Áætlað er að æfingar Kvennakórs Akureyrar hefjist í október. Æft verður síðdegis á sunnudögum og nú aftur í Brekkuskóla.
Kórinn hefur nú tekið til starfa aftur eftir langt hlé af völdum Covid19. Æfingar hófust 31. janúar að viðhöfðum ströngum sóttvarnarreglum. Grímuskylda er á æfingunum, sem skipt er í tvennt, sópranraddir sér og altraddir sér, og allt sótthreinsað á milli. Sú nýjung var einnig tekin upp að hafa beint streymi frá æfingunum til þess að koma til móts við þær kórkonur sem ekki treysta sér á æfingar við þessar aðstæður eða komast ekki.
Æfingar hafa verið fluttar úr Menntaskólanum á Akureyri í Lón, hús Karlakórs Akureyrar-Geysis. Í skólanum höfðu æfingar verið haldnar frá haustinu 2019 en áður höfðu þær verið í Brekkuskóla um árabil.
Stjórnandi kórsins frá haustinu 2019 er Valmar Väljaots og formaður er Þórunn Jónsdóttir.
Ráðgert hafði verið að hefja æfingar kórsins að nýju 20. september s.l. en vegna nýrrar bylgju í smitum og þar með vegna tilmæla sóttvarnarlæknis ákvað stjórn kórsins að bíða átekta enn um sinn.

Í byrjun mars var ákveðið að fella niður æfingar kórsins og taka þar með þátt í almannavörnum til að verjast útbreiðslu Covid19 veirunnar.
Sú ákvörðun gildir að sjálfsögðu áfram þar sem nú hefur verið sett á samkomubann á landinu.
Kvennakór Akureyrar tók þátt í því í gær að veita Sólveigu Hrafnsdóttur, söngkonu í alt 1, sína hinstu kveðju þegar hún var jarðsungin í Akureyrarkirkju.
Sólveig féll frá 10. janúar, en hún hafði sungið með kórnum um árabil og meðal annars setið í stjórn kórsins. Hún var dýrmætur kórfélagi og hennar verður sárt saknað.
Kórkonur votta eiginmanni Sólveigar og aðstandendum sína dýpstu samúð og lýsa þakklæti sínu fyrir að fá að taka þátt í þessari fallegu athöfn.
Kór Glerárkirkju heldur jólatónleika í Glerárkirkju ásamt góðum gestum, Kvennakór Akureyrar, sunnudag 29. des. kl. 16.00.
Stjórnandi og meðleikari beggja kóranna er Valmar Väljaots.
Fjölbreytt efnisskrá. Verið velkomin að eiga með okkur yndislega jólastund í Glerárkirkju.
Enginn aðgangseyrir.

Æfingar á haustönn undir stjórn nýs kórstjóra hafa gengið vel. Æfingadagur var haldinn 10. nóvember og var þá m.a. byrjað að æfa jólalögin.
Að þessu sinni heldur kórinn ekki sína eigin jólatónleika en tekur þess í stað þátt í tvennum tónleikum með öðrum kórum.
Sunnudaginn 15. desember verða fyrri tónleikarnir kl. 16:00 í Glerárkirkju ásamt Kirkjukór Glerárkirkju.
Seinni tónleikarnir verða fimmtudaginn 19. des kl. 19:00 en Karlakór Eyjafjarðar bauð Kvennakór Akureyrar og einum barnakór að syngja þar með sér sem gestakórar. Þar verða einnig einsöngvararnir Helena Guðlaug Bjarnadóttir, Margrét Árnadóttir og Pálmi Óskarsson.
Nánari upplýsingar eða auglýsingar um þessa tónleika birtast hér síðar.
Í dag hefjast æfingar kórsins á haustönn. Nú hefur verið skipt um um æfingastað og æfingar flytjast úr Brekkuskóla í Menntaskólann á Akureyri.
Sigrún Magna Þórsteinsdóttir hefur látið af störfum sem kórstjóri, við þökkum henni frábært samstarf og í hennar stað bjóðum við velkominn nýjan kórstjóra, Valmar Väljaots.
Valmar er fjölhæfur og margreyndur tónlistarmaður sem kom hingað til lands frá Eistlandi fyrir 25 árum og hlökkum við kórkonur til samstarfsins við hann.
Á Akureyrarvöku nánar tiltekið á laugardagskvöld kl. 22:45 er boðið upp á kvöldsiglingu meða Húna II frá Torfunefnsbryggju.
Fyrir brottför syngur kórinn nokkur lög undir stjórn Sigrúnar Mögnu Þórsteinsdóttur sem með því lýkur sinni kórstjórn hjá Kvennakór Akureyrar.
Sjáumst á bryggjunni !
https://www.facebook.com/events/733614660428288/