Sagan 2014-2015

Saga kórsins 2014– 2015

Byggð á skýrslu stjórnar 2014 – 2015

Ný stjórn var kosin á aðalfundi vorið 2014. Una Þórey Sigurðardóttir lét af formannsembættinu og skilaði því af sér með sóma. Stjórnin var þannig skipuð starfsárið 2014 – 2015: Formaður Arnfríður Kjartansdóttir sópran 1, varaformaður Kamilla Hansen sópran 2, gjaldkeri Anna Sigurðardóttir sópran 2, ritari Valdís Þorsteinsdóttir sópran 1 og meðstjórnandi og lyklapétur Þórunn Jónsdóttir alt 1.
Raddformenn voru Stella Sverrisdóttir í sópran 2, Guðrún Hreindís Hreinsdóttir í alt 1 og Lilja Jóhannsdóttir í alt 2. Enginn vildi taka þetta embætti að sér í sópran 1.

Auka aðalfundur var haldinn 28. september 2014 og framvegis verður aðalfundur haldinn á þeim tíma og reikningsárið verður það sama og starfsárið, þ.e. 1. september til 31. ágúst.

Starf vetrarins 2014-2015 hófst með nokkuð hefðbundnum hætti, auglýst var eftir nýjum söngröddum í Dagskránni og raddprufur voru haldnar fyrir fyrstu tvær æfingarnar í byrjun september. 10 konur mættu í raddprufur og héldu flestar áfram, en álíka margar tóku sér frí eða hættu alveg í kórnum. Æfingar voru í Brekkuskóla eins og áður.

Kórnum barst tilboð um að taka þátt í „Karlakóramóti“ í Mosfellsbæ 8 nóvember 2014 og miðuðust æfingar haustsins að því að syngja sem best þar. Þátttaka í ferðinni suður var mjög góð og gaman hvað karlakórarnir voru jákvæðir í okkar garð. Karlakórinn Stefnir í Mosfellsbæ hafði frumkvæði að þessu móti og bauð okkur í Kvak, Karlakór Kópavogs og Söngbræðrum frá Borgarnesi að vera með. Hver kór söng 4 lög og síðan 3 lög saman allur hópurinn. Tónleikarnir voru haldnir í íþróttahúsinu að Varmá og kvöldverður og skemmtun var síðan í Hlégarði. Ferðanefnd Kvennakórsins stóð sig að venju með prýði og skipulagði rútuferð og gistingu tvær nætur í Borgarnesi.

Jólatónleikar voru á öldrunarheimilum Akureyrarbæjar, Hlíð og Lögmannshlíð þann 7. desember og síðan hafði skemmtinefndin skipuð sópran 2 skipulagt vel heppnuð Litlu jól í Kaffihúsinu í Lystigarðinum eftir að við vorum búnar að syngja fyrir gamla fólkið okkar.

Stjórn og ferðanefnd stungu upp á utanlandsferð sumarið 2015, en fallið var frá því af ýmsum ástæðum, meðal annars vegna þessa að þetta þótti stuttur fyrirvari. En ferðaáætlunin er tilbúin og ákveðið að fara samskonar ferð til Króatíu í júní 2016.

Í janúar fengum við skemmtilegt verkefni þar sem einn kórfélagi bað þær sem sæju sér fært að syngja í afmælisveislu sem hún hélt í kaffihúsinu í Lystigarðinum.

Þorrasöngur var 6. febrúar í Hlíð og Lögmannshlíð í samstarfi við félaga úr Karlakór Akureyrar-Geysi. Þetta er viðburður sem er að skapast hefð á, en söngfólkið skiptir sér í minni hópa og fer á allar deildir og syngur þorralög fullum hálsi.

Æfingabúðir voru á Húsabakka í Svarfaðardal helgina 28. febrúar til 1. mars 2015. Mæting var 9:30 útfrá á laugardeginum og síðan var sungið og hlegið meira eða minna þar til kl. 15 á sunnudeginum þegar dagskránni lauk. Tilraun var gerð með nýja tegund af hópefli, X-faktor keppni kvennakórsins þar sem kórkonum var skipt í lið 10 dögum áður og hvert lið undirbjó eitt lag sem flutt var á kvöldvöku á laugardagskvöldinu. Nýtt fyrirkomulag var á matarmálum þar sem nokkrar konur tóku að sér að sjá um innkaup og eldun.

Eftir áramót fór allt á fullt að æfa metnaðarfullt prógram vortónleika undir yfirskriftinni Dívur og drottningar. Við fengum einsöngvarana Þórhildi Örvarsdóttur og Ívar Helgason í lið með okkur og undirleikarana Aladár Rácz á píanó og Pétur Ingólfsson á bassa. Tónleikarnir voru í Hofi, salnum Hömrum annan í hvítasunnu, 25. maí. Góð aðsókn var og tókust tónleikarnir með ágætum.

Árshátíð var haldin í Lundi þann 18. apríl. Skemmtinefndin hafði veg og vanda af undirbúningi, hver rödd kom með skemmtiatriði og Hermann Arason spilaði fyrir dansi.
Starfsárinu lauk síðan með þátttöku Kvennakórs Akureyrar í hátíðahöldum í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna. Sungin voru nokkur lög í Lystigarðinum, síðan leiddur söngur í skrúðgöngu niður á Ráðhústorg og þar tókum við þátt í gjörningi ásamt dönsurum sem Ásdís Alexandersdóttir stýrði.
Fjáraflanir voru með minnstu móti, enda nýafstaðin styrkjasöfnun fyrir landsmótið vorið 2014. Styrkur sem kórinn hefur fengið frá Akureyrarbæ hefur breyst þannig að í stað þess að fá ákveðna upphæð fast árlega, þarf nú að sækja um styrki þaðan til ákveðinna verkefna.

Tölfræði:
Kóræfingar á starfsárinu voru 30
Raddirnar stóðu sjálfar fyrir raddæfingu hver fyrir sig einu sinni.
Æfingabúðir voru einu sinni og komu í staðinn fyrir æfingadaga.
Tónleikar: 6 ef allt er talið með, þ.e. tvennir jólatónleikar, söngur í veislu, lystigarðurinn, karlakóramótið í Mosfellsbæ og svo vortónleikarnir.
Almennir kórfundir voru tvisvar, þ.e. einn aukaaðalfundur og svo fundur í æfingabúðunum.
Stjórnarfundir augliti til auglitis voru 9, þar af var stjórnandi með þrisvar, umræðuþræðir í lokuðum hóp stjórnar á facebook voru ótal margir, minnst 30.