Kl.9 stundvíslega var ekið af stað frá Winnipeg norður á bóginn og stefnan tekin á Árborg. Himininn skafheiður og hitinn bærilegur, ca 25°. Fljótlega blöstu við skilti með íslenskum bæjanöfnum og einhvern veginn vorum við að færast nær og nær Íslendingunum sem hingað fluttu á 19. öldinni. Í Árborg skoðuðum við minjasafnið Arborg & District Multicultural Heritage Village en þar gat að líta aðflutt hús íslenskra fjölskyldna, svo sem Sigvaldason House, Vigfússon House o.fl. Það var stórfenglegt að hitta í þessum húsum íslenskumælandi fólk sem sagði okkur sögu íbúa þeirra. Sum þeirra höfðu aldrei komið til Íslands og einn maður sagði okkur að hann hefði lært íslenskuna vegna þess að afi hans svaraði honum ekki ef hann talaði ekki íslensku! Í Árborg komum við einnig á heimili hjónanna Rosalind og Einar Vigfusson en þau eru miklir Íslendingar og taka á móti miklum fjölda íslenskra gesta. Rosalind stofnaði íslenskan barnakór og hefur komið með hann til Íslands. Einar er mikill tréskurðarmeistari og sker út og málar fugla og hefur hlotið verðlaun á heimsvísu fyrir. Frá Árborg var síðan haldið út í Mikley eða Hecla og er það hreint dásamlegur staður. Þar var skoðað minjasafn um veiðar í Winnipegvatni, ferðalangar voru fegnir að sjá vatn eftir allar slétturnar og sumir dífðu jafnvel tánum í. Þarna skoðuðum við hús, skóla og kirkju og tókum síðan lagið í kirkjunni. Næst var haldið til Riverton, snæddur kvöldverður, stutt æfing tekin og síðan tónleikar. Fjöldi manns mætti á tónleikana og sumir voru jafnvel búnir að fylgja okkur eftir og mæta á alla okkar tónleika. Á eftir var kaffi og meðlæti þar sem við gátum spjallað við fólkið og margir gátu spjallað eða alla vega skilið íslenskuna. Ekki má gleyma því að á borðum í Árborg og Riverton voru m.a. á borðum kleinur, pönnukökur, randalín og hjónabandssæla! Það var þreyttur en alsæll hópur sem kom á hótel í Winnipeg kl 11, en samt var sest niður í lobbyi til að bera saman bækur sínar og gleðjast yfir vel heppnuðum degi og tónleikum.
I dag, 6. ágúst var hreint stórkostlegur dagur hjá kórnum í Kanada. Við mættum fyrir kl. 10 í Gimli til þess að taka þátt í skrúðgöngu á hátíðinni. Við komum okkur fyrir á gríðarstórum trrukk- vagni, settumst þar á heybagga, með íslenska fánann í hönd, Daníel spilaði á harmoniku og við sungum. Vagninum var ekið í broddi fylkingar hring um bæinn. bæjarbúar og gestir höfðu komið sér vel fyrir á leið skrúðgöngunnar og fögnuðu okkur og öðrum í göngunni. Var þetta hin mesta upplifun og þótti sumum sem nú stæðu þeir á hátindi frægðar sinnar. Hátíðahöld í Gimligarði hófust síðan kl.13:00 og með fyrstu atriðum á dagskránni var söngur Kvennakórs Akureyrar. Að honum loknum komu sér fyrir à sviði bæjarstjórar Akureyrar og Gimli ásamt eiginkonum, Bjarni Benediktsson og frú, Atli Ásmundsson,ræðismaður og frú ásamt fleiri stórmennum sem ekki verða talin upp hér. Fjölmargar ræður voru haldnar og var kórinn til taks á sviði og söng meðal annars Fósturlandsins freyja við inngöngu fjallkonunnar svo og fleiri ættjarðarlög og þjóðsöngva Kanada og Íslands. Veðrið var stórfenglegt, glaða sólskin og hitinn um 25 stig. Dásamlegur dagur í alla staði og stórfengleg upplifun.
Í dag 5. ágúst ferðuðumst við frá Grand Forks í N.Dakota til Winnipeg og að lokinni innritun á hótel þar var haldið til Gimli. Ferðin stóð yfir frá kl. 9 um morguninn og til Gimli komum við kl. 16. Á landamærum USA og Kanada var búist við langri bið og mörgum erfiðum spurningum, en viti menn! Annar landamæravörðurinn var ung stúlka af íslensku bergi brotin, hún afgreiddi okkur á methraða, brosti breitt og var búin að æfa sig að segja TAKK. Að lokinni æfingu á tónleikastað hófust tónleikar, The Celebrity Concert i Johnson Hall kl. 19:30. Tónleikar þessir eru hluti af hátíðahöldum Íslendingadagsins og þar eru samankomnir Vestur-Íslendingar og ýmsir tignir boðsgestir. Bæjarstjórahjónin á Akureyri voru þar og fleiri gestir fra Íslandi, auk bæjarstjóra Gimli, formanns hátíðarnefndar og fleiri og fleiri. Það er skemmst frá því að segja kórinn fékk mikið lof fyrir sönginn og mátti víða sjá tár blika á hvörmum viðstaddra. Að lokum afhenti formaður hátíðarnefndar Daníel kórstjóra fjárstyrk til kórsins. Það voru ánægðar og þreyttar konur sem þá héldu heim á hótel í Wp, samt syngjandi hástöfum í rútunni.
Eftir flug til Minneapolis dagana 2. og 3. ágúst sameinuðust allir félagar og fylgifiskar Kvennakórs Akureyrar að kvöldi 3.ág. í smábænum Rogers. Að morgni 4.ág. var haldið norður á bóginn og ekið til Grand Forks með viðkomu i Clearwater, en hádegisverður snæddur í Alexandriu. Að honum loknum var þar skoðað norrænt byggðasafn og í lítilli kirkju á safnsvæðinu brast kórinn í söng, sem síðan var endurtekinn að ósk safngesta sem misstu af frumflutningi. Á morgun 5.ág. verður haldið til Winnipeg og Gimli.
Mynd af vagni í skrúðgöngu á Íslendingadeginum.
Kvennakór Akureyrar heldur nú í vikunni ásamt stjórnanda sínum vestur um haf á Íslendingaslóðir. Ferðinni er heitið til USA og Kanada, nánar tiltekið á Íslendingahátíð á Gimli.Flogið verður til Minnieapolis frá Keflavík og þaðan ekið í tveimur áföngum til Winnipeg, Markmið ferðarinnar er að taka þátt í árlegum hátíðahöldum Íslendinga í Gimili. Hátíðin á sér langa sögu, allt frá 1874, en hefur verið haldin í Gimli síðan 1932. Hún er einhver merkilegasta sinnar tegundar í Kanada, þar sem fólk af íslensku bergi brotið kemur saman ásamt gestum sem sækja hátiðina og er þar er mikið líf og fjör.
Sunnudaginn 5. ágúst er hópurinn kominn til Gimli og kíkir á hátíðahöldin yfir daginn og tekur síðan þátt í konsert um kvöldið ásamt fleiri tónlistarmönnum. Daginn eftir þann 6. ágúst er stórkostleg skrúðganga, þar sem ekið er um í vögnum og þar mun kórinn sitja með íslenska fána og jafnvel taka lagið undir harmonikuleik kórstjóra. Síðan hefst hátíðardagskrá þar sem fjallkonan kemur fram og ræður verða fluttar. Akureyri er vinabær Gimli og þar munu 150 ára afmælisfánarnir einnig blakta við hún og Eiríkur Björgvinsson, bæjarstjóri heimsækir hátíðina einnig af því tilefni.
Þriðjudaginn 7. ágúst verður haldið í skoðunarferð til Nýja Íslands en um kvöldið haldinn konsert í Riverton.
Á bakaleið er svo haldinn konsert í Minneapolis föstudaginn 10. ágúst og móttaka verður hjá Íslendingafélagi þar að honum loknum.
Laugardaginn 11. ágúst verður siglt um Missisippi og síðan haldið heim að kvöldi 12. ágúst. Í förinni eru 61 manns, 42 kórfélagar, kórstjóri og 18 makar. Kórkonur eru að vonum spenntar fyrir ferðinni og hafa æft stíft í allt sumar til að geta verið landi sínu og heimabæ til sóma.
Akureyrarbær og Kvennakór Akureyrar hafa gert með sér samning um framlög til starfsemi Kvennakórs Akureyrar á árunum 2012-2014. Slíkur samningur hefur áður verið í gildi, en þessi felur í sér hækkun frá því sem verið hefur.
Í samningnum kemur fram að Akureyrarstofa getur óskað eftir þátttöku kórsins í stærri viðburðum sem hún kemur að því að skipuleggja svo sem 17. júní og Akureyrarvöku.
Samkvæmt þessu ákvæði kemur fram ósk um að kórinn taki þátt í hátíðarhöldum árið 2012 í tilefni af 150 ára afmæli Akureyrar, og þá væntanlega í síðustu vikunni í ágúst.
Formlegu vetrarstarfi kórsins lauk með vortónleikum í Laugarborg 28. maí á annan í hvítasunnu. Þrátt fyrir einstaka veðurblíðu voru tónleikarnir vel sóttir og gæddu tónleikagestir sér á kaffi og vöfflum á eftir.
Víkingastytta í Gimli
Þann 20 júní hefjast svo æfingar fyrir Kanadaferðina sem farin verður 2. – 12. ágúst næstkomandi. Flogið verður til Minneapolis 2. og 3. ágúst og þaðan ekið á tveimur dögum til Winnepeg. Kórinn kemur fram og tekur þátt í Íslendingadeginum í Gimli, heimsækir Mikley og heldur tónleika í Riverton og Minneapolis svo nokkuð sé nefnt, en nánar verður sagt frá ferðinni þegar nær dregur.
Það er mikill ferðahugur og tilhlökkun hjá kórfélögum að taka þátt í skemmtilegri dagskrá og hitta afkomendur Íslendinganna sem fluttu til Vesturheims.
Gimli í Kanada
Vortónleikar Kvennakórs Akureyrar eru tileinkaðir söngför til Kanada á komandi sumri.
Kvennakór Aureyrar er nú á 11. starfsári og hefur í vetur haldið þrenna tónleika. Nú er komið að fjórðu tónleikunum, en það eru hinir árlegu vortónleikar sem að þessu sinni verða haldnir í Laugarborg þann 28. maí.
Kórinn stefnir í sumar á sína þriðju tónleikaferð til útlanda. Árið 2005 var farið til Slóveníu, 2008 til Eistlands en nú er förinni heitið á Íslendingarslóðir í Kanada. Kórinn mun koma fram á Íslendingadeginum í Gimli en heldur auk þess tónleika í Riverton og Minneapolis.
Söngskráin á tónleikunum í Laugarborg er afar fjölbreytt og má þar finna bæði íslensk og erlend lög, allt frá þjóðlögum til nýrra tónsmíða og þarna má m.a. finna sýnishorn af því sem kórinn ætlar að flytja fyrir frændur okkar í Vesturheimi. Má þar m.a. nefna Ísland ögrum skorið, God save the Queen, ítalska lagið Con te Partiro, þjóðsöng Kanada og Haust á Akureyri, en það er lag og ljóð Akureyringanna Birgis Helgasonar og Arnar Snorrasonar.
Í upphafi og á milli laga á tónleikunum verða smá innslög með ýmsum fróðleik sem tengjast Vestur-Íslendingum á einhvern hátt. Stjórnandi Kvennakórs Akureyrar er Daníel Þorsteinsson og mun hann einnig annast undirleik.
Tónleikarnir verða haldnir í Laugarborg á 2. í hvítasunnu, þann 28. maí kl. 15:00. Aðgangseyrir er kr. 2000.- en frítt fyrir 14 ára og yngri. Innifalið í verðinu er kaffi og vöfflur að tónleikum loknum, en vinsamlegast athugið að ekki er tekið við greiðslukortum.
Kvennakór Akureyrar
Karlakór Akureyrar – Geysir
Sunnudaginn 6 maí n.k. leggur Kvennakór Akureyrar land undir fót til Siglufjarðar. Kórinn er þó ekki einn á ferð því með í för er Karlakór Akureyar – Geysir og ætla kórarnir að halda sameiginlega tónleika í Siglufjarðarkirkju. Karlakór Siglufjarðar tekur á móti kórunum og syngur nokkur lög með Karlakór Akureyrar-Geysi. Jónas Þór Jónasson syngur einsöng með kórnum og kvartett skipaður félögum úr Karlakór Akureyrar Geysi tekur einnig lagið.
Söngskráin er afar fjölbreytt og má þar finna bæði íslensk og erlend lög, allt frá þjóðlögum til nýrri tónsmíða. Sungin eru lög við ljóð kunnra höfunda svo sem Davíðs Stefánssonar, Jónasar Hallgrímssonar, Steingríms Thorsteinssonar, Megasar o.fl. en einnig syngja kórarnir á ensku, þýsku, ítölsku og japönsku svo nokkuð sé nefnt.
Kvennakór Akureyrar er á leið í söngferðalag til Kanada í ágúst næstkomandi og er því efnisskráin orðin afar þjóðleg og fjölbreytt.
Stjórnandi Kvennakórs Akureyrar er Daníel Þorsteinsson og mun hann einnig annast undirleik. Stjórnandi Karlakórs Akureyrar-Geysis er Valmar Väljaots.
Tónleikarnir í Siglufjarðarkirkju hefjast kl. 15:00, miðar seljast við innganginn og kosta kr. 2000.- . Að loknum tónleikum þiggja kórfélagar veitingar á Kaffi Rauðku, áður en haldið verður heim á leið.
Karlakór Siglufjarðar í Siglufjarðarkirkju
Næst komandi laugardag, þann 31. mars, mun kórinn syngja á kynningarfundi á vegum Þjóðræknisfélags Íslands og utanríkisráðuneytisins.
Kvennakór Akureyrar syngur við upphaf fundarins.
Atli Ásmundsson aðalræðismaður Íslands í Winnipeg heldur erindi í máli og myndum sem nefnist: Á slóðum Vestur-Íslendinga í Manitoba.
Almar Grímsson fyrrv. form. Þjóðræknisfélagsins heldur stutta kynningu á félaginu.
Kvennakór Akureyrar syngur aftur í lokin.
Sjá nánar á http.//inl.is og á heimasíðu Amtbókasafnsins http://www.akureyri.is/amtsbokasafn/
Kórinn mun halda á slóðir VesturÍslendinga næsta sumar og syngja m.a. á Íslendingadeginum í Gimli.