari og skólastjóri Tónlistarskóla Öxarfjarðarhéraðs, þar sem hann stjórnar og æfir skólahljómsveitir af ýmsu tagi. Samkór Mýramanna gaf út bæði segulband og geisladisk með söng sínum meðan Björn stjórnaði honum. Hann hefur einnig útsett lög og tónverk fyrir kóra, hljómsveitir og lúðrasveitir.

Síðast en ekki síst hefur Björn stjórnað Kór Knattspyrnufélags Akureyrar, KA-kórnum, sem kom fram í fyrsta sinn á 70 ára afmælishátíð félagsins. Upp úr honum spratt síðan Kvennakór Akureyrar, sem Björn stjórnaði frá stofnun hans 2001 til haustsins 2003.

Vinir Björns hafa gert grín að því við hann, að hann hafi stofnað kórinn til að ná sér í konuefni, og má það til sanns vegar færa.