Norðurorka veitir Kvennakórnum styrk

Norðurorka hf. veitir árlega styrki til samfélagsverkefna, en síðastliðinn föstudag veitti fyrirtækið styrki til 45 aðila og var heildarfjárhæð styrkja sjö milljónir króna.

79 aðilar sóttu um styrk að þessu sinni. Kvennakór Akureyrar var meðal þeirra sem fengu styrk, en hann verður nýttur til að fjármagna ferð kórsins á Landsmót íslenskra kvennakóra, sem haldið verður á Ísafirði í maí næstkomandi.

Kórinn þakkar Norðurorku innilega fyrir stuðninginn.

nordurorka_styrkir_til_samfelagsverkefna_2017

Frétt á vef Norðurorku er hér  http://www.no.is/is/um-no/frettir/styrkir-nordurorku-til-samfelagsverkefna-2

Aðalfundur og nýjar konur í stjórn

Á aðalfundinum var að venju kosið í stjórn. Úr stjórninni gengu Arnfríður Kjartansdóttir formaður og Sólveig Hrafnsdóttir varaformaður og var þeim þakkað fyrir þeirra framlag með lófataki.
Í þeirra stað komu inn í stjórninaþær Margrét Ragúels Jóhannsdóttir og Halla Sigurðardóttir.

Nýkjörin stjórn hittist á mánudagskvöld og skipti með sér verkum. Nýr formaður er Þórunn Jónsdóttir, varaformaður er Halla Sigurðardóttir, meðstjórnandi er Margrét Ragúels Jóhannsdóttir, gjaldkeri er Anna Sigurdardóttir og ritari er Valdís Þorsteinsdóttir. Mikill hugur var í stjórnarkonum og tilhlökkun að takast á við nýtt starfsár. Stjórnin mun hittast aftur fljótlega og ganga frá dagskrá vetrarins.

Vetrarstarf að hefjast með nýjum kórstjóra

Kvennakór Akureyrar byrjar starfið í haust af fullum krafti með fyrstu æfingu kórsins sunnudaginn 4. september.

Daníel Þorsteinsson sem stjórnað hefur kórnum frá því á vorönn 2009 sagði starfi sínu lausu í júlí og færum við honum bestu þakkir fyrir frábært starf og góðar samverustundir.

Í stað Daníels hefur verið ráðin Sólveig Anna Aradóttir, organisti og kórstjóri. Sólveig hefur lokið BA gráðu í skapandi tónlistarmiðlun frá Listaháskóla Íslands og kirkjuorganistaprófi frá Tónskóla Þjóðkirkjunnar.  Sólveig mun einnig stjórna kórum í Akureyrarkirkju og leysa þar af Sigrúnu Mögnu Þórsteinsdóttur.

Fyrsta æfingin verður eins og áður sagði sunnudaginn 4. sept. kl. 17:00 í Brekkuskóla. Reiknað er með að raddprufur fyrir nýja kórfélaga verði viku síðar, 11. september, en nánari auglýsing um upphaf starfsins birtist síðar.

Æfingarnar verða kl. 17:00 – 19:00 á sunnudögum í Brekkuskóla í vetur.

Tónleikaferð til Króatíu

Brottför flugs frá Akureyri er áætluð kl.10:00 þriðjudaginn 28. júní og flogið með slóvenska flugfélaginu Adria Airways til Ljubljana í Slóveníu. Eftir u.þ.b. 4 tíma flug verður ekið beint til Vrsar í Króatíu ca. 200 km, eða rúmlega 2 klst.  Gist verður í 8 nætur á Hotel Pineta.

Fyrsti dagurinn 29.júní, miðvikudagur er frjáls dagur en daginn eftir, þ.e. 30. júní verða tónleikar um kvöldið  í kirkjunni St Mary of the sea í Vrsar.

1. júlí á föstudegi verður farið til Rovinj að morgni, tekin stutt skoðunarferð um bæinn og síðan frjáls tími þar til farið verður að hita upp fyrir tónleika. Tónleikar verða um kvöldið á lítilli eyju (Rauða eyjan) fyrir utan Rovinj – Þar  syngjum við með Teranke og þess má geta að Klapa Teranke er einn vinsælasti sönghópurinn hjá heimafólkinu.

klapa_terankeKlapa Terenke

2. júlí verður ekið síðdegis til Pazin og landið skoðað í leiðinni og að kvöldi verða tónleikar í tónlistarhúsinu í Pazin. Hér tekur á móti okkur blandaði kórinn  Roženice – frá Pazin og blandaður kór frá Mengeš í Slóveníu. Eftir tónleika verður sameiginlegur kvöldverður og skemmtun í Pazin.
Ekið til baka til Vrsar að skemmtun lokinni.

Roženice
Roženice

3. júlí, sunnudag, er frjáls dagur þar sem hver og einn velur sína afþreyingu eða afslöppun.

4. júlí verður bátsferð með léttri fiskimáltíð (fish picnic).  Siglt verður í suðurátt og um Rovinj eyjaklasa, en síðan haldið til Lim-fjarðar.

5. júlí er frjáls dagur

6. júlí, miðvikudag, er brottför frá hóteli um morguninn og þá ekið til Ljubljana og dvalið þar um stund. Brottför flugs JP 942 til Akureyrar kl. 17:15, áætlaður komutími heim er kl. 19:30.

Kórinn hefur í og með æft fyrir þessa ferð í allan vetur og tilhlökkun orðin gífurleg.  Kórkonur eru sem taka þátt í ferðinni eru 47 en með fylgifiskum (svokölluðum puntstráum), kórstjóra og undirleikara telur hópurinn 78 manns.

Sýnishorn af æfingu kórsins 19. júní s.l. má sjá á Facebook síðu kórsins.