Tónleikar í Laugarborg 13. des.

jolaklKarlakór Eyjafjarðar, Kirkjukór Laugalandsprestakalls og Kvennakór Akureyrar halda sameiginlega tónleika í Laugarborg í Eyjafjarðarsveit fimmtudaginn 13. des. kl. 20:30. Kórarnir munu syngja nokkur lög hver og sameinast svo í einum stórum kór í lokin. Stjórnendur eru Daníel Þorsteinsson og Petra Björk Pálsdóttir. Húsið opnar kl. 19:30 og aðgangur er ókeypis.

Styrktartónleikar 25. nóv.

Kvennakór Akureyrar heldur sína 10. tónleika til styrktar Mæðrastyrksnefnd Akureyrar á sunnudaginn kemur, en fyrstu styrktartónleikarnir voru haldnir 4. desember 2003. Síðan þá hafa fjölmargir kórar og tónlistarmenn tekið þátt í þessum tónleikum og hafa allir undantekningalaust gefið sína vinnu og ágóðinn því runnið beint til Mæðrastyrksnefndar Akureyrar.
Að þessu sinni fær kórinn liðstyrk góðra gesta, en það eru þau Eyrún Unnarsdóttir og Friðrik Ómar.

Eyrún Unnarsdóttir
er fædd og uppalin á Akureyri og hóf hún sína tónlistarmenntun í Tónlistarskólanum á Akureyri. Eftir það stundaði hún nám í 5 ár við Tónlistarháskólann í Vínarborg undir handleiðslu Leopolds Spitzers og lauk þaðan tveimur diplómaprófum. Hún hefur sungið einsöng við fjölda tilefna hér á landi sem og í Vínarborg og tekið þátt í ýmsum  verkefnum og óperuuppfærslum. Til dæmis söng hún hlutverk seiðkonunnar í uppfærslu Hymnodiu á Dido og Aeneas eftir Henry Purcell sem flutt var í Hofi fyrr á þessu ári.
fridrikomar2

Friðrik Ómar Hjörleifsson er fæddur á Akureyri 1981, ólst upp á Dalvík frá árinu 1988, en flutti til Reykjavíkur 2003. Hann fór ungur að spila á trommur og önnur hljóðfæri, og um 10 ára gamall samdi hann sitt fyrsta lag. Friðrik Ómar hefur starfað með öllum helstu listamönnum þjóðarinnar og gefið út fjöldamargar plötur sem hafa selst í yfir 60 þúsund eintökum hér á landi. Friðrik Ómar sendi nýverið frá sér sína 5. sólóplötu sem ber heitið „Outside the ring“
Á tónleikunum annast undirleik hljómsveit sem skipuð er þeim Aladár Rácz á píanó, Stefáni Daða Ingólfssyni á bassa og Emil Þorra Emilssyni á slagverk.
Efnisskráin verður að vanda fjölbreytt og skemmtileg, bæði tónlist sem tengist aðventunni og einnig önnur lög sem kórinn hefur á efniskrá sinni. Friðrik Ómar og Eyrún syngja lög af sínum efnisskrám en kórinn syngur einnig með þeim í nokkrum lögum. Stjórnandi Kvennakórs Akureyrar er Daníel Þorsteinsson.
Kvennakór Akureyrar hvetur alla sem vettlingi geta valdið að taka nú höndum saman og styrkja Mæðrastyrksnefnd Akureyrar og hjálpa með því bágstöddum fjölskyldum fyrir jólin.  Um leið og tónleikagestir láta gott af sér leiða fá þeir að eiga notalega stund og hlýða á ljúfa ttónlist. Tónleikarnir verða  í Hamraborg í Hofi sunnudaginn 25. nóvember kl. 16:00. Miðasala er hafin í Hofi og á midi.is.

Kórahátiðin á laugardaginn

Nú styttist í Kórahátíðina í Hofi, en hún er næsta laugardag þann 27. okt.  Nánar um hátíðin má sjá á heimasíðu Hofs og þar er einnig tímaplan kóranna og fleira.  Kvennakór Akureyrar kemur fram kl. 13:10 en kórarnir syngja allir sameiginlega um kl. 15:30.  Þarna er boðið upp á samfellda tónleika frá kl. 10:30 til 16:00, aðgangur er ókeypis og hægt að koma og fara eins og hver vill á meðan á söngnum stendur.

Kórahátíð í Hofi

Síðastliðið haust tók Kvennakór Akureyrar þátt í mikilli kórahátíð í Hofi.  Þessi viðburður þótti þá takast svo vel að hann verður endurtekinn nú í október, nánar tiltekið laugardaginn 27. október, og að sjálfsögðu verður Kvennakór Akureyrar aftur með. Fram koma 20 kórar af öllu Norðurlandi og koma þeir fram einn af öðrum frá kl. 10:00 og allt þar til þeir sameinast í einum stórum kór kl. 17:00 undir stjórn Eyþórs Inga Jónssonar. Þá flytja kórarnir sameiginlega þrjú lög, þar af tvö eftir heiðurstónskáld hátíðarinnar, Birgi Helgason.

Boðið verður upp á námskeið og fyrirlestur í Hömurm sama dag, auk þess sem Kóramarkaður verður starfræktur frá kl. 12 til 16, þar sem hægt verður að kynna sér og kaupa útgefið efni kóranna.

Aðgangur að hátíðinni er ókeypis og allir velkomnir. Nánar um hátíðina má sjá á: http://www.menningarhus.is/is/vidburdir-og-midasala/vidburdayfirlit/2012-2013/korahatid-i-hofi-1

Haustmarkaður KVAK 8. sept.

Nú er komið að hinum árlega haustmarkaði Kvennakórs Akureyrar. Markaðurinn verður haldinn í Hlöðunni í Litla Garði laugardaginn 8. sept. og hefst hann kl 13:00. Þar verður ýmislegt á boðstólum, s.s. kökur, brauð, sultur, fjallagrös, fatnaður og margt fleira. Kórkonur taka lagið og gestir taka undir. Hægt verður að kaupa kaffi og vöfflur á staðnum. Kíkið endilega á markaðinn og eigið notalega stund í Hlöðunni.

Næst á döfinni hjá kórnum

Kórinn syngur í Gimli-garði við hátíðadagskrá á Íslendingadeginum 6. ágúst 2012. Fjallkonan nýkomin á svið.

Eftir frábærlega vel heppnaða söngför til Kanada hellir kórinn sér nú á fullt í næstu verkefni. Fyrst er þó við hæfi að færa öllum þeim sem styrktu kórinn til fararinnar bestu þakkir, hvort sem það var með auglýsingum eða með öðrum hætti.

Nú eru hátíðahöld vegna 150 ára afmælis Akureyrarkaupstaðar að ná hámarki og tekur kórinn þátt í þeim með söng á hátíðardagskrá á Akureyrarvelli laugardaginn 1. september kl. 14:00. Einnig má þess vænta að kórinn komi fram seint um kvöldið sama dag í Hofi.

Fimmtudaginn 6. september mun kórinn halda tónleika í Hjúkrunar- og dvalarheimilinu Hlíð kl. 19:00, en heimilið fagnar 50 ára afmæli sínu um þessar mundir. Í fyrstu hét heimilið Elliheimili Akureyrar og var byggt af Akureyrarbæ með stuðningi kvenfélagsins Framtíðarinnar. Heimilið var vígt 29. ágúst 1962 á 100 ára afmæli Akureyrarbæjar.

Árlegur haustmarkaður verður haldinn í Hlöðunni í Litla Garði laugardaginn 8. sept. og hefst hann kl 13:00. Þar verður ýmislegt á boðstólum, s.s. kökur, brauð, sultur, fjallagrös, fatnaður og margt fleira. Kórkonur taka lagið og hægt verður að kaupa kaffi og vöfflur á staðnum.

Laugardagurinn 11. ágúst

Í dag var enn sem fyrr sólskin og hiti á okkur ferðalangana í Vesturheimi. Frábær sigling eftir Missisippi, hádegisverður um borð og lifandi tónlist.  Kórinn tók svo lagið við frábærar undirtektir annarra farþega og fólkið á árbökkunum sem þar sat i sólbaði, lék sér eða veiddi fisk, tók undir og dillaði sér í takt við músíkina, og ekki síst í laginu Lion sleeps tonight.                                                               Kvöldinu lauk svo á veitingastað niðri í bæ, þar sem menn gæddu sér á dýrindis amerískum nautasteikum. Næsta verkefni er svo að pakka niður, morgundeginum verður eytt að eigin vali og beðið eftir flugi um kvöldið, en áætluð koma til Keflavíkur er um kl. 6:30 á mánudagsmorgun.

Tónleikum lokið

Í kvöld sungum við síðustu tónleikana okkar í ferðinni og það var þreyttur en ánægður hópur sem settist niður i lobbyinu á hótelinu á eftir. Við sungum í fallegri kirkju á háskólasvæðinu í miðborginni og fengum fjölmarga þakkláta áheyrendur, flesta af íslenskum ættum, en einnig frá öðrum Norðurlöndum. Ræðismaður Íslands í Minneapolis dr. Örn Arnar bauð okkur velkomin og bauð öllum viðstöddum til veislu á eftr,  en Íslendingafélagið stóð fyrir veitingum. Þarna fengum við mjög góðar móttökur og áttum gott spjall við fólkið, sem var þakklátt fyrir tónleikana og bað okkur að koma sem fyrst aftur!

Síðasti konsert í kvöld

Miðvikudagur og fimmtudagur fóru í það að ferðast frá Winnipeg til Minneapolis og gist á leiðinni í Fargo. Einnig voru nokkrar búðir skoðaðar í Albertville Premium Outlet og i Mall of America sem er i 5 min fjarlægð frá hótelinu okkar Spring Hill Suites.                                                                                                   Í kvöld er svo komið að síðustu tónleikunum í ferðinni en þá verður sungið í Grace University Lutherian Church og að því loknu verður kvöldverður og móttaka í boði Íslendingafélagsins hér.