Stjórnendur í vetur og væntanlegt landsmót

Í vetur hefur kórinn haft tvær öflugar konur sem stjórnendur. Frá hausti og fram til 1. mars var það hún Sóla og síðan hún Sigrún Magna og hafa þær séð um að þjálfa okkur fyrir landsmót íslenskra kvennakóra og fleiri verkefni vetrarins.
Myndir og texti um Sólu má sjá hér og Sigrúnu hér.

Gígjan, landssamband íslenskra kvennakóra stendur fyrir landsmóti á 3ja ára fresti.  Skemmst er þess að minnast að vorið 2014 var landsmótið haldið hér á Akureyri.

Að þessu sinni verður mótið haldið á Ísafirði 11. -13. maí og hefur Kvennakór Ísafjarðar veg og vanda af framkvæmd þess.

Mikil eftirvænting er hjá okkur í Kvennakór Akureyrar og munum við leggja land undir fót snemma morguns þann 11. maí og koma heim aftur að kvöldi 14. maí.

Dagskráin samanstendur af æfingum í smiðjum, sameiginlegum æfingum og tónleikum þar sem kórarnir koma fram með sína dagskrá svo og með sameiginlegum afrakstri úr smiðjunum.

Lokatónleikarnir verða á laugardeginum 13. maí og dagskránni lýkur síðan með hátíðarkvöldverði og mótsslitum.

 

Þorrasöngur á Öldrunarheimilum

Þorrablót íbúanna á Hlíð og Lögmannshlíð verða föstudaginn 3. febrúar og hefð er fyrir því að konur í Kvennakór Akureyrar taki þátt í þorrasöng af því tilefni.

Snorri Guðvarðsson stendur fyrir skipulagningunni á þessu að venju og fær með sér félaga úr kvennakórnum og Karlakór Akureyrar Geysi. Sungin verða létt lög sem allir kunna og vonandi taka þorrablótsgestir vel undir!

Snorri hefur lengi verið góðvinur Kvennakórsins og á meðfylgjandi mynd má sjá hann við undirleik á tónleikum kórsins í mars 2006.

Byrjað verður að syngja kl. 17:15 í Hlíð og síðan er farið yfir í Lögmannshlíð og sungið þar líka.

Norðurorka veitir Kvennakórnum styrk

Norðurorka hf. veitir árlega styrki til samfélagsverkefna, en síðastliðinn föstudag veitti fyrirtækið styrki til 45 aðila og var heildarfjárhæð styrkja sjö milljónir króna.

79 aðilar sóttu um styrk að þessu sinni. Kvennakór Akureyrar var meðal þeirra sem fengu styrk, en hann verður nýttur til að fjármagna ferð kórsins á Landsmót íslenskra kvennakóra, sem haldið verður á Ísafirði í maí næstkomandi.

Kórinn þakkar Norðurorku innilega fyrir stuðninginn.

nordurorka_styrkir_til_samfelagsverkefna_2017

Frétt á vef Norðurorku er hér  http://www.no.is/is/um-no/frettir/styrkir-nordurorku-til-samfelagsverkefna-2

Aðalfundur og nýjar konur í stjórn

Á aðalfundinum var að venju kosið í stjórn. Úr stjórninni gengu Arnfríður Kjartansdóttir formaður og Sólveig Hrafnsdóttir varaformaður og var þeim þakkað fyrir þeirra framlag með lófataki.
Í þeirra stað komu inn í stjórninaþær Margrét Ragúels Jóhannsdóttir og Halla Sigurðardóttir.

Nýkjörin stjórn hittist á mánudagskvöld og skipti með sér verkum. Nýr formaður er Þórunn Jónsdóttir, varaformaður er Halla Sigurðardóttir, meðstjórnandi er Margrét Ragúels Jóhannsdóttir, gjaldkeri er Anna Sigurdardóttir og ritari er Valdís Þorsteinsdóttir. Mikill hugur var í stjórnarkonum og tilhlökkun að takast á við nýtt starfsár. Stjórnin mun hittast aftur fljótlega og ganga frá dagskrá vetrarins.