Sagan 2019-2021

Á aðalfundi Kvennakórs Akureyrar, sem haldinn var í Menntaskólanum á Akureyri þann 29. september 2019, gengu Halla Sigurðardóttir og Margrét Ragúels úr stjórn en Guðrún H. Hreinsdóttir og Kristín Elva Viðarsdóttir voru kjörnar í staðinn. Stjórnin á tímabilinu 2019-2021 var því skipuð þeim Þórunni Jónsdóttur, formanni, Guðrúnu H. Hreinsdóttur, varaformanni, Valdísi Björk Þorsteinsdóttur, ritara, Sigríði Jónsdóttur, gjaldkera, og Kristínu Elvu Viðarsdóttur meðstjórnanda. Raddformenn voru Helga H. Gunnlaugsdóttir alt 1, Lilja Jóhannsdóttir alt 2, Hafdís Þorvaldsdóttir sópran 1 og Una Þ. Sigurðardóttir sópran 2.

Tíminn frá hausti 2019 og fram til vors 2021 markaðist af töluverðum sviftingum fyrir kórinn. Á þessum tíma fékk kórinn nýjan stjórnanda, æfði á tveimur nýjum æfingastöðum og tókst á við ýmsar áskoranir sem fylgdu samkomutakmörkunum vegna heimsfaraldursins Covid-19.
Valmar Väljaots tók við stjórn kórsins af Sigrúnu Mögnu Þórsteinsdóttur haustið 2019 og hefur stýrt kórnum síðan.

Starf vetrarins 2019-2020 hófst með æfingu 22. september 2019. Æfingar voru einu sinni í viku í Menntaskólanum á Akureyri, á sunnudögum kl. 17:00-19:00. Kórinn hafði áður haft æfingaaðstöðu í Brekkuskóla og þakkar stjórn kórsins Brekkuskóla fyrir langt og gott samstarf. Haustið 2020 fluttust svo æfingar í Lón, húsnæði Karlakórs Akureyrar við Hrísalund.

Æfingadagur var haldinn 10. nóvember 2019 í Menntaskólanum á Akureyri. Sigrún Magna Þórsteinsdóttir kom og aðstoðaði við æfingar svo að hægt væri að skipta kórnum niður í raddir. Til stóð að hafa annan æfingadag eða jafnvel æfingahelgi um vorið 2020 en þær áætlanir féllu niður vegna samkomubanns.

Kórinn tók þátt í jólatónleikum í Glerárkirkju að kvöldi 19. desember 2019, Karlakór Eyjafjarðar, Kirkjukór Glerárkirkju og Barnakór Glerárkirkju sungu með Kvennakórnum. Tónleikarnir voru vel sóttir og heppnuðust vel. Kórinn söng einnig þann 29. desember með Kirkjukór Glerárkirkju .

Starfsemi kórsins á vorönn 2020 og haustönn 2020 markaðist að mjög miklu leiti af heimsfaraldrinum COVID-19. Þann 13. mars 2020 var lýst yfir samkomubanni sem átti að standa í tvær vikur, en stóð langt fram á vor, svo að æfingar hófust ekki aftur um vorið, en kórkonur náðu að hittast í nokkur skipti um sumarið á miðvikudags-hittingi í Lystigarðinum. Í september stóð svo til að hefja æfingar á ný og halda aðalfund, en þá voru aftur settar á samkomutakmarkanir sem lömuðu starfsemi kórsins alla haustönnina. Æfingar hófust aftur 31. janúar 2021 og þær hafa verið ýmist skiptar æfingar með aðeins sópran eða aðeins alt, eða sameiginlegar með öllum röddum. 24. mars 2021 voru sóttvarnaraðgerðir hertar svo að eftir það var æfingum hætt þann veturinn.

Þegar samkomubanninu 13. mars 2020 var lýst yfir hafði kórinn verið að undirbúa ferð sína á Landsmót íslenskra kvennakóra í Reykjavík sem halda átti 7.-9. maí. Stjórn Gígjunnar frestaði landsmótinu, fyrst til maí 2021, svo til september 2021 og síðast til maí 2023. Kvennakór Akureyrar þáði boð landsmótsnefndar um að fá staðfestingargjald endurgreitt, svo að kórinn hefur engar fjárhagslegar skuldbindingar um þátttöku í mótinu eins og er.

Eina skiptið sem kórinn kom fram opinberlega á árinu 2020 var þegar hann söng á 17. júní hátíð Akureyrarbæjar. Þá söng kórinn fyrir utan dvalarheimilin Lögmannshlíð og Hlíð, sem hluti af hátíðahöldum vegna þjóðhátíðardagsins.

Stjórnin hélt 6 fundi með fundargerðum yfir tímabilið en hafði milli þeirra víðtækt samstarf í gegnum Facebook, tölvupóst og aðra miðla. Stjórnandi sat suma fundi stjórnar og gekk það samstarf vel.

Byggt á skýrslu stjórnar í mars 2021