Sagan 2019-2021

Á aðalfundi Kvennakórs Akureyrar, sem haldinn var í Menntaskólanum á Akureyri þann 29. september 2019, gengu Halla Sigurðardóttir og Margrét Ragúels úr stjórn en Guðrún H. Hreinsdóttir og Kristín Elva Viðarsdóttir voru kjörnar í staðinn. Stjórnin á tímabilinu 2019-2021 var því skipuð þeim Þórunni Jónsdóttur, formanni, Guðrúnu H. Hreinsdóttur, varaformanni, Valdísi Björk Þorsteinsdóttur, ritara, Sigríði Jónsdóttur, gjaldkera, og Kristínu Elvu Viðarsdóttur meðstjórnanda. Raddformenn voru Helga H. Gunnlaugsdóttir alt 1, Lilja Jóhannsdóttir alt 2, Hafdís Þorvaldsdóttir sópran 1 og Una Þ. Sigurðardóttir sópran 2.

Tíminn frá hausti 2019 og fram til vors 2021 markaðist af töluverðum sviftingum fyrir kórinn. Á þessum tíma fékk kórinn nýjan stjórnanda, æfði á tveimur nýjum æfingastöðum og tókst á við ýmsar áskoranir sem fylgdu samkomutakmörkunum vegna heimsfaraldursins Covid-19.
Valmar Väljaots tók við stjórn kórsins af Sigrúnu Mögnu Þórsteinsdóttur haustið 2019 og hefur stýrt kórnum síðan.

Starf vetrarins 2019-2020 hófst með æfingu 22. september 2019. Æfingar voru einu sinni í viku í Menntaskólanum á Akureyri, á sunnudögum kl. 17:00-19:00. Kórinn hafði áður haft æfingaaðstöðu í Brekkuskóla og þakkar stjórn kórsins Brekkuskóla fyrir langt og gott samstarf. Haustið 2020 fluttust svo æfingar í Lón, húsnæði Karlakórs Akureyrar við Hrísalund.

Æfingadagur var haldinn 10. nóvember 2019 í Menntaskólanum á Akureyri. Sigrún Magna Þórsteinsdóttir kom og aðstoðaði við æfingar svo að hægt væri að skipta kórnum niður í raddir. Til stóð að hafa annan æfingadag eða jafnvel æfingahelgi um vorið 2020 en þær áætlanir féllu niður vegna samkomubanns.

Kórinn tók þátt í jólatónleikum í Glerárkirkju að kvöldi 19. desember 2019, Karlakór Eyjafjarðar, Kirkjukór Glerárkirkju og Barnakór Glerárkirkju sungu með Kvennakórnum. Tónleikarnir voru vel sóttir og heppnuðust vel. Kórinn söng einnig þann 29. desember með Kirkjukór Glerárkirkju .

Starfsemi kórsins á vorönn 2020 og haustönn 2020 markaðist að mjög miklu leiti af heimsfaraldrinum COVID-19. Þann 13. mars 2020 var lýst yfir samkomubanni sem átti að standa í tvær vikur, en stóð langt fram á vor, svo að æfingar hófust ekki aftur um vorið, en kórkonur náðu að hittast í nokkur skipti um sumarið á miðvikudags-hittingi í Lystigarðinum. Í september stóð svo til að hefja æfingar á ný og halda aðalfund, en þá voru aftur settar á samkomutakmarkanir sem lömuðu starfsemi kórsins alla haustönnina. Æfingar hófust aftur 31. janúar 2021 og þær hafa verið ýmist skiptar æfingar með aðeins sópran eða aðeins alt, eða sameiginlegar með öllum röddum. 24. mars 2021 voru sóttvarnaraðgerðir hertar svo að eftir það var æfingum hætt þann veturinn.

Þegar samkomubanninu 13. mars 2020 var lýst yfir hafði kórinn verið að undirbúa ferð sína á Landsmót íslenskra kvennakóra í Reykjavík sem halda átti 7.-9. maí. Stjórn Gígjunnar frestaði landsmótinu, fyrst til maí 2021, svo til september 2021 og síðast til maí 2023. Kvennakór Akureyrar þáði boð landsmótsnefndar um að fá staðfestingargjald endurgreitt, svo að kórinn hefur engar fjárhagslegar skuldbindingar um þátttöku í mótinu eins og er.

Eina skiptið sem kórinn kom fram opinberlega á árinu 2020 var þegar hann söng á 17. júní hátíð Akureyrarbæjar. Þá söng kórinn fyrir utan dvalarheimilin Lögmannshlíð og Hlíð, sem hluti af hátíðahöldum vegna þjóðhátíðardagsins.

Stjórnin hélt 6 fundi með fundargerðum yfir tímabilið en hafði milli þeirra víðtækt samstarf í gegnum Facebook, tölvupóst og aðra miðla. Stjórnandi sat suma fundi stjórnar og gekk það samstarf vel.

Byggt á skýrslu stjórnar í mars 2021

Sagan 2018-2019

Á aðalfundi Kvennakórs Akureyrar, sem haldinn var í Brekkuskóla þann 16. september 2018, gekk Anna Breiðfjörð Sigurðardóttir úr stjórninni en Sigríður Jónsdóttir gaf kost á sér og fékk staðfestingu fundarkvenna. Stjórnin veturinn 2018-2019 var þá skipuð þeim Þórunni Jónsdóttur, formanni, Höllu Sigurðardóttur, varaformanni, Valdísi Björk Þorsteinsdóttur, ritara, Sigríði Jónsdóttur, gjaldkera, og Margréti Ragúels meðstjórnanda og lyklaverði. Raddformenn voru Guðrún Hreinsdóttir alt 1, Lilja Jóhannsdóttir alt 2, Hafdís Þorvaldsdóttir sópran 1 og Stella Sverrisdóttir sópran 2.

Starf vetrarins hófst með æfingu 9. september. Æfingar voru sem fyrr einu sinni í viku í Brekkuskóla, á sunnudögum kl. 16:45-19:00, en nokkrar æfingar voru færðar um set þegar skólinn var upptekinn.

Stærsta verkefni vetrarins var undirbúningur fyrir ferð Kórsins til Ítalíu í lok júní. Kórinn tók þá þátt í kóramóti í Verona í fjóra daga en að því loknu færði hann sig yfir til Sirmione við Garda vatn, þar sem dvalið var í viku. Ana Korbar leiddi starf ferðanefndar við undirbúning ferðarinnar með stakri prýði.

Sigrún Magna Þórsteinsdóttir hélt áfram um stjórnartaumana þennan vetur. Miklar annir og þung verkefnastaða hennar varð til þess að í lok vetrar sagði hún starfi sínu lausu. Hún lauk starfi vetrarins með því að fylgja kórnum til Ítalíu um sumarið og var stjórn síðan innan handar við leit að staðgengli. Stjórn Kvennakórs Akureyrar þakkar Sigrúnu Mögnu kærlega fyrir vel unnin störf, en hún hafði farið með stjórn kórsins síðan í mars 2017. Eftir töluverða leit að nýjum kórstjóra náðist samkomulag við Valmar Väljaots sem tók að sér stjórn kórsins næsta vetur.

Kórinn hélt jólatónleika í Akureyrarkirkju að kvöldi 13. desember. Tónleikarnir voru vel sóttir og heppnuðust vel. Sem greiðsla fyrir afnot af kirkjunni söng kórinn í Bleikri messu þann 14. október.

Vortónleikar kórsins voru haldnir á mæðradaginn, þann 12. maí í Akureyrarkirkju. Kórinn söng í messu um morguninn en tónleikarnir voru svo kl. 14:00. Kvennakór Háskóla Íslands tók þátt undir stjórn Margrétar Bóasdóttur, en með kórunum léku Helena Guðlaug Bjarnadóttir á píanó, Michael Weaver á saxofón og Þorleifur Jóhannsson á slagverk. Tónleikarnir lukkuðust afar vel og eftir á var tónleikagestum boðið til kökuhlaðborðs að hætti kórkvenna.

Kórinn söng einnig við nokkur önnur tækifæri, svo sem á Ráðhústorgi á kvennafrídaginn, Glerártorgi, í Lystigarðinum, í Hofi 19. júní, í Hlíð og á Akureyrarvöku við Húna. Jaan Alavere hélt stóra tónleika í Ídölum 6. apríl í tilefni af sextugsafmæli sínu og tók kórinn þátt í þeim.

Fjáröflunarbingó með kaffiveitingum voru haldin 7. október og 24. febrúar. Undirbúningur og framkvæmd þeirra voru í höndum alt 2 og sópran 2. Þau gengu bæði vel og voru vel sótt.

Æfingahelgi var haldin 26.-28. október á Hótel Natura á Þórisstöðum á Svalbarðsströnd, þar sem kórinn æfði, gisti og hélt kvöldskemmtun. Kórnum var skipt í hópa sem undirbjuggu myndbönd með ævintýraþema, sem sýnd voru þá um kvöldið. Þá var einnig haldinn æfingadagur 2. febrúar og einnig að Þórisstöðum. Veturinn 2019-2020 munu æfingar kórsins flytjast úr Brekkuskóla í sal Menntaskólans á Akureyri.

Stjórnin hélt 9 fundi með fundargerðum yfir veturinn en hafði milli þeirra víðtækt samstarf í gegnum Facebook, tölvupóst og aðra miðla. Stjórnandi sat suma fundir stjórnar og gekk það samstarf vel.

Í lok vetrar voru 60 konur skráðar í kórinn. Fyrsti alt var fjölmennasta röddin, skipuð 20 konum. Þá voru 17 konur í sópran tvö, 13 í alt tvö og fámennasta röddin var sópran eitt með 10 konum.

Byggt á skýrslu stjórnar 2018-2019.

Sagan 2017-2018

Á aðalfundi Kvennakórs Akureyrar, sem haldinn var í Brekkuskóla þann 17. september 2017, gaf öll sitjandi stjórn kost á sér til áframhaldandi setu og fékk staðfestingu fundarkvenna. Stjórnin veturinn 2017-2018 var því skipuð þeim Þórunni Jónsdóttur, formanni, Höllu Sigurðardóttur, varaformanni, Valdísi Björk Þorsteinsdóttur, ritara, Önnu Breiðfjörð Sigurðardóttur, gjaldkera, og Margréti Ragúels meðstjórnanda og lyklaverði. Raddformenn voru Guðrún Hreinsdóttir alt 1, Lilja Jóhannsdóttir alt 2, Hafdís Þorvaldsdóttir sópran 1 og Stella Sverrisdóttir sópran 2.

Starf vetrarins 2017-2018 hófst með raddprufum og æfingu 10. september. Æfingar voru einu sinni í viku í Brekkuskóla, á sunnudögum kl. 16:45-19:00.

Sigrún Magna Þórsteinsdóttir sem tekið hafði við kórstjórninni þá um vorið hélt áfram störfum þetta starfsár.

Starfið um haustið hófst á undirbúningi hausttónleika þar sem vortónleikar höfðu fallið niður og voru þeir haldnir í Akureyrarkirkju sunnudaginn 8. október. Kórinn söng í bleikri messu þá um kvöldið og fékk því að halda tónleikana án annars endurgjalds fyrir húsnæðið.

Sama dag, eða 8. október var einnig ráðist í það þarfa og tímabæra verkefni að taka nýja mynd af kórnum, en allar myndir sem voru til af kórnum sýndu Daníel sem kórstjóra.

Kórinn hélt jólatónleika í Akureyrarkirkju að kvöldi 14. desember í samstarfi við Kammerkórinn Ísold. Tónleikarnir voru vel sóttir og heppnuðust vel. Sem greiðsla fyrir afnot af kirkjunni söng kórinn í messu á konudag þann 18. febrúar.

Þann 7. apríl voru haldnir tónleikar í Miðgarði í Skagafirði þar sem 3 kvennakórar komu fram, þ.e. Kvennakórinn Sóldís í Skagafirði, Kvennakórinn Embla á Akureyri og Kvennakór Akureyrar. Að afloknum tónleikum var svo skemmtun í Miðgarði. Skemmtinefnd vetrarins, sópran 1, undirbjó skemmtidagskrá, meðal annars forláta myndband sem greindi frá ferðasögu kórsins á landsmót kvennakóra 2017.

Vortónleikar kórsins voru haldnir á mæðradaginn, þann 13. maí í Akureyrarkirkju. Kórinn söng í messu um morguninn og tók óvænt þátt í fermingu og skírn. Tónleikarnir voru svo kl. 14:00 og efnisskráin einkenndist af lögum sem ýmist voru samin á sjöunda áratug síðustu aldar, eða höfðu sterk tengsl inn í þann áratug. Dusty Springfield og Elly Vilhjálms ómuðu úr hverjum hálsi. Tónleikarnir lukkuðust afar vel og eftir á var tónleikagestum boðið á kökuhlaðborð að hætti kórkvenna.

Kórinn hélt tvo æfingadaga yfir veturinn, 23. september og 17. febrúar. Annar æfingardagurinn var haldinn að Þórisstöðum á Svalbarðsströnd en hinn í Brekkuskóla.

Stjórnin hélt 8 fundi með fundargerðum yfir veturinn en hafði milli þeirra víðtækt samstarf í gegnum Facebook, tölvupóst og aðra miðla. Áhersla var lögð á að funda oftar með stjórnanda kórsins en áður hafði verið gert og gekk það samstarf vel.

Búningavörður kórsins til margra ára, Þorbjörg Þórisdóttir, hætti í kórnum fyrir aðalfundinn 2017. Þrátt fyrir ítrekaðar auglýsingar eftir arftaka hennar, gaf engin kórkona sig fram til að taka við starfinu. Því var brugðið á það ráð að semja við Litlu saumastofuna í Brekkugötu um að geyma kjólana. Aukalegt gjald var innheimt af kórkonum til að greiða fyrir þessa þjónustu.

Í lok vetrar voru 59 konur skráðar í kórinn. Fyrsti alt var fjölmennasta röddin, skipuð 20 konum. Þá voru 17 konur í sópran tvö, 12 í alt tvö og fámennasta röddin var sópran eitt með 10 konum. Þetta ójafnvægi getur orðið hamlandi fyrir gæði söngsins og því var ákveðið að auglýsa sérstaklega eftir söngkonum í fyrsta sópran í haust.

Stærsta verkefni komandi vetrar er að undirbúa ferð kórsins til Ítalíu um lok júní til byrjun júlí 2019. Þá mun kórinn syngja á kóramóti í Verona en halda svo til Gardavatns til að njóta lífsins.

Sagan 2016-2017

Ný stjórn var kjörin á aðalfundi 25. September 2016. Arnfríður Kjartansdóttir og Sólveig Hrafnsdóttir gengu úr stjórn og Halla Sigurðardóttir og Margét Ragúels voru kjörnar í þeirra stað. Stjórnin var þannig skipuð starfsárið 2016-2017: Formaður Þórunn Jónsdóttir alt 1, varaformaður Halla Sigurðardóttir alt 1, gjaldkeri Anna Breiðfjörð Sigurðardóttir sópran 2, ritari Valdís Björk Þorsteinsdóttir sópran 1, meðstjórnandi og lyklavörður Margrét Ragúels alt 2.

Raddformenn voru Guðrún Hreinsdóttir alt 1, Lilja Jóhannsdóttir alt 2, Hafdís Þorvaldsdóttir sópran 1 og Stella Sverrisdóttir sópran 2.

Eftir að Daníel Þorsteinsson hætti sem stjórnandi kórsins haustið 2016 tók Sólveig Anna Aradóttir við starfinu. Þegar ráðningu hennar við Akureyrarkirkju lauk hætti hún einnig störfum hjá Kvennakórnum, en þá tók Sigrún Magna Þórsteinsdóttir við keflinu og stýrði kórnum til vors.

Starf vetrarins 2016-2017 hófst með raddprufum og æfingu 11. september. Æfingar voru einu sinni í viku í Brekkuskóla, á sunnudögum kl. 17:00-19:00, sem síðar var breytt í 16:45-19:00.

Kórinn söng í messu í Akureyrarkirkju 25. September og fékk að launum að nota kirkjuna án endurgjalds undir jólatónleika sína sem haldnir voru 8. desember. Á tónleikunum söng Jónína Björt Gunnarsdóttir einsöng, Helga Kvam lék á píanó og Anna Eyfjörð Eiríksdóttir lék á flautu. Kórinn söng einnig á tónleikum fyrir íbúa Hlíðar 10. desember.

Skemmtinefnd kórsins, alt 2, stóð fyrir litlu jólum 4. desember. Þá var haldin sameiginleg skemmtun með Karlakór Akureyrar – Geysi 4. mars, en við það tækifæri var hún Sóla okkar kvödd, því hún var að hverfa frá okkur til annarra starfa.

Kórinn hélt tvisvar æfingadag að Þórisstöðum á Svalbarðsströnd, 19. nóvember og 11. mars.

Stærsti viðburðurinn á þessu starfsári verður samt að teljast tíunda landsmót íslenskra kvennakóra, sem haldið var á Ísafirði 11.-14. maí. Kórinn skrölti yfir fjöll og heiðar í samfloti við Emblurnar og komst í fréttirnar fyrir að teppa Öxnadalsheiðina á leið sinni vestur.

Haldnir voru 8 fundir stjórnar þar sem rituð var fundargerð, en þó voru óformlegir fundir fleiri, ýmist með tölvupósti eða á facebook. Stjórnendur sátu með stjórninni á fjórum fundum.

Kórinn sótti um ýmsa styrki á liðnu starfsári og fékk nokkra. Tölvuverð vinna var lögð í umsóknir um styrki vegna fyrirhugaðs verkefnis í samstarfi við Vandræðaskáldin Vilhjálm Bergmann Bragason og Sesselíu Ólafsdóttur. Því miður fengust þeir styrkir ekki, en þó er áhugi á að vinna áfram að því verkefni.

Síðasta starfsári lauk frekar skyndilega, en kórinn hafði stefnt á að halda vortónleika á annan í hvítasunnu, 5. júní. Á þeim degi reyndust allir mögulegir jafnt sem ómögulegir meðleikarar vera utan landsteinanna, svo að ákveðið var að fresta tónleikunum til haustsins.

Byggt á skýrslu stjórnar 2016-2017

Sagan 2015-2016

Ný stjórn var kosin á aðalfundi 6. september 2015. Kamilla Hansen gekk úr stjórn og í staðinn kom inn Sólveig Hrafnsdóttir. Stjórnin var þannig skipuð starfsárið 2015 – 2016: Formaður Arnfríður Kjartansdóttir sópran 1, varaformaður Sólveig Hrafnsdóttir alt 1, gjaldkeri Anna Sigurðardóttir sópran 2, ritari Valdís Þorsteinsdóttir sópran 1 og meðstjórnandi og lyklapétur Þórunn Jónsdóttir alt 1. Raddformenn voru Stella Sverrisdóttir í sópran 2, Guðrún Hreindís Hreinsdóttir í alt 1 og Lilja Jóhannsdóttir í alt 2. Enginn vildi taka þetta embætti að sér í sópran 1 . Stjórnandi kórsins var Daníel Þorsteinsson.

Starf vetrarins 2015-2016 hófst með hefðbundnum hætti, auglýst var eftir nýjum söngröddum í Dagskránni og raddprufur voru haldnar fyrir fyrstu æfingu, 13 september. Æfingar voru í Brekkuskóla einu sinni í viku, á sunnudögum kl. 16:45 – 19. Nokkrar æfingar þurfti þó að færa í MA, Lón og Hlíð þegar skólinn var upptekinn.

Á kvennafrídaginn, 24. október söng kórinn um morguninn fyrir framan hús Vilhelmínu Lever. Sama dag tók kórinn þátt í tónleikum KÍTÓN í Akureyrarkirkju.

Ákveðið var að endurtaka vortónleikana Dívur og drottningar. Lagalistinn var sá sami og um vorið og aftur með einsöngvurunum Þórhildi Örvarsdóttur og Ívari Helgasyni auk meðleikaranna Aladár Rácz á píanó og Péturs Ingólfssonar á bassa. Tónleikarnir voru Hömrum í Hofi 31. október og síðan í Ýdölum daginn eftir, 1. nóvember.
Sem jólatónleika bauðst kórnum að taka þátt í jólahugvekju 13. desember í Grundarkirkju ásamt Kór Laugalandsprestakalls, en Daníel Þorsteinsson stjórnar þeim kór líka. Kirkjan var stútfull og stemmingin hátíðleg.

1. desember söng kórinn nokkur lög í jólaboði rektors Háskólans á Akureyri.

Þorrasöngur var 29. janúar í Hlíð og Lögmannshlíð í samstarfi við félaga úr Karlakór Akureyrar-Geysi. Þetta er viðburður sem er að skapast hefð á, en söngfólkið skiptir sér í minni hópa og fer á allar deildir og syngur þorralög fullum hálsi.

Æfingabúðir voru á Húsabakka helgina 27. – 28. febrúar.

Tónleikar til heiðurs Birgi Helgasyni voru haldnir í Akureyrarkirkju 3. mars, í samstarfi við þrjá aðra kóra, Hymnodiu, Karlakór Akureyrar-Geysi og Rúnarkórinn.


Á sjómannadaginn 5. júní, tók kórinn þátt í skipulagðri dagskrá á vegum Akureyrarbæjar með því að syngja í Hofi.

Starfsárinu lauk síðan með viðburðaríkri ferð kórsins til Króatíu dagana 28. júní – 6. júlí 2016. Er ekki hallað á neinn þótt nefnt sé að fararstjórinn og kórmeðlimurinn Ana Korbar stóð sig með miklum sóma í að gera ferðina sem ánægjulegasta fyrir alla. Auk kórfélaga og maka voru Daníel Þorsteinsson stjórnandi og Aðalheiður Þorsteinsdóttir píanóleikari með í för. Flogið var með beinu flugi frá Akureyri til Ljubljana í Slóveníu og þaðan ekið á hótel í Vrsar þar sem gist var allan tímann. Haldnir voru þrennir tónleikar með alls fjórum kórum heimamanna.

Að lokinni Króatíuferðinni hætti Daníel störfum sem kórstjóri 31. júlí en Sólveig Anna Aradóttur tók að sér að vera stjórnandi kórsins.

Upplýsingamiðlun til kórkvenna var með margvíslegum hætti og þótti stjórn ástæða til að ítreka að upplýsingar til kórsins finnast fyrst og fremst á heimasíðu kórsins og í tölvupósti, þ.e. fyrir þær konur sem ekki ná að mæta á allar æfingar. Facebook er umræðusíða sem ekki allar eru með í og því ekki hægt að reiða sig á áreiðanleika þeirra upplýsinga. Nótur og fleira hefur verið gert aðgengilegt í gagnabanka á googledrive.

Tölfræði: Kóræfingar á starfsárinu voru 32, æfingabúðir voru einu sinni og komu í staðinn fyrir æfingadaga. Stjórnarfundir augliti til auglitis voru 9, þar af var stjórnandi með þrisvar og umræðuþræðir í lokuðum hóp stjórnar á facebook fjölmargir.

Byggt á skýrslu stjórnar 2015-2016.

Sagan 2014-2015

Saga kórsins 2014– 2015

Byggð á skýrslu stjórnar 2014 – 2015

Ný stjórn var kosin á aðalfundi vorið 2014. Una Þórey Sigurðardóttir lét af formannsembættinu og skilaði því af sér með sóma. Stjórnin var þannig skipuð starfsárið 2014 – 2015: Formaður Arnfríður Kjartansdóttir sópran 1, varaformaður Kamilla Hansen sópran 2, gjaldkeri Anna Sigurðardóttir sópran 2, ritari Valdís Þorsteinsdóttir sópran 1 og meðstjórnandi og lyklapétur Þórunn Jónsdóttir alt 1.
Raddformenn voru Stella Sverrisdóttir í sópran 2, Guðrún Hreindís Hreinsdóttir í alt 1 og Lilja Jóhannsdóttir í alt 2. Enginn vildi taka þetta embætti að sér í sópran 1.

Auka aðalfundur var haldinn 28. september 2014 og framvegis verður aðalfundur haldinn á þeim tíma og reikningsárið verður það sama og starfsárið, þ.e. 1. september til 31. ágúst.

Starf vetrarins 2014-2015 hófst með nokkuð hefðbundnum hætti, auglýst var eftir nýjum söngröddum í Dagskránni og raddprufur voru haldnar fyrir fyrstu tvær æfingarnar í byrjun september. 10 konur mættu í raddprufur og héldu flestar áfram, en álíka margar tóku sér frí eða hættu alveg í kórnum. Æfingar voru í Brekkuskóla eins og áður.

Kórnum barst tilboð um að taka þátt í „Karlakóramóti“ í Mosfellsbæ 8 nóvember 2014 og miðuðust æfingar haustsins að því að syngja sem best þar. Þátttaka í ferðinni suður var mjög góð og gaman hvað karlakórarnir voru jákvæðir í okkar garð. Karlakórinn Stefnir í Mosfellsbæ hafði frumkvæði að þessu móti og bauð okkur í Kvak, Karlakór Kópavogs og Söngbræðrum frá Borgarnesi að vera með. Hver kór söng 4 lög og síðan 3 lög saman allur hópurinn. Tónleikarnir voru haldnir í íþróttahúsinu að Varmá og kvöldverður og skemmtun var síðan í Hlégarði. Ferðanefnd Kvennakórsins stóð sig að venju með prýði og skipulagði rútuferð og gistingu tvær nætur í Borgarnesi.

Jólatónleikar voru á öldrunarheimilum Akureyrarbæjar, Hlíð og Lögmannshlíð þann 7. desember og síðan hafði skemmtinefndin skipuð sópran 2 skipulagt vel heppnuð Litlu jól í Kaffihúsinu í Lystigarðinum eftir að við vorum búnar að syngja fyrir gamla fólkið okkar.

Stjórn og ferðanefnd stungu upp á utanlandsferð sumarið 2015, en fallið var frá því af ýmsum ástæðum, meðal annars vegna þessa að þetta þótti stuttur fyrirvari. En ferðaáætlunin er tilbúin og ákveðið að fara samskonar ferð til Króatíu í júní 2016.

Í janúar fengum við skemmtilegt verkefni þar sem einn kórfélagi bað þær sem sæju sér fært að syngja í afmælisveislu sem hún hélt í kaffihúsinu í Lystigarðinum.

Þorrasöngur var 6. febrúar í Hlíð og Lögmannshlíð í samstarfi við félaga úr Karlakór Akureyrar-Geysi. Þetta er viðburður sem er að skapast hefð á, en söngfólkið skiptir sér í minni hópa og fer á allar deildir og syngur þorralög fullum hálsi.

Æfingabúðir voru á Húsabakka í Svarfaðardal helgina 28. febrúar til 1. mars 2015. Mæting var 9:30 útfrá á laugardeginum og síðan var sungið og hlegið meira eða minna þar til kl. 15 á sunnudeginum þegar dagskránni lauk. Tilraun var gerð með nýja tegund af hópefli, X-faktor keppni kvennakórsins þar sem kórkonum var skipt í lið 10 dögum áður og hvert lið undirbjó eitt lag sem flutt var á kvöldvöku á laugardagskvöldinu. Nýtt fyrirkomulag var á matarmálum þar sem nokkrar konur tóku að sér að sjá um innkaup og eldun.

Eftir áramót fór allt á fullt að æfa metnaðarfullt prógram vortónleika undir yfirskriftinni Dívur og drottningar. Við fengum einsöngvarana Þórhildi Örvarsdóttur og Ívar Helgason í lið með okkur og undirleikarana Aladár Rácz á píanó og Pétur Ingólfsson á bassa. Tónleikarnir voru í Hofi, salnum Hömrum annan í hvítasunnu, 25. maí. Góð aðsókn var og tókust tónleikarnir með ágætum.

Árshátíð var haldin í Lundi þann 18. apríl. Skemmtinefndin hafði veg og vanda af undirbúningi, hver rödd kom með skemmtiatriði og Hermann Arason spilaði fyrir dansi.
Starfsárinu lauk síðan með þátttöku Kvennakórs Akureyrar í hátíðahöldum í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna. Sungin voru nokkur lög í Lystigarðinum, síðan leiddur söngur í skrúðgöngu niður á Ráðhústorg og þar tókum við þátt í gjörningi ásamt dönsurum sem Ásdís Alexandersdóttir stýrði.
Fjáraflanir voru með minnstu móti, enda nýafstaðin styrkjasöfnun fyrir landsmótið vorið 2014. Styrkur sem kórinn hefur fengið frá Akureyrarbæ hefur breyst þannig að í stað þess að fá ákveðna upphæð fast árlega, þarf nú að sækja um styrki þaðan til ákveðinna verkefna.

