Nú er komið að hinum árlega haustmarkaði Kvennakórs Akureyrar. Markaðurinn verður haldinn í Hlöðunni í Litla Garði laugardaginn 8. sept. og hefst hann kl 13:00. Þar verður ýmislegt á boðstólum, s.s. kökur, brauð, sultur, fjallagrös, fatnaður og margt fleira. Kórkonur taka lagið og gestir taka undir. Hægt verður að kaupa kaffi og vöfflur á staðnum. Kíkið endilega á markaðinn og eigið notalega stund í Hlöðunni.
Hér má sjá umfjöllun um fyrstu tónleika Kvennakórs Akureyrar í Kanadaförinni í ágúst:
Kórinn syngur í Gimli-garði við hátíðadagskrá á Íslendingadeginum 6. ágúst 2012. Fjallkonan nýkomin á svið.
Eftir frábærlega vel heppnaða söngför til Kanada hellir kórinn sér nú á fullt í næstu verkefni. Fyrst er þó við hæfi að færa öllum þeim sem styrktu kórinn til fararinnar bestu þakkir, hvort sem það var með auglýsingum eða með öðrum hætti.
Nú eru hátíðahöld vegna 150 ára afmælis Akureyrarkaupstaðar að ná hámarki og tekur kórinn þátt í þeim með söng á hátíðardagskrá á Akureyrarvelli laugardaginn 1. september kl. 14:00. Einnig má þess vænta að kórinn komi fram seint um kvöldið sama dag í Hofi.
Fimmtudaginn 6. september mun kórinn halda tónleika í Hjúkrunar- og dvalarheimilinu Hlíð kl. 19:00, en heimilið fagnar 50 ára afmæli sínu um þessar mundir. Í fyrstu hét heimilið Elliheimili Akureyrar og var byggt af Akureyrarbæ með stuðningi kvenfélagsins Framtíðarinnar. Heimilið var vígt 29. ágúst 1962 á 100 ára afmæli Akureyrarbæjar.
Árlegur haustmarkaður verður haldinn í Hlöðunni í Litla Garði laugardaginn 8. sept. og hefst hann kl 13:00. Þar verður ýmislegt á boðstólum, s.s. kökur, brauð, sultur, fjallagrös, fatnaður og margt fleira. Kórkonur taka lagið og hægt verður að kaupa kaffi og vöfflur á staðnum.
Í dag var enn sem fyrr sólskin og hiti á okkur ferðalangana í Vesturheimi. Frábær sigling eftir Missisippi, hádegisverður um borð og lifandi tónlist. Kórinn tók svo lagið við frábærar undirtektir annarra farþega og fólkið á árbökkunum sem þar sat i sólbaði, lék sér eða veiddi fisk, tók undir og dillaði sér í takt við músíkina, og ekki síst í laginu Lion sleeps tonight. Kvöldinu lauk svo á veitingastað niðri í bæ, þar sem menn gæddu sér á dýrindis amerískum nautasteikum. Næsta verkefni er svo að pakka niður, morgundeginum verður eytt að eigin vali og beðið eftir flugi um kvöldið, en áætluð koma til Keflavíkur er um kl. 6:30 á mánudagsmorgun.
Í kvöld sungum við síðustu tónleikana okkar í ferðinni og það var þreyttur en ánægður hópur sem settist niður i lobbyinu á hótelinu á eftir. Við sungum í fallegri kirkju á háskólasvæðinu í miðborginni og fengum fjölmarga þakkláta áheyrendur, flesta af íslenskum ættum, en einnig frá öðrum Norðurlöndum. Ræðismaður Íslands í Minneapolis dr. Örn Arnar bauð okkur velkomin og bauð öllum viðstöddum til veislu á eftr, en Íslendingafélagið stóð fyrir veitingum. Þarna fengum við mjög góðar móttökur og áttum gott spjall við fólkið, sem var þakklátt fyrir tónleikana og bað okkur að koma sem fyrst aftur!
Miðvikudagur og fimmtudagur fóru í það að ferðast frá Winnipeg til Minneapolis og gist á leiðinni í Fargo. Einnig voru nokkrar búðir skoðaðar í Albertville Premium Outlet og i Mall of America sem er i 5 min fjarlægð frá hótelinu okkar Spring Hill Suites. Í kvöld er svo komið að síðustu tónleikunum í ferðinni en þá verður sungið í Grace University Lutherian Church og að því loknu verður kvöldverður og móttaka í boði Íslendingafélagsins hér.
Kl.9 stundvíslega var ekið af stað frá Winnipeg norður á bóginn og stefnan tekin á Árborg. Himininn skafheiður og hitinn bærilegur, ca 25°. Fljótlega blöstu við skilti með íslenskum bæjanöfnum og einhvern veginn vorum við að færast nær og nær Íslendingunum sem hingað fluttu á 19. öldinni. Í Árborg skoðuðum við minjasafnið Arborg & District Multicultural Heritage Village en þar gat að líta aðflutt hús íslenskra fjölskyldna, svo sem Sigvaldason House, Vigfússon House o.fl. Það var stórfenglegt að hitta í þessum húsum íslenskumælandi fólk sem sagði okkur sögu íbúa þeirra. Sum þeirra höfðu aldrei komið til Íslands og einn maður sagði okkur að hann hefði lært íslenskuna vegna þess að afi hans svaraði honum ekki ef hann talaði ekki íslensku! Í Árborg komum við einnig á heimili hjónanna Rosalind og Einar Vigfusson en þau eru miklir Íslendingar og taka á móti miklum fjölda íslenskra gesta. Rosalind stofnaði íslenskan barnakór og hefur komið með hann til Íslands. Einar er mikill tréskurðarmeistari og sker út og málar fugla og hefur hlotið verðlaun á heimsvísu fyrir. Frá Árborg var síðan haldið út í Mikley eða Hecla og er það hreint dásamlegur staður. Þar var skoðað minjasafn um veiðar í Winnipegvatni, ferðalangar voru fegnir að sjá vatn eftir allar slétturnar og sumir dífðu jafnvel tánum í. Þarna skoðuðum við hús, skóla og kirkju og tókum síðan lagið í kirkjunni. Næst var haldið til Riverton, snæddur kvöldverður, stutt æfing tekin og síðan tónleikar. Fjöldi manns mætti á tónleikana og sumir voru jafnvel búnir að fylgja okkur eftir og mæta á alla okkar tónleika. Á eftir var kaffi og meðlæti þar sem við gátum spjallað við fólkið og margir gátu spjallað eða alla vega skilið íslenskuna. Ekki má gleyma því að á borðum í Árborg og Riverton voru m.a. á borðum kleinur, pönnukökur, randalín og hjónabandssæla! Það var þreyttur en alsæll hópur sem kom á hótel í Winnipeg kl 11, en samt var sest niður í lobbyi til að bera saman bækur sínar og gleðjast yfir vel heppnuðum degi og tónleikum.
I dