Góður æfingadagur að baki

Laugardaginn 2. apríl var haldinn æfingadagur fyrir kórinn í Stórutjarnaskóla í Ljósavatnsskarði.  Æfingar stóðu frá kl. 9 að morgni til klukkan að ganga sex síðdegis.

Kórinn æfir nú fyrir landsmót kvennakóra sem haldið verður á Selfossi 29. apríl til 1. maí n.k.  Þar munu um 600 konur sameinast í æfingum og söng.  Nánar verður sagt frá mótinu síðar.

GoRed dagurinn

Kvennakór AKureyrar syngur nokkur lög á Hótel Kea á konudaginn 20 febrúar, en þar er dagskrá kl. 14 – 16 á vegum Hjartaverndar sem nefnist GoRed og er átak til vakningar um hjarta- og æðasjúkdóma kvenna.

Konur eru hvattar til að mæta rauðklæddar !

Góugleði Kvennakórsins

alt

KVENNAKÓR AKUREYRAR BÝÐUR TIL GÓUGLEÐI!!

HALDNIR VERÐA TÓNLEIKAR Í HÖMRUM, HOFI LAUGARDAGINN 5. MARS 2011
KL. 16:00.

KÓRINN MUN EINGÖNGU FLYTJA ÍSLENSKA TÓNLIST EFTIR ÝMSA HÖFUNDA, SVO SEM MEGAS, INGA T. LÁRUSSON,  ATLA HEIMI SVEINSSON OG MARGA FLEIRI.

EINSÖNGVARI MEÐ KÓRNUM ER EYRÚN UNNARSDÓTTIR MEZZOSÓPRAN.
MUN HÚN MEÐAL ANNARS SYNGJA RÓSINA EFTIR FRIÐRIK JÓNSSON FRÁ HALLDÓRSSTÖÐUM AÐ ÓGLEYMDRI PERLU MEGASAR, SPÁÐU Í MIG.

ÞETTA VERÐUR ÞVÍ SANNKÖLLUÐ ÍSLENSK SÖNGVEISLA,
EN EINNIG MUNU KÓRKONUR BRJÓTA DAGSKRÁNA UPP MEÐ STUTTUM SÖGUM AF GÖMLUM HEFÐUM OG SÖGNUM TENGDUM GÓUNNI.

STJÓRNANDI OG UNDIRLEIKARI ER DANÍEL ÞORSTEINSSON.

MIÐAVERÐ ER 2000 KRÓNUR EN HÆGT ER AÐ NÁLGAST MIÐA Í HOFI EÐA Á MENNINGARHUS.IS
FRÍTT FYRIR 12 ÁRA OG YNGRI.

GÓÐA SKEMMTUN!!

Tónleikar 5. mars í Hofi

Þann 5. mars næstkomandi kl. 16:00 heldur kórinn tónleika í Hömrum, sem er minni salurinn í Hofi. Salurinn getur tekið 200 manns í sæti, í honum er mikil áhersla lögð á hljómburð og hentar hann vel til tónlistarflutnings bæði fyrir rafmagnaða og órafmagnaða tónlist, eins og segir á heimasíðu Menningarhússins Hofs.

Á efnisskrá verða eingöngu íslensk lög og einsöngvari verður Eyrún Unnarsdóttir, messósópran.

Nánari fréttir af tónleikunum koma hér síðar.

Kórinn kominn á fulla ferð eftir jólafríið

Æfingar hófust í dag, 9. janúar, eftir langt og gott jólafrí.  Dagskráin til vors er metnaðarfull og kórfélagar munu hafa í nógu að snúast.

Á vorönninni verða væntanlega haldnir tvennir tónleikar, þeir fyrri í febrúar/mars, en þeir síðari um mánaðrmót maí/júní og að minnsta kosti ein æfingahelgi verður á vorönn, þ.e. 2. – 3. apríl.

29. apríl – 1. maí verður farið á Landsmót íslenskra kvennakóra á Selfossi. Þar mun fjöldi kvennakóra leiða saman hesta sína og þar verður unnið í hópum með mismunandi tegundir af tónlist.  Kórarnir flytja hver og einn eitthvað af sinni dagskrá  en síðan verður sameiginleg dagskrá þar sem flutt verður m.a. sérstakt landsmótslag 2011, en það er sérstaklega samið af þessu tilefni.

Söngur í miðbænum – Gleðileg jól!

Laugardaginn 18. desember verður jólasöngur hingað og þangað um miðbæinn frá klukkan 15-17.30 þar sem fram koma kórar og tónlistarhópar af Eyjafjarðarsvæðinu.

Kvennakór Akureyrar syngur kl. 16:30 og syngur þar með jólin inn en tekur sér svo frí fram yfir áramót.

Kvennakór Akureyrar óskar velunnurum sínum, svo og landsmönnum öllum, gleðilegra jóla og heillaríks nýs árs og þakkar stuðning og hlýhug á árinu sem er að líða.

Tónleikar til styrktar Mæðrastyrksnefnd Akureyrar

Þann 21. nóvember heldur Kvennakór Akureyrar sína árlegu styrktartónleika fyrir Mæðrastyrksnefnd Akureyrar. Að þessu sinni fær kórinn til liðs við sig Æskulýðskór Glerárkirkju undir stjórn Olgu Ásrúnar Stefánsdóttur.

Efnisskráin er fjölbreytt, þar verða íslensk og erlend lög, bæði jólalög og ekki jólalög, þar sem enn verður rúmur mánuður til jóla þegar tónleikarnir eru haldnir. 

Tónleikarnir verða í Akureyrarkirkju 21. nóvember kl. 16:00.