Landsmóti íslenskra kvennakóra lauk á sunnudag

Landsmótstónleikar í Hofi 2014

Gígjan, landssamband íslenskra kvennakóra, stendur fyrir landsmótum á þriggja ára fresti. Nú um helgina 9.-11. maí var níunda landsmótið haldið á Akureyri. Kvennakór Akureyrar fékk það hlutverk fyrir þremur árum á Selfossi að sjá um skipulagningu og framkvæmd þessa móts. Tuttugu kvennakórar víðsvegar að af landinu komu til þátttöku og einn gestakór, Vox humana kom frá Mandal í Noregi. Það voru því á áttunda hundrað konur sem settu sterkan svip á bæjarlífið á Akureyri þessa helgi og söngurinn ómaði um bæinn.

kirkjutroppurMótið var sett á föstudegi í Menningarhúsinu Hofi en að afloknum kvöldverði í Íþróttahöllinni hélt allur skarinn niður í kirkjutröppur þar sem sungið var ljóðið Akureyri – Norðrið fagra eftir Stefán Vilhjálmsson við lag Jóns Ásgeirssonar við Maístjörnuna.  Að því loknu var haldið í miðbæinn þar sem nemendur úr Tónlistarskólanum skemmtu með söng og spili. Næst var safnast saman í Skátagili þar sem Anna Richardsdóttir framdi einn af sínum frægu gjörningum fyrir landsmótskonurnar. Þá var komið að einu atriðinu enn í þessari ferð um miðbæinn, gangan flæddi niður að Hofi, konurnar mynduðu hring um Hof, reyndar var hringurinn tvöfaldur og svo var Hofið umfaðmað af öllum þessum konum. Þar var svo dvalið um stund við veitingar og söng.

hof_umfadmÁ laugardeginum tók alvaran við. Unnið var í sex söngsmiðjum, sem hver hafði sitt þema með þremur lögum og dreifðust smiðjurnar víðs vegar um bæinn. Þar blönduðust þá nokkrir kórar saman í hverja smiðju og var fjöldinn í hverri smiðju um og yfir 100 manns. Við tóku þrotlausar æfingar ýmist í smiðjunum eða þá að þær sameinuðust í einn stóran kór sem æfði 4 lög.
Á laugardeginu var gert hlé á æfingum og þá voru haldnir tónleikar bæði í Hamraborg og í Hömrum í Hofi þar sem hver þátttökukór flutti nokkur lög af sínu eigin programmi. Um kvöldið var hátíðarkvöldverður í Íþróttahöllinni þar sem sr. Hildur Eir stjórnaði veislunni af sinni alkunnu snilld, Vox Humana frá Noregi söng fyrir hátíðargesti og voru hreint frábærar. Óskar Pétursson og Snorri Guðvarðsson skemmtu og hljómsveitin Einn og sjötíu lék fyrir dansi. Af og til var svo brugðið upp útsendingu frá Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva og líklega hefur þetta verið stærsta Eurovision-partý landsins.

Á sunnudeginum hófust æfingar kl 9 og áfram haldið með æfingar í smiðjum og í sameiginlegum kór. Afraksturinn var svo fluttur í Hamraborginni í Hofi kl. 15:00. Þar komu fram:
Gígjusmiðja, stjórnandi Sigrún Magna Þórsteinsdóttir; Madrigalasmiðja, stjórnandi Michael Jón Clarke; Norræn kvennakóralög, stjórnandi Ingibjörg Guðjónsdóttir; Rokksmiðja, stjórnandi Sigríður Eyþórsdóttir; Spunasmiðja, stjórnandi Eyþór Ingi Jónsson; Þjóðlagasmiðja, stjórnandi Guðmundur Óli Gunnarsson; Sameiginlegur kór, stjórnandi Guðmundur Óli Gunnarsson, sem einnig stjórnaði hljómsveit skipaðri félögum úr Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og kennurum úr Tónlistarskólanum á Akureyri. Fyrir hvert landsmót er samið við tónskáld um að semja sérstakt landsmótslag. Að þessu sinni varð Hugi Guðmundsson fyrir valinu og var lag hans við texta Jakobínu Sigurðardóttur, Vor í garði frumflutt á tónleikunum.

hatidartonleikarAð afloknum vel heppnuðum hátíðartónleikum voru mótsslit þar sem Una Þórey formaður Kvennakórs Akureyrar þakkaði mótsgestum fyrir komuna og mótsstjóri Margrét Bóasadóttir, stjórnendur og þátttökukórar fengu þakklætisvott fyrir afar vel unnin og vönduð störf. Formaður norska gestakórsins ávarpaði samkomuna á íslensku og þakkaði móttökurnar. Einnig fengu þær Snæfríð, Anna og Hólmfríður í landsmótsnefndinni verðskuldaðar þakkir fyrir frábært skipulag og alla yfirumsjón með mótinu. Formaður Gígjunnar, Þórhildur G. Kristjánsdóttir, þakkaði Kvennakór Akureyrar fyrir mótshaldið og mótttökurnar og afhenti síðan Kvennakór Ísafjarðar boltann, næsta landsmót íslenskra kvennakóra verður því haldið á Ísafirði vorið 2017.  Að þessu loknu  um kl. 18:00 var boðið upp á léttar veitingar og hélt síðan hver til síns heima og sumir um langan veg.

Kvennakór Akureyrar með Daníel Þorsteinsson í broddi fylkingar, þakkar kærlega og af öllu hjarta öllum sem tóku á einhvern hátt þátt í því að gera þetta landsmót sem veglegast.
Bautanum á Akureyri viljum við þakka fyrir dásamlegan mat alla helgina og héðan fór enginn svangur. Starfsfólk Hofs fær einnig okkar innilegustu þakkir fyrir frábæra þjónustu og aðstoð og það var mikil upplifun fyrir kórkonur að fá að syngja í þessu flotta menningarhúsi.
Kórkonur voru myndaðar í bak og fyrir alla helgina og heiðurinn að þeim myndum eiga þær ÁLFkonur Linda Ólafsdóttir og Helga Gunnlaugsdóttir.
Mótsstjóra og þátttökukórum, þá sérstaklega Kvennakórnum Sölku á Dalvík, er þakkað fyrir þeirra hlut til að gera þetta landsmót að skemmtilegum, litríkum og gefandi viðburði. Kórstjórum, söngsmiðjustjórum og hljóðfæraleikurum er einnig þakkað fyrir dásamlega samveru um helgina.
Minningin um ykkur öll og frábæra söngveislu lifir!

Fleiri myndir frá landsmótinu má sjá hér 

 

Æfingadagur 12. apríl í MA

Í gær, laugardaginn 12. apríl tókum við daginn snemma og byrjuðum æfingar kl. 9 í gamla sal Menntaskólans á Akureyri.  Sönghefti landsmótsins var tekið fyrir eins og það lagði sig.

Um hádegisbilið fengum við góðan gest, Guðrúnu Jónsdóttur, sem gaf okkur innsýn í hláturjóga og lét okkur taka nokkrar léttar æfingar við mikinn fögnuð.  Hláturgusrnar gengu yfir og gólfið dúaði undir okkur, en gömlu skólameistararnir og kennararnir á veggjunum létu sér hvergi bregða!

Hádegisnestið okkar snæddum við svo í kaffistofu og setustofum kennara í þessu dásamlega gamla húsi. Að því loknu stóðu æfingar yfir til kl 15:00 og þótti þessi æfingadagur takast mjög vel.

Miðasala hafin á Hátíðartónleika Landsmóts kvennakóra

Miðasala er nú hafin á Hátíðartónleika Landsmóts kvennakóra sem haldnir verða sunnudaginn 11. maí í Hofi.

Miða á tónleikana má nálgast á vefsíðu Hofs  eða á midi.is

Landsmót íslenskra kvennakóra verður haldið á Akureyri dagana 9. – 11. maí og sér Kvennakór Akureyrar um skipulagningu mótsins. Yfir 700 konur úr 20 kórum víðsvegar af landinu og einum frá Noregi taka þátt í mótinu. Dagskráin er vegleg og skemmtileg þannig að allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.

Sunnudaginn 11. maí kl. 15:00 verða stórtónleikar í Hamraborg og munu konurnar skipta sér í sex söngsmiðjur sem hver flytur þrjú lög. Allir þátttakendur landsmótsins mynda síðan einn stóran kór við undirleik hljómsveitar undir stjórn okkar ástsæla Guðmundar Óla Gunnarssonar, stjórnanda Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands. Þá frumflytur stórkórinn landsmótslagið  ásamt því að syngja þrjú önnur lög. Hugi Guðmundsson tónskáld samdi landsmótslagið að þessu sinni við ljóð Jakobínu Sigurðardóttur, Vor í Garði.

Söngsmiðjurnar eru fjölbreyttar og höfum við fengið hæfileikaríkt tónlistarfólk til að stjórna þeim.

Gígjusmiðja undir stjórn Sigrúnar Mögnu Þórsteinsdóttur, organista Akureyrarkirkju en þetta eru lög úr fórum kvennakórsins Gígjunnar á Akureyri og Jakobs Tryggvasonar.

Madrigalasmiðja undir stjórn Michael Jóns Clarke, söngvara og söngkennara við Tónlistarskólann á Akureyri.

Norræn kvennakóralög undir stjórn Ingibjargar Guðjónsdóttur, söngkonu og kórstjóra Kvennakórs Garðabæjar.

Rokksmiðja undir stjórn Sigríðar Eyþórsdóttur, kórstjóra Íslenska kvennakórsins í Kaupmannahöfn.

Spunasmiðja undir stjórn Eyþórs Inga Jónssonar, organista í Akureyrarkirkju.

Þjóðlagasmiðja undir stjórn Guðmundar Óla Gunnarssonar, stjórnanda Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands og tónlistarstjóra Íslensku óperunnar.

Endurnýjun á vefsíðunni

Eins og margir taka eflaust eftir hefur vefsíða kórsins tekið algjörum stakkaskiptum.  Útilitið er breytt og á eftir að taka fleiri breytingum. Verið var að skipta um vefumsjónarkerfi, gamla kerfið var orðið úrelt og ónothæft.  Nú er unnið að því að koma öllum upplýsingum af gömlu síðunni á sinn stað á þeirri nýju.  Myndasöfnin verða látin bíða um sinn. Búast má við því að þessar breytingar taki smá tíma og er beðist velvirðingar á því ef þetta veldur einhverjum erfiðleikum.  Kórfélagar fá upplýsingar í tölvupósti um aðgang að lokuðu svæði sem nú kallast Innri vefur.

Tenglar á facebook síður

 

Kvennakór Akureyrar er með síðu á facebook þar sem allir áhugasamir geta geta látið sér líka við síðuna og fylgst með hvað er að gerast þar. Hér efst á síðunni til hægri er hnappur fyrir Like og líka er hægt að fara inn á síðuna hér.

Einnig hefur verið sett upp sérstök síða á facebook fyrir Landsmót íslenskra kvennakóra 2014 eins og sjá má hér.

Æfingahelgi á Húsabakka í Svarfaðardal

Kvennakór Akureyrar hélt tveggja daga æfingabúðir að Húsabakka í Svarfaðardal 25. – 26. janúar.  Það er mikill hugur í kórkonum og mikið að gera að æfa fyrir landsmót kvennakóra í maí.

Æfingar hófust um kl. 10 á laugardagsmorgni og æft var stíft með smá hléum fyrir mat og drykk til kl 5 síðdegis. Auk kórstjórans Daníels var Sigrún Magna Þórsteinsdóttir kölluð til liðs, en hún er einmitt ein af kórstjórunum sem stjórna söngsmiðjum á landsmótinu.

Kórkonur skiptu með sér verkum og sáu sjálfar um að næra hópinn og er óhætt að segja að nóg var að bíta og brenna.  Að afloknum kvöldverði var svo kvöldvaka þar sem hvert skemmtiatriðið öðru betra leit dagsins ljós.  Að sjálfsögðu var svo fjöldasöngur við undirspil Daníels á píanó og Hildar Petru Friðriksdóttur á harmoniku. Nokkrir nátthrafnar fengu svo Þórunni Jónsdóttur til að draga fram gítarinn og sungu enn meira.

Á sunnudagsmorgni hófst dagskrá með morgunmat kl. 8:30 og að honum loknum sá Anna Breiðfjörð um að koma blóðinu á hreyfingu af sinni alkunnu snilld.  Æfingar héldu síðan áfram með stuttum hléum til kl. 14, þá var gengið frá og haldið heim.

Helgin var mjög árangursrík í alla staði bæði sönglega og félagslega, mikið sungið, mikið hlegið og mikið talað.

 

Gleðileg jól !

Kvennakór Akureyrar óskar öllum kórkonum sem og stjórnanda og öllum velunnurum gleðilegra jóla með þökk fyrir samveruna á árinu
sem er að líða.  Sjáumst hress á nýju söngári !

Kærar þakkir

Kvennakór Akureyrar þakkar öllum þeim sem komu að styrktartónleikunum styrktartónleikunum s.l. laugardag eða studdu við þá á einn eða annan hátt. Sérstakar þakkir fá Kvennnakórinn Embla og Kvennakórinn Sóldís ásamt stjórnendum og undirleikurum fyrir frábæra tónleika og ánægjuleg kynni og samstarf.

Á myndinni má sjá Sigurveigu Bergvinsdóttur formann Mæðrastyrksnefndar Akureyrar og Unu Þ. Sigurðardóttur formann Kvennakórs Akureyrar þegar ágóði tónleikanna var afhentur í lokin.

Fleiri myndir frá tónleikunum kom smátt og smátt inn hér.