Jaan Alavere – Haustönn 2008

jaan2
Jaan Alavere

Jaan Alavere fæddist í Eistlandi árið 1969. Hann hóf fimm ára gamall píanónám og þegar hann var sjö ára tók hann einnig að læra á fiðlu. Hann gekk í grunn- og framhaldsskóla í Tallinn sem sérhæfður er í tónlistaruppeldi og leggur grunn að frekara námi í tónlist á háskólastigi. Nítján ára gamall útskrifaðist Jaan sem einleikari á fiðlu en jafnframt sem tónlistarkennari og píanóleikari. Hann fór síðan í tónlistarháskóla og lagði stund á fiðluleik og tónsmíðar.
Árið 1994 réðist Jaan sem fiðluleikari að sinfóníuhljómsveit elsta leikhúss í Eistlandi, en það er í borginni Tartu. Hann varð síðar konsertmeistari þeirrar hljómsveitar.
Þrátt fyrir ungan aldur býr Jaan yfir mikilli reynslu sem tónlistarmaður. Hann hefur tekið þátt í tónlistarkeppnum fyrir heimaland sitt, leikið í fjölda hljómsveita, allt frá dans- og djasshjómsveitum til sinfóníuhljómsveita. Hann leikur m.a. með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og var þar konsertmeistari um tíma.
Haustið 1998 var Jaan ráðinn deildarstjóri tónlistardeildar Stórutjarnarskóla og hefur frá þeim tíma einnig verið söngstjóri og undirleikari Söngfélagsins Sálubótar.

Sumarið 2008 var Jaan undirleikari og fararstjóri í söngför Kvennakórs Akureyrar til Eistlands og tók síðan við stjórn hans í september sama ár.