Tölfræði:
Kóræfingar á starfsárinu voru 30
Raddirnar stóðu sjálfar fyrir raddæfingu hver fyrir sig einu sinni.
Æfingabúðir voru einu sinni og komu í staðinn fyrir æfingadaga.
Tónleikar: 6 ef allt er talið með, þ.e. tvennir jólatónleikar, söngur í veislu, lystigarðurinn, karlakóramótið í Mosfellsbæ og svo vortónleikarnir.
Almennir kórfundir voru tvisvar, þ.e. einn aukaaðalfundur og svo fundur í æfingabúðunum.
Stjórnarfundir augliti til auglitis voru 9, þar af var stjórnandi með þrisvar, umræðuþræðir í lokuðum hóp stjórnar á facebook voru ótal margir, minnst 30.

Sagan 2013-2014

Frá hátíðartónleikum á Landsmóti íslenskra kvennakóra í maí 2014 í Hofi

Saga kórsins 2013 – 2014
Byggð á skýrslu stjórnar 2013 – 2014

Breyting varð í stjórnarliði Kvennakórs Akureyrar á aðalfundi,  29. maí 2013. Eygló Arnardóttir gekk úr stjórn og í hennar stað kom Þórunn Jónsdóttir. Áfram sátu í stjórn; Anna Breiðfjörð Sigurðardóttir, Arnfríður Kjartansdóttir, Kamilla Hansen og Una Þórey Sigurðardóttir.

Landsmót íslenskra kvennakóra var mál málanna hjá kórnum starfsárið 2013-2014. Undirbúningur og framkvæmd mótsins var langstærsta verkefnið sem Kvennakór Akureyrar hafði ráðist í frá upphafi. Segja má að undirbúningurinn hafi hafist strax á Selfossi vorið 2011 þegar opinbert varð að næsta landsmót yrði haldið af Kvennakór Akureyrar á  Akureyri vorið 2014. Landsmótsnefnd, skipuð valkyrjunum, Önnu Breiðfjörð Sigurðardóttur, Hólmfríði Þorsteinsdóttur og Snæfríði Egilsson, sá um skipulagningu og undirbúning frá upphafi og nutu þær aðstoðar annarra kórkvenna eftir þörfum. Kórinn vann ötullega undir stjórn nefndarinnar að þessu mikla verkefni sem lauk með landsmóti íslenskra kvennakóra á Akureyri dagana 9. – 11. maí.

Kórstarfið hófst með seinna móti þetta haustið og byrjaði með hópefli á Húsabakka í Svarfaðardal dagana 20. og 21. september. Tilgangur hópeflisins var að auka samheldni og þjappa kórkonum betur saman fyrir komandi verkefni, þ.e. undirbúning landsmóts. Dagana fyrir hópeflið unnu konur saman í hópum að ýmsum verkefnum og söfnuðu stigum af miklu kappi.  Arnfríður Kjartansdóttir skipulagði hópastarfið með miklum ágætum. Verkefnavinnan og hópeflið á Húsabakka heppnaðist mjög vel og verður í minnum haft. Fyrsta kóræfing haustsins var sunnudaginn 22. september.

Söngverkefni utan hefðbundinna tónleika bjóðast kórnum af og til. Að þessu sinni bauðst kórkonum að syngja í brúðkaupi í ágúst og höfðu þær mikla ánægju af.

Akureyrarvaka var að venju haldin í lok ágúst. Kvennakór Akureyrar tók þátt í dagskrá sem fram fór í Lystigarðinum föstudagskvöldið 30. ágúst.  Þar söng kórinn meðal annars angurvært ljóð um hin rauðu fögru reyniber í hauströkkrinu og endaði með suðrænum söng ættuðum frá Afríku. Eflaust hefur söngurinn yljað einhverjum um hjartarætur í norðankælunni sem þá gekk yfir.

Æfingadagur að hausti var 26. október. Eins og oft áður var hann í Valsárskóla og í kórinn í fæði hjá kvenfélagskonum á Svalbarðstöndinni. Að þessu sinni aðstoðaði Helena Bjarnadóttir Daníel kórstjóra við söngæfingarnar. Sama dag fór fram í Reykjavík, aðalfundur Gígjunnar, sambands íslenskra kvennakóra.  Þær Anna og Snæfríð í landsmótsnefndinni fóru á fundinn og héldu vel heppnaða kynningu á landsmóti íslenska kvennakóra.

Árlegir mæðrastyrkstónleikar voru haldnir í Akureyrarkirkju  laugardaginn 7. desember. Að þessu sinni tóku kvennakórarnir Embla á Akureyri og Kvennakórinn Sóldís í Skagafirði þátt í tónleikunum ásamt Kvennakór Akureyrar. Þarna söfnuðust 313.400.- kr  sem  afhentar voru forstöðukonu Mæðrastyrksnefndar Akureyrar og nágrennis í tónleikalok. Tónleikarnir heppnuðust mjög vel og söng kóranna var vel tekið af áheyrendum enda ekki oft sem þrír kvennakórar syngja saman á tónleikum.

Að tónleikum loknum fóru KvAk konur á veitingastaðinn Örkina hans Nóa og héldu sitt árlegu jólateiti. Þar var snæddur jólagrautur og skemmtu kórkonur sér konunglega fram eftir kvöldi.  Mikla kátínu vakti einstaklega hláturmildur jólasveinn sem kitlaði hláturtaugar kórkvenna rækilega.  Skemmtunin var skipulögð af sópran 1 sem sá um skemmtanahald kórsins þennan vetur og nefndu sig „Í HÆSTU HÆÐUM“.

Sunnudaginn 8. desember fóru kórkonur milli deilda á Öldrunarheimilinu Hlíð og sungu gömul og góð jólalög fyrir heimilisfólk. Að þeim söng loknum var haldið í Öldrunarheimilið Lögmannshlíð og sungið þar einnig. Undirleikarar voru þær Hildur Petra, Soffía og Þórunn Jóns. Að syngja á Öldrunarheimilum Akureyrar er með því ánægjulegasta sem við  KvAk konur gerum. Þakklátari áheyrendur en þetta aldna fólk eigum við ekki og það var gott að fara í kórjólafrí eftir svona kærleikssöng.

Fyrsta æfing á árinu 2014 var sunnudaginn 5. janúar og hófust þá æfingar fyrir landsmótið af fullum þunga. Kórkonur skiptu sér í allar sex smiðjur landsmótsins og þurftu því að æfa alls 22 lög.

Söngæfingahelgi var haldin að Húsabakka í Svarfaðardal  helgina 25. –  26. janúar. Það var sungið, lært og mikið hlegið. Á laugardagskvöldinu var haldin kvöldvaka sem stelpurnar  ,,Í HÆSTU HÆÐUM,, skipulögðu. Kórkonur sáu sjálfar um allan mat, hver rödd hafði sitt hlutverk í eldamennsku og framreiðslu. Þetta fyrirkomulag heppnaðist mjög vel, bæði hvað varðar fjárhag og skipulag. Sigrún Magna Þórsteinsdóttir var Daníel til aðstoðar á laugardeginum.

Það er orðin hefð að Karlakór Akureyrar – Geysir og Kvennakór Akureyrar syngi saman á þorrablóti heimilisfólksins í Hlíð. Þorrablótið var haldið föstudaginn 14. febrúar og að þessu sinni sungu báðir kórarnir einnig í Lögmannshlíð. Það mátti ekki á milli sjá hverjir skemmtu sér betur, áheyrendur eða flytjendur.

Æfingadagur að vori var haldinn laugardaginn 12. apríl. Að þessu sinni var ekki farið úr bænum og fengum inni í sal Menntaskólans á Akureyri.

Landsmót íslenskra kvennakóra var haldið á Akureyri dagana  9. – 11. maí eins og áður segir. Það var óumdeilanlegur hápunktur starfsársins. Mótið þótti takast afar vel í alla staði og þar skilaði sér öll sú mikla vinna sem kórkonur, stjórnandi  og ekki síst landsmótsnefnd lagði á sig. Mótið stóð yfir frá föstudegi til sunnudags og æfingar stóðu yfir á 6 stöðum í einu. Tónleikur voru bæði á laugardegi og sunnudegi í Menningarhúsinu Hofi og hátíðarkvöldverður og dansleikur í Íþróttahöllinni á laugardeginum. Ríflega 700 konur prýddu bæinn á meðan á mótinu stóð og komu þær úr öllum landshlutum og einn gestakór kom frá Mandal í Noregi.

Vortónleikar voru haldnir í Laugarborg  á uppstigningadag, 29.maí og þar var boðið upp á frían aðgang og kaffiveitingar og meðlæti að tónleikunum loknum. Með þessum tónleikum var ætlunin að þakka öllum þeim sem hjálpuðu okkur við framkvæmd landsmótsins.

Síðasta verkefni KvAk þessa starfsárs var að taka þátt í hátíðadagskrá í Lystigarðinum 17. júni.

Fjáraflanir. Engar venjulegar fjáraflanir voru á vegum kórsins en þeim mun meira leitað eftir styrkjum til stofnana og fyrirtækja. Kórkonur voru mjög duglegar og útsjónarsamar í þessum efnum, bæði við að safna styrkjum í allskonar formi svo og auglýsinga í mótsblaðið.  Nefndastörf voru líka með öðru sniði, allar kórkonur höfðu sitt verkefni í nefndum sem tengdust skipulagningu og framkvæmd landsmóts á einn eða annan hátt.

Heimasíðan var uppfærð eftir áramót og útliti hennar breytt í takt við nýja tíma. Heimasíðan gengdi mikilvægu hlutverki í að miðla fréttum og upplýsingum varðandi landsmótið.

Kórpallar bættust við  veraldlegar eigur Kvennakórs Akureyrar. Ættingjar og puntstrá kórkvenna sáu alfarið um smíðina og var kostnaður við pallana lítið meiri en efniskostnaðurinn.

Nokkur hreyfing var á liðsheild kvennakórs Akureyrar á  árinu. Það bættust við nýjar konur og aðrar hættu. Auglýst var eftir nýjum og ferskum röddum í kórinn í byrjum september með góðum árangri. Alls mættu 10 konur í raddprufur í haust og tvær bættust við eftir áramót. Í nýliðahópnum  voru tvær þýskar háskólastúlkur sem voru við nám og starf hér á Akureyri og sungu með okkur í  vetur. Það er gaman að fá svona farfugla í hópinn, vonandi verður framhald á því. Vorið 2014 var 61 kona skráð í kórinn en, 55 af þeim virkar í starfinu.

Kóræfingar hafa oftast farið fram í Brekkuskóla. En eins og áður víkjum við ef skólinn er upptekinn og höfum þá leitað í hin skjólin okkar, þ.e. Hlíð, Lón og MA.

Fundir stjórnar voru 11 á starfsárinu. Auk þess var mikið um óformlega örfundi sem ekki voru skráðir.

 

Sagan 2012-2013

Alt 2 var í skemmtinefnd starfsárið 2012-2013

 

Breyting varð í stjórn Kvennakórs Akureyrar á aðalfundi kórsins 14. maí 2012. Soffía Pétursdóttir lét af störfum sem gjaldkeri kórsins og í hennar stað kom Anna Breiðfjörð Sigurðardóttir. Skipti þessi tóku þó ekki fullkomlega gildi fyrr en í desember 2012 sökum annríkis hjá Önnu. Áfram sátu í stjórn þær Arnfríður Kjartansdóttir, Eygló Arnardóttir, Kamilla Hansen og Una Þórey Sigurðardóttir.

Starfsárið 2012 – 2013 var ansi líflegt fram í desember en þeim mun rólegra eftir áramót. Í byrjun starfsárs voru skráðar 58 konur í kórnum. Ein hætti í haust en tvær bættust við -þannig að okkur fjölgaði um eina og skráðar konur því 59.

Árlegur haustmarkaður KvAk var haldinn laugardaginn 8. september í Hlöðunni við Litla Garð hjá fyrrum stjórnanda kórsins Þórhildi Örvarsdóttur. Boðið var uppá bakkelsi og sultur og svignuðu borðin undan ýmsum varningi. Að venju var einnig boðið upp á vöfflur og kaffi sem gestir og gangandi gæddu sér á undir indælum söng kórkvenna. Nokkur hagnaður var af deginum þótt ekki gildnuðu sjóðir kórsins mikið. En viðburður sem þessi er orðinn fastur liður í upphafi starfsárs, vekur athygli á kórnum auk þess að hrista kórfélaga saman.

Fyrsta æfing haustsins var sunnudaginn 16. september í Brekkuskóla. Að þessu sinni var ekki auglýst sérstaklega eftir nýjum konum en þess getið í bæjarmiðlum að sópranraddir væru sérstaklega velkomar í kórinn. Nokkrar nýjar konur mættu  á fyrstu æfingarnar og stoppuðu mislengi en af þeim ílengdust tvær konur.

Alt 2  var í skemmtilegu nefndinni þetta starfsár. Á liðnum vetri breyttust þær öðru hvoru í afar virðulegar dömur í félagsskap sem nefndist EVERYTHING TÚ.  Þær byrjuðu með stæl 30. september og buðu hinum óæðri röddum til teboðs fyrir æfinguna sem þann dag fór fram í Lóni. Í teboðinu kynntu dömurnar ,,iðrunarlaust, stórkostlega framtíðarsýn á skemmtidagskrá komandi vetrar,, .

Akureyrar akademían óskaði eftir söng kórsins laugardaginn 13. október. Kórkonur mættu galvaskar í Gamla Húsmæðraskólann við Þórunnarstræti og sungu nokkur lög við góðar undirtektir.

Kóradagur í Hofi var haldinn laugardaginn 27. október og tók Kvennakór Akureyrar þátt í dagskránni. Daníel kórstjóri var upptekinn þennan dag og kom Eyþór Ingi Jónsson í hans stað og stjórnaði kórnum með ágætum.

Þessa sömu helgi fór fram aðalfundur Gígjunnar,  landssambands íslenskra kvennakóra, í Reykjavík. Valdís Þorsteinsdóttir ásamt formanni mættu fyrir hönd KvAk á fundinn.

Mæðrastyrkstónleikarnir voru haldnir öðru sinni í Hamraborg Hofi 25. nóvember og hófust kl 16.  Meðsöngvarar að þessu sinni voru Eyrún Unnarsdóttir og Friðrik Ómar Hjörleifsson. Hljómsveitina skipuðu, Emil Þorri á slagverk, Aladár Rácz á flygil og Stefán Daði Ingólfsson á bassa.  Heiðursgestur á tónleikum var Jóna Berta Jónsdóttir en hún lét af störfum sem formaður mæðrastyrksnefndar á árinu. Tónleikarnir fóru vel fram og var góður rómur gerður að söng kórsins. Eftir tónleikana var haldið dömulegt jólakósýkvöld á Strikinu og snæddu kórkonur og kórstjóri súpu og nutu skemmtiatriða sem dömurnar í EVERYTHING TÚ sáu um. Nú bar svo við að erfiðara gekk að afla styrkja og varð upphæðin sem mæðrastyrksnefnd fékk heldur minni en árið 2012 eða kr 350 000. Það er mikil vinna að baki svona tónleikum og orðið ljóst að ekki svarar kostnaði að halda slíka tónleika í Hamraborg.

Sunnudaginn 9. desember sungu KvAk konur fyrir heimilisfólkið í Lögmannshlíð og tóku hefðbunda æfingu á sama stað á eftir.

Kórinn þátt í aðventutónleikum Karlakórs Eyjafjarðar sem fram fóru í Laugarborg 13. desember.  Ásamt fyrrrnefndum kórum tók Kirkjukór Laugalandssóknar þátt í tónleikunum. Þetta var hin besta skemmtun og virkilega gaman.

20. janúar 2013 hófust æfingar að nýju. Nýtt prógramm leit dagsins ljós, gamalt og nýtt í bland með fjölbreytni í fyrirrúmi.

Föstudaginn 1. febrúar söng  kvennakórinn ásamt Karlakór Akureyrar á þorrablóti í Hlíð og var þetta annað árið í röð sem kórarnir sameinuðust af þessu tilefni.

Vorfagnaður KvAk var haldinn í Pakkhúsinu, Hafnarstræti 19, föstudaginn 5.apríl. Það voru hinar hinar háæruverðugu dömur í EVERYTHING TÚ sem stóðu fyrir fagnaðinum og verður þessi skemmtun lengi í minnum höfð. Þemað var Indverskt, matur og búningar í samræmi við það.

Kórfundur var haldinn á undan æfingunni  7. apríl. Upphaflega átti að halda fundinn á haustönn en sökum ýmissa uppákoma frestaðist hann. Arnfríður Kjartansdóttir hafði veg og vanda af skipulagningu fundarins. Rætt var í hópum um fyrirfram ákveðin málefni er þóttu vera ofarlega í huga kórkvenna. Fundurinn þótti takast vel. Niðurstöður voru kynntar í lok fundarins og hefur stjórn einnig haft þessar niðurstöður til athugunar og lærdóms.

Á æfingunni 21. apríl sungum við óformlega fyrir heimilsfólk Hlíðar, þ.e. án stjórnanda, en   Þórunn Jónsdóttir sá um undirleik á gítar.  Þórhildur Örvarsdóttir sá um æfinguna í fjarveru Daníels og fór ítarlega i raddbeitingu.

Fjölumdæmis- þing Lionshreyfingarinnar á Íslandi var haldið í Hofi  helgina 10. -12. maí og söng kvennakórinn nokkur lög á lokahófi þingsins. Það var ágætis æfing fyrir vortónleikana síðar í mánuðinum.

Vortónleikar kórsins fóru fram helgina 25. – 26. maí. Laugardaginn 25.maí voru haldnir tónleikar í Blönduóskirkju og óku kórkonur til Blönduóss með rútu. Á leið vestur var stoppað í Varmahlíð og sungin nokkur lög fyrir gesti og gangandi. Fámennt en góðmennt var á tónleikunum á Blönduósi en söng kórsins var vel tekið af áheyrendum. Eftir tónleika var komið við á Heilbrigðisstofnuninni á Blönduósi og sungið fyrir heimilisfólkið þar. Að því loknu var snæddur kvöldverður á veitingastaðnum Pottinum. Undir borðum var slegið á létta strengi og létu dömurnar í EVERYTHING TÚ formlega af störfum í skemmtinefnd.  Daginn eftir eða sunnudaginn 26. maí hélt kórinn seinni tónleika sína í Hömrum Hofi. Þeir tónleikar tókust mjög, þeir voru teknir upp og gátu kórkonur fengið CD diska með þessum upptökum á kostnaðarverði.

Æfingadagar voru tveir á áætlun samkvæmt venju. Sá fyrri átti að vera 3. nóvember en endaði sem löng æfing 18.nóv. sökum veðurs og veikinda. Seinni æfingadagurinn var 2. mars og gekk samkvæmt áætlun. Jaan Alavere var Daníel til aðstoðar á seinni æfingadeginum og reyndist sú tilhögun vel. Sem fyrr var æft í Valsárskóla og notið staðgóðra veitinga hjá Kvenfélagi Svalbarðsstrandar.

Fjármál. Fjáraflanir voru í lágmarki. Haustmarkaðurinn  og sala á uppskriftabókinni voru einu fjáraflanir kórsins á árinu. Samningur náðist við Akureyrarbæ um aukinn styrk, er hann nú sambærilegur við styrk til KAG og samið var til þriggja ára. Norðurorka veitti styrki til samfélagsverkefna í ársbyrjun og fékk KvAk styrk upp á kr 150.000.-

Nefndastörf gengu ágætlega, allar nefndir voru mannaðar nema tónleikanefnd.  Eins og á síðast ári hefur verið lögð mikil og góð vinna í kynningar og auglýsingar.

Heimasíðan hefur verið í uppfærslu. Sú vinna hefur gengið hægt en örugglega. Formaður fundaði með völdum konum um samræmingu á nefnda og starfslýsingum á heimasíðu.

Kórpési fæddist á starfsárinu. Móðir hans og hugmyndasmiður er Madda (Margrét Einarsdóttir) í alt 2.  Pési er mesta þarfaþing og ætti að vera staðalbúnaður í tösku hverrar kórkonu. Í Pésa er að finna allar helstu upplýsingar um kórinn, auk netfanga og símanúmera kórkvenna.

Æfingastöðum kórsins hefur fjölgað. Eins og áður þurftum við stundum að víkja úr Brekkuskóla vegna uppákoma þar. Við höfum fengið inni í öldrunarheimilum Akureyrar og greitt fyrir greiðann með söng. Svo njótum við enn velvildar KAG, Karlakórs Akureyrar-Geysis. Í vetur höfum við sungið í Lóni, Hlíð, Lögmannshlíð, Laugarborg og nú síðast í MA.

Fundir stjórnar hafa verið allnokkrir á árinu eða alls 12.  Minna fór fyrir fundum með nefndum en formaður og stjórn voru í ágætum samskiptum við nefndarkonur.

Landsmót íslenskra kvennakóra verður haldið á vordögum 2014 og í vetur var landsmótsnefndin komin á fullt við að vinna að undirbúningi þess.

Kanadaferð 2012

Kvennakór Akureyrar fór í söngför til Kanada sumarið 2012 og tók meðal annars þátt í Íslendingadeginum í Gimli. Formaður kórsins skráði ferðasöguna.

Söngferðalag Kvennakórs Akureyrar til Kanada 2012

Kvennakór Akureyrar hefur það að markmiði sínu að fara erlendis í söngferð að jafnaði fjórða hvert ár. Haustið 2011 kom upp sú hugmynd hjá kórnum að fara á Íslendingaslóðir í Kanada og taka þátt í hátíðahöldum á Íslendingadeginum í Gimli. Ákveðið var að fara með ferðaskrifstofunni Vesturheimi sem sérhæfði sig í ferðum á Íslendinga slóðir í Vesturheimi. Það komu upp nokkur vandamál í skipulagningunni síðar um haustið og um tíma virtist sem ekkert yrði úr ferðinni. Iceland express hætti að fljúga til Winnipeg, ferðaskrifstofan varð gjaldþrota og á ýmsu gekk. En ekki gáfumst við upp og eftir töluverðar vangaveltur og kannanir var ákveðið að fara með ferðaskrifstofunni Bændaferðum og ferðin varð að veruleika.
Við tóku stífar æfingar og kórinn getur nú til dæmis sungið þjóðsöngva Íslands, Kanada og Bandaríkjanna rétt eins ekkert sé. Prógrammið var tvískipt, íslensk þjóðlög og blanda af erlendum lögum af ýmsu tagi. Ákveðið var að kórinn myndi syngja á þremur tónleikum; í Gimli, Riverton og Minneapolis, auk þess að taka þátt í hátíðahöldunum á Íslendingadeginum í Gimli. Í för með okkur konunum var að sjálfsögðu kórstjórinn okkar, Daníel Þorsteinsson og slatti af puntstráum. Puntstrá eru nánir aðstandendur eða áhangendur kvenna í Kvennakór Akureyrar, aðallega þó eiginmenn kórkvenna. Það er lögð sérstök áhersla fyrri hluta orðsins, það er – PUNT.
Við flugum til Minneapolis og ókum þaðan norður til Kanada. Reyndar þurfti kórinn að fljúga út í tveimur hollum með dags millibili en það kom ekki að sök, þær kaupglöðustu fóru í fyrri hópnum…. að sögn okkar sem seinna fórum. Hóparnir sameinuðustu í Minneapolis að kvöldi 3. ágúst, fyrri hópurinn var þá búinn að skoða sig aðeins um og versla.
Að morgni laugardagins 4.ágúst var lagt af stað til Kanada. Hrafnhildur Sigmarsdóttir var fararstóri í rútunni minni og Jónas Þór, aðalfararstjóri hópsins, í hinni. Það tók um einn og hálfan dag að aka norður til Winnipeg. Það fór vel um hópinn í tveim góðum 35 manna rútum. Það er ekki mikið um sextíu manna rútur á þessum slóðum í Ameríku, annað en á mjóu vegunum á Íslandi! Bilstjórarnir voru mjög liprir og elskulegir, vildu allt fyrir okkur gera.
Við kórkonur höfðum hlustað á Atla Ásmundsson ræðismann Íslands í Kanada segja frá Vestur Íslendingum. Ég man að hann sagði frá því að hann hefði fyrst vitað hvað cruise control var þegar hann fór þangað vestur. Það væri bókstaflega ekið í sömu átt heilu dagana. Og landslagið væri ; ,, að hugsa eitthvað flatt og fletja það svo enn meira út‘‘. Þetta var alveg rétt hjá honum, allavega séð með augum norðlensku daladótturinnar! Á leið norður sögðu fararstjórarnir frá upphafi búsetu Vestur Íslendinga á þessum slóðum. Ég man sérstaklega eftir því að Hrafnhildur varð hálf klökk þegar ekið var um sléttur Norður- Dakóta, bestu landbúnaðar héruð Norður Ameriku. Þar lá leið islensku landnemanna um og í stað þess að setjast þar að héldu þeir norður til Manitoba þar sem ýmsar hörmungar biðu þeirra. Á leiðinni til Grand Forks sem var næsti gististaður á leiðinni var áð í bænum Alexandríu og skoðað norrænt byggðasafn. Ýmislegt var þar öðruvísi en á íslenskum byggðasöfnum. Kórinn tók að sjálfsögðu lagið í kirkju í safninu og þar hljómaði íslenskur söngur jafnvel og heima.
Þriðji dagurinn rann upp og nú magnaðist spennan, Kanada var rétt handan við sjóndeildarhringinn. Það er ekki hægt að tala um, handan við næsta hól, þarna! Fararstjórarnir voru búnir að tala mikið um smámunasemi kanadísku landamæravarðanna. Ekkert áfengi mátti vera uppi og ekkert matarkyns, þeir væru meira að segja vísir til að skoða í töskur. Nú voru góð ráð dýr, það var eitthvað eftir af smá vínflöskum – jafnvel slatti í einum og einum koníaksfleyg í handfarangri. Við söngkonurnar máttum ekki drekka dropa af víni þar til eftir tónleika og ekki dugði að láta tollarana gera þetta upptækt. Það var því hellt vel upp á puntstráin áður en komið var að landamærunum! En svo gekk allt eins og í sögu, það kom í ljós að þarna var tollvörður af íslenskum ættum sem brosti út í bæði og lét við okkur eins og við værum nánir ættingjar. Til Winnipeg var komið um hádegi. Áður en haldið var áfram til Gimli var stoppað við þinghúsið og heilsað upp á Jón Sigurðsson, það er að segja minnismerkið. Þar heyrðum við söguna um deilurnar varðandi staðsetningu styttunnar.
Það var sérstakt að sjá alíslensk nöfn á sveitabæjum á leiðinni norður til Gimli og íslenska fánann við hún. Um kvöldið söng kórinn á hátíðatónleikum í Gimli, The Celebrity Concert, í Johnson Hall við góðar undirtektir. Þar voru meðal annarra gestir frá Íslandi til að mynda bæjarstjóri okkar Akureyringa og kona hans. Á tónleikunum var einnig Rósalind Vigfússon. Rósalind er vel þekkt í vestur íslensku samfélagi og einkum fyrir að stofna og stjórna barnakórum. Hún kennir börnum af vestur íslenskum ættum íslensku með söng. Mjög merkileg kona. Kórinn söng eitt lag eftir hana, Minni Íslands. Ljóðið er eftir Vestur Íslendinginn Böðvar Jakobsson. Þetta var í fyrsta sinn sem þetta lag er flutt af íslenskum kór og vakti mikla lukku. Eftir vel heppnaða tónleika var haldið aftur heim á hótel í Winnipeg.
Mánudaginn 4.ágúst var lagt eldsnemma af stað til Gimli enda stóð mikið til. Þennan dag var Íslendingadagurinn haldinn hátíðlegur í Gimli og Kvennakór Akureyrar tók fullan þátt í hátíðahöldunum. Íslendingadagurinn í Gimli á sér langa sögu eða allt frá árinu 1932. Við tókum fyrst þátt í heljarinnar skrúðgöngu, það var engin venjuleg skrúðganga. Við sátum á heyböggum sem voru upp á risastórum vagni eða trailer. Ekið var um götur Gimli í um eina klukkustund í langri lest annara ökutækja. Daníel kórstjóri var fremstur með nikkuna og kórkonur og puntstrá röðuðu sér beggja vegna eftir endilöngum vagninum. Við sungum eins og enginn væri morgundagurinn, ég hélt hreinlega að Daníel væri búinn að gleyma því að kórinn átti að syngja fallega á hátíðasamkomunni eftir hádegi. Vinsælasta lagið var án efa, á Sprengisandi. Það virtust margir kannast við það lag, enda kom í ljós að Rósalind var mikið með það lag í barnakórunum sínum. Kanadíski og íslenski fánarnir blöktu allstaðar og fólkið fagnaði ákaft. Okkur leið eins og drottningum, þetta var ógleymanleg upplifun. Eftir hádegi tók kórinn þátt í hátíðasamkomu, þar eru ýmsar venjur hafðar í hávegum, fjallkonan kemur í fullum skrúða, sungin lög eins og Fósturlandsins Freyja, Eldgamla ísafold og enska útgáfan – God save the Queen auk þjóðsöngva beggja landa. Og ótrúlega mikið af ræðum ! Það var glatt á í rútunum á heimleiðinni og mikið sungið, góður dagur á enda.
Þriðjudagurinn 5.ágúst rann upp og þá var farið í skoðunarferð til Nýja Íslands m.a til Árborgar og Mikleyjar. Í Árborg skoðuðum við byggðasafn sem tengdist landnemum á þessu svæði m.a. Íslendingum. Við heimsóttum einnig Rósalind og Einar Vigfússon á býli þeirra Drangey skammt frá Árborg. Einar er ekki síður merkilegur en Rósalind en hann er mjög þekktur fyrir listilegan útskurð, einkum fugla. Það var mjög eftirminnilegt að koma til Mikleyjar eða Hecla. Þar var áður alíslensk byggð. Þar hittum við Maxemine Ingals sem er af íslenskum ættum og vinnur við að sýna íslensku ferðafólki byggðina. Það var afar sérstakt að rölta um kirkjugarðinn á eynni. Það var rétt eins og að vera í íslenskum kirkjugarði. Íslensk nöfn og íslensk grafskrift. Við enduðum á söng í kirkjunni, sungum alíslenskan sálm frá sautjándu öld, Jesú mín morgunstjarna. Það var vel við hæfi. Dagurinn endaði á tónleikum í Riverton. Þar eins og allstaðar var tekið á móti okkur með kostum og kynjum. En það var mjög heitt inni og við vorum að kafna í skósíðum kórkjólunum. Ekki bætti úr að bæjarstjórinn í Riverton, Davíð Gíslason hélt sérlega langa ræðu í upphafi og héldum við kórkonur að nú væri okkar síðasta stund upprunnin. Kvennakór Akureyrar myndi hreinlega andast úr hita. En við lifðum þetta af og það var einstaklega gaman að syngja fyrir fólkið þarna. Þetta var svolítið eins og að vera með tónleika í rammíslensku félagsheimili á Íslandi. Á eftir svignuðu borðin undan vínartertum og öðrum kræsingum. Það voru þreyttar en ánægðar konur og puntstrá sem héldu aftur heim á hótel í Winnipeg.
Daginn eftir kvöddum við Kanada með trega í hjörtum og góðum minningum um einstaklega gestrisið fólk. Ferðalagið aftur til Minneapolis gekk vel. Við hittum aftur á brosmildan vestur íslenskan landamæravörð en nú Bandaríkja megin. Bílstjórarnir höfðu sjaldan farið jafn auðveldlega fram og til baka yfir landamærin. Gist var í bænum Fargó á leiðinni til Minneapolis. Kórkonur og puntstrá gerðu sér glaðan dag og slökuðu á eftir mikla keyrslu undanfarinna daga, söngur og harmonikkuspil ómaði langt fram á kvöld.
Við komum aftur til Minneapolis fimmtudagskvöldið 10. ágúst – með smá stoppi í Albertville Premium Outlet. Það var ekki amaleg staðsetningin á síðasta gististað ferðarinnar, Spring Hill Suites, verslunar miðstöðin Mall of the Amerika var rétt handan götunnar….. Kór og puntstrá eyddu síðustu dögum ferðarinnar í Minneapolis meðal annars við verslun, söng og siglingu á Missisippi.
Föstudagskvöldið 11.ágúst söng kórinn þriðju og síðustu tónleikana í ferðinni. Þeir tónleikar voru haldnir í Grace University Lutherian Church og voru á vegum Íslendinga félagsins í Minneapolis. Það var öðruvísi að halda tónleika í Minneapolis en norður í Kanada, einhvernvegin ekki eins mikil nánd við tónleikagesti. En eins og áður var söng okkar mjög vel tekið af þakklátum áheyrendum.
Næst síðasta dag ferðarinnar, laugardag 12 . ágúst, fór hópurinn í siglingu með fljótabát á Missisippi. Það var mjög gaman, snæddum dýrindis hádegisverð og um borð hljómaði lifandi banjótónlist. Við tókum að sjálfsögðu lagið fyrir aðra gesti á bátnum og á Missisippi fljótinu ómuðu um stund íslensk þjóðlög auk annara tónsmíða.
Síðdegis sunnudaginn 13. ágúst kvaddi Kvennakór Akureyrar og fylgdarlið Minneapolis og hélt heim eftir vel heppnaða söngför til Vesturheims.
Það er frábært að vera í góðum og samstilltum kór, að geta deilt gleði og sorg með kórfélögum. Að fara að auki í svona ferðalag með kórnum sínum er ómetanleg upplifun. Það er svo gaman, við kynnumst betur og það þjappar okkur enn betur saman.

Sagan 2011-2012

10 ára afmælistónleikar í Hömrum í Hofi

 Saga kórsins starfsárið 2011 – 2012

Á aðalfundi 11. maí 2011 varð töluverð breyting á stjórn en þá gengu þrjár konur úr stjórn, þær Snæfríð Egilson,  Ásdís Stefánsdóttir og  Una Berglind Þorleifsdóttir. Í þeirra stað komu; Arnfríður Kjartansdóttir, Eygló Arnardóttir og Kamilla Hansen. Áfram sátu Soffía Pétursdóttir og Una Þórey Sigurðardóttir.

Síðasta verkefni kórsins á starfsárinu 2010-2011 voru vortónleikarnir sem haldnir voru í Laugarborg sunnudaginn 22. maí.  Með kórnum söng Eyrún Unnarsdóttir messósópran. Náttúruöflin urðu til þess að andrúmsloftið í kórnum varð ansi dramatískt síðustu stundirnar fyrir tónleikana og ég hef grun um að hjarta þáverandi formanns hafi slegið nokkuð ört. Það byrjaði nefnilega að gjósa í Grímsvötnum með þeim afleiðingum að öllu flugi var aflýst á sunnudag og kórstjórinn staddur í Reykjavík  en tónleikarnir áttu að hefjast kl 16. En Daníel brást okkur ekki frekar en fyrri daginn, leigði bílaleigubíl í snatri og ók viðstöðulaust norður. Hann náði rétt mátulega að skipta um föt og var mættur á sinn stað á sviðinu í Laugarborg klukkan fjögur, rétt eins og ekkert hefði gerst. Eftir vortónleikana fóru kórkonur í langþráð sumarfrí.

Starfsárið 2011- 2012 var eitt af viðburðaríkustu árunum í sögu kórsins og rak hver viðburðurinn annan. Má þar helst nefna tíu ára afmæli kórsins,  veglega mæðrastyrkstónleika og fyrirhugaða ferð Kvennakórs Akureyrar á Íslendingaslóðir í Kanada í ágúst .

Fyrsta æfing haustið 2011 var haldin sunnudaginn 4. september í Brekkuskóla.  Áður hafði verið auglýst eftir nýjum konum í Dagskránni og einnig voru settar upp auglýsingar. Einnig voru kórkonur beðnar um að líta í kringum sig eftir álitlegum nýliðum í kórinn.
Þessi herferð bar ágætis árangur því það komu þó nokkrar konur í hópinn til okkar, bæði nýjar og eins konur sem höðu verið í kórnum á árum áður. Lögð var áhersla á það í byrjun starfsárs að halda vel utanum nýliðana strax í upphafi eiga raddformenn  og kórkonur allar þakkir skildar fyrir það. Eins og gengur týndist aðeins úr nýliðahópnum er leið á haustið og veturinn en langflestar héldu áfram.

Á haustdögum voru starfandi í kórnum um 66 konur, nokkrar kórkonur tilkynntu ótímabundin hlé og þrjár af nýliðunum hættu fyrir áramót. Um aðalfund að vori 2012 voru skráðar 59 konur í kórnum. Nokkrar konur sem ekki ætluðu að taka þátt í Kanadaför tóku hlé til hausts.

Árlegur haustmarkaður KvAk var haldinn í Hlöðunni á Hömrum laugardaginn 10. september. Var hann með hefðbundnum hætti, kórkónur mættu með ýmsan varning, s.s. fatnað, bækur, fjallagrös og þessháttar og þær sem ekki gátu lagt eitthvað til greiddu ákveðna upphæð. Boðið var upp á vöfflur og kaffi sem gestir og gangandi gæddu sér á undir indælum söng kórkvenna. En nú brá svo við að mjög lítið var af ætum varningi svo sem brauði og kökum. Kom þetta í kjölfar nýlegra reglugerða heibrigðisnefndar er bannaði sölu á heimatilbúnum mat nema úr heilbrigðisvottuðum eldhúsum. Það litla sem barst af brauði og sultum bókstaflega hvarf á augabragði.  Markaðurinn skilaði þó nokkrum hagnaði umfram kostnað.

KvAk konur mættu galvaskar í útvarpsþáttinn  Gestir út um allt  í Hofi sunnudaginn 6. nóv. Þar samdi og söng Ingó veðurguð hið rómaða lag um Kvennakór Akureyrar. Það var Snæfríð Egilson sem stóð fyrir þátttöku kórsins í þættinum og var það liður í því að auglýsa kórinn út á við.

Tíu ára afmæli kórsins var haldið með pomp og prakt laugardaginn 19. nóvember. Um undirbúning og framkvæmd sá sérskipuð afmælisnefnd undir styrkri stjórn Helgu Sigfúsdóttur. Afmælishátíðin byrjaði á veglegum tónleikum í Hömrum Hofi þar sem farið var yfir sögu kórsins frá upphafi í mæltu máli og söng. Æfingar kórsins frá í september höfðu miðast við að æfa úrval laga sem kórinn hafði sungið undir stjórn fyrri stjórnenda. Auk þess var frumflutt ljóð einnar kórkonunnar, Önnu Dóru Gunnarsdóttur við lag Daníels.  Kórinn söng við undirleik hljómsveitar sem sett var saman af þessu tilefni. Við  píanóið sat Aladár Rácz, Pétur Ingólfsson sá um bassann og Emil Þorri Emilsson um trommur. Helga Sigfúsdóttir sagði sögu kórsins og fór algerlega á kostum. Tónleikarnir tókust mjög vel í alla staði. Þess má geta að tónleikarnir voru teknir upp og var t.d. öllum stjórnendum kórsins fyrr og nú gefin upptaka með tónleikunum og sögu kórsins.

Um kvöldið mættu kórkonur ásamt mökum út í Hlíðarbæ þar sem haldin var heljarinnar veisla. Snorri Guðvarðar  sá um veislustjórn af sinni alkunnu snilld. Um skemmtiatriði sáu kórkonur sjálfar. Óllum að óvörum komu félagar úr Karlakór Akureyrar/Geysi og sungu nokkur lög fyrir veislugesti við góðar undirtektir. Að lokum var dansað fram á nótt við undirleik Snorra og hljómsveitar hans.

Mæðrarstyrkstónleikarnir voru  haldnir í Hamraborg í Hofi  8. desember. Þeir voru haldnir af miklum metnaði og fengum við söngfólkið Guðrúnu Gunnarsdóttur og Ívar Helgason í lið með okkur ásamt hljómsveitinni góðu frá afmælistónleikunum.  Allt tónlistarfólkið gaf vinnu sína og  voru Mæðrastyrksnefnd færðar kr. 560 þúsund í lok tónleikanna. Tónleikarnir heppnuðust mjög vel og höfðu áheyrendur orð á því að mikil orka og gleði hefðu streymt frá kórnum.

Jólasamvera var haldin í beinu framhaldi af síðustu æfingunni fyrir jól þann 11. des. Þar var fámennt en góðmennt og skemmtu kórkonur og Daníel sér góða stund við skemmtilestur auk þess að gæða sér á ýmsum kræsingum. Auk þess var nýja matreiðslubókin, Kvakandi krásir, kynnt.

Jólasöngur í miðbænum 17. des.  að beiðni Akureyrarstofu var síðasta verkefni kórsins fyrir jól.  KvAk konur sungu að venju fyrir framan Bláu könnuna í kulda og trekk og fengu sér svo heitt kakó á eftir ásamt Daníel.

Fyrsta æfingin á árinu 2012 var haldin 8. janúar í Brekkuskóla. Þá var byrjað að æfa nýtt prógram sem tók mið af væntanlegri Kanadaferð kórsins.

Jónas Þór fararstjóri og ferðaskipuleggjandi kom 26. janúar og kynnti væntanlega Kanadaferð fyrir kórnum en töluverðar breytingar höfðu orðið á fyrirkomulagi ferðarinnar frá upphafi. Í framhaldi af þeirri heimsókn ákváðu þó langflestar kórkonur að halda sínu striki og fara í ferðina þrátt fyrir breytta ferðatilhögun.

10. febrúar sungu KvAk konur ásamt félögum úr K.A.G. á þorrablóti í Hlíð við góðar undirtektir og sunnudaginn 25. mars var sungið fyrir vistfólk í Kjarnalundi og Hlíð.

Að beiðni Þjóðræknisfélags Íslands söng kórinn á kynningarfundi þess og Utanríkisráðuneytisins á Amtbókasafninu laugardaginn 31. mars. Auk þess að syngja hlustuðum við á frábæran fyrirlestur Atla Ásmundssonar (aðalræðismanns Íslands í Winnipeg) um Vestur – Íslendinga.

Sunnudaginn 6. maí  hélt kórinn tónleika í Siglufjarðarkirkju ásamt Karlakór Akureyrar/Geysi og félögum úr Karlakór Siglufjaðar.  Eftir sönginn fengu kórarnir súpu og salat á Kaffi Rauðku áður en haldi var heim á leið eftir vel heppnaða tónleika.

Vortónleikar voru haldnir í Laugarborg 29. maí.  Efnisskráin var tileinkuð ferð Kvennakórins á Íslendingaslóðir í Kanada. Prógrammið var fjölbreytt, blanda af íslenskum þjóðlögum ásamt nýjum og gömlum perlum.
Vortónleikarnir báru eins og áður sagði sterkan svip af því sem framundan var – söngferðalag á Íslendingaslóðir í Vesturheimi. Af því tilefni var tekin útimynd af kórnum með þjóðfánann og íslenska náttúru í baksýn, myndasmiður var Freydís Heiðarsdóttir en hún hafði einnig aðstoðað við myndatökur og vinnslu auglýsinga.

Kanadafarar héldu æfingum áfram fram að brottför, samtals voru haldnar fimm æfingar í júní og júlí. Auk æfinganna var haldinn einn undirbúningsfundur með Jónasi fararstjóra.

Kvennakór Akureyrar fór í söngferðalag til Bandaríkjanna og Kanada dagana 2-14. ágúst. Það er skemmst frá því að segja að ferðin tókst með miklum ágætum. Auk þess að taka þátt í hátíðahöldum á Íslendingadeginum í Gimli, söng kórinn á þrennum tónleikum, á hátíðatónleikum í Gimli, í Riverton og í Minneapolis við mjög góðan orðstý. Nánari ferðasögu má sjá hér.

Akureyrarkaupstaður átti 150 ára afmæli á árinu 2012 og aðalhátíðahöldin voru laugardaginn 1. september. Kvennakór Akureyrar tók þátt í hátíðadagskrá sem fram fór á Akureyrarvelli þann dag. Þar söng kórinn þrjú lög í mjög metnaðarfullri og velheppnaðri dagskrá.
Kórinn hóf aftur upp raust sína síðar um kvöldið og þá í Menningarhúsinu Hofi. Þar gafst þeim er áttu bókaða viðburði í Hofi á komandi mánuðum tækifæri til að kynna sig og vakti söngur KvAk jákvæða athygli hlustenda.

Dvalarheimilið Hlíð átti einnig afmæli á árinu 2012 og þar voru mikil hátíðahöld í byrjun september. Af því tilefni hélt KvAk  tónleika fyrir heimilsfólk Hlíðar fimmtudaginn 6. september þar sem kórinn söng sumarprógrammið við góðar undirtektir. Segja má að söngurinn í Hlíð hafi verið síðasti viðburðurinn á starfsárinu 2011 – 2012.

Æfingadagar kórsins á árinu voru tveir samkvæmt venju. Sá fyrri var 30. október en sá seinni 10. mars. Báðir æfingadagarnir voru haldnir í Valsárskóla og sá Daníel einn um að æfa okkur. Að venju sá Kvenfélag Svalbarðsstrandar um mat og drykk af sinni alkunnu snilld.

Fjáraflanir voru nokkrar á starfsárinu. Þar ber fyrst að nefna áðurnefndan markað í byrjun september. Svo var ráðist í eina kleinusölu á haustdögum. Auk þess var farið í jólakortagerð og sölu í desember auk þess að vera með söluborð í Bónus einn dag fyrir jól. En sú fjáröflun sem mestu skilaði og fékk auk þess jákvæðustu umfjöllunina var útgáfa uppskriftarbókar kórfélaga; Kvakandi krásir.  Fyrsta upplag seldist upp svo prenta þurfti meira. Valdís Þorsteinsdóttir hafði veg og vanda af útgáfunni en kórfélagar lögðu til uppskriftir.

Nefndir voru allar mannaðar að tónleikanefnd undanskilini.  Stjórnin fundaði með ferða- og fjáröflunarnefndum eftir þörfum og auk þess verið í ágætu sambandi við aðrar nefndir. Meira var lagt í kynningar á kórnum út á við en oft áður.  Landsmótsnefnd hóf vinnu fyrir væntanlegt landsmót  íslenskra kvennakóra hér á Akureyri vorið 2014.

Æfingar voru í Brekkuskóla en þennan vetur þurfti oft að víkja þaðan vegna ýmissa uppákoma m.a. viðgerða á sal. Þá var æft  í Hlíð og Dynheimum í Hofi, en mest þó í Lóni.  Gott samstarf var við Karlkór Akureyrar/Geysi varðandi lán á húsnæði og pöllum og í staðinn hjálpuðu KvAk konur tvívegis til við veisluhöld á þeirra vegum.

Fundir stjórnar frá aðalfundi 2011 voru 16 fundir, þar af 13 síðan stjórnarnskipti urðu í byrjun starfsárs 2011-2012.