Sagan 2002 – 2003

Fyrsti stjórnarfundur haustsins var haldinn 4. september til að undirbúa vetrarstarfið en alls urðu fundirnir 9, ýmist haldnir á Bláu könnunni eða í heimahúsum.

Fyrsta æfingin var svo sunnudaginn 15. september í sal Brekkuskóla eins og fyrr og áfram var stjórnandi Björn Leifsson en Þórhildur Örvarsdóttir var líka fengin til liðs við okkur til raddþjálfunar. Hún kom á æfingar í samráði við Björn eins og þurfa þótti.

Skemmtikvöld var haldið á Græna hattinum 2. nóvember og snæddur matur frá Pengs.

Á aðventunni æfðum við jólalög, skiptum okkur í flokka og sungum í Hjúkrunarheimilinu Hlíð, hjá Sálarrannsóknarfélaginu og þrjú fimmtudagskvöld á Bláu könnunni.

Æfingaferð var farin í Hrísey laugardaginn 18. janúar. Ekki tókst betur til en svo að Björn varð veikur og ekki horfði allt of vel með veður og færð þannig að einhverjar hættu við að mæta en Þórhildur og Arnór Vilbergs tóku málin að sér og við áttum frábæran dag í Hrísey og nutum góðra veitinga í Brekku.

Eftir áramótin var ákveðið að fjölga æfingum og vorum við á raddæfingum á miðvikudagskvöldum.

Stjórnin ákvað að sækja um styrk til Menningarmálanefndar Akureyrarbæjar og fengum við styrk að upphæð 75 þúsund krónur.

Sungið var á þorrablóti í Hlíð föstudaginn 21. febrúar og einnig sungum við fyrir Sjálfstæðiskonur á Hótel Kea 23. febrúar.

Við tókum, ásamt fleiri kórum, þátt í minningartónleikum um Áskel Egilsson, sem haldnir voru í Glerárkirkju 16. febrúar. Einnig sungum við á tónleikum á sama stað 20. mars sem voru á vegum Ungmennafélaganna undir slagorðunum „Fíkn er vá“.

Aðal tónleikarnir okkar voru haldnir í Glerárkirkju 1. mars og tókust bara vel, reyndar voru heldur færri áhorfendur en árið á undan en þó um 170 manns.
Þórhildur Örvarsdóttir söng einsöng með kórnum og undirleikari var Arnór Vilbergsson.
Eftir tónleikana fórum við á Græna hattinn og enn sem fyrr áttum við skemmtilegt kvöld saman.

Stofnuð voru Landssamtök Kvennakóra 5. apríl og ákvað stjórnin að við yrðum meðal stofnaðila. Á stofnfundinn í Reykjavík fóru formaður Dóra S. Jónasdóttir og meðstjórnandinn Aðalbjörg Sigmarsdóttir. Samtökunum var gefið nafnið Gígjan og væntum við góðs af þátttöku þar.

Aðalfundur var haldinn þann 4. maí 2003.

Vorferð kórsins 2003 var farin austur í Mývatnssveit. Í leiðinni þangað héldum við tónleika í Ýdölum í Aðaldal. Farið var af stað fyrir hádegi laugardaginn 17. maí og sungið í Ýdölum klukkan 15:00. Tónleikarnir voru frekar illa sóttir, aðeins 11 manns mættu! Við létum það nú ekki á okkur fá og sungum eins og englar við undirleik Helgu Bryndísar Magnúsdóttur og Snorra Guðvarðssonar. Þórhildur Örvarsdóttir söng einsöng eins og á tónleikunum árið áður.
Eftir tónleikana var haldið upp í Mývatnssveit og glaðst við mat, drykk, söng og gamanmál á Hótel Seli og síðan gist þar um nóttina. Um hádegisbil á sunnudeginum var svo haldið heim á leið eftir afar vel heppnaða ferð.

Við sungum við KA-messu í Akureyrarkirkju sunnudaginn 25. maí, tókst það í alla staði mjög vel og þar með lauk vetrarstarfinu þennan veturinn.

Sagan 2001 – 2002

Æfingar Kvennakórs Akureyrar undir stjórn Björns Leifssonar hófust á vordögum 2001 og voru þær haldnar í sal Tónlistarskólans á Akureyri. Mikill fjöldi kvenna hafði þá gengið til liðs við kórinn eftir kynningardag sem konur úr KA kórnum héldu á Bláu könnunni. Á sumardaginn fyrsta söng kórinn nokkur lög í safnaðarsal Glerárkirkju í kaffihlaðborði. Lokahóf var haldið á Græna hattinum 23. maí 2001.

Haustið 2001 hófust æfingar í september og hafði kórinn nú fengið æfingahúsnæði í Brekkuskóla, þ.e í sal gamla Gagnfræðaskólans.

Æfingadagar voru tveir, haldnir í Þelamerkurskóla og á Græna hattinum.

Fyrstu alvöru tónleikar kórsins voru haldnir í Glerárkirkju 9. mars 2002 kl. 15:00. Björn Leifsson var að sjálfsögðu stjórnandi og undirleikari var Arnór Vilbergsson. Gestasöngvari á þessum tónleikum var Alda Ingibergsdóttir sópran og undirleikari með henni Sólveig Anna Jónsdóttir.

Sótt var um styrk til menningarmálanefndar Akureyrarbæjar og fengum við kr. 100.000.-

Aðalfundur var haldinn 28. apríl 2002.

Æfingar voru áfram eftir aðalfund á sunnudögum fram að vorferðinni sem farin var austur í Illugastaði föstudagskvöldið 24. maí. Farið var með rútu austur og gist í 10 sumarhúsum. Snæddur var glæsilegur kvöldverður af hlaðborði frá Lostæti og síðan unað við söng og ýmis gamanmál fram eftir nóttu. Æfingadagur var svo haldinn á laugardeginum 25. maí, og síðan haldið heim með rútunni seinni partinn.

Kórinn söng við KA messu í Akureyrarkirkju sunnudaginn 26. maí, tókst það í alla staði mjög vel og þar með lauk vetrarstarfinu þennan fyrsta vetur Kvennakórs Akureyrar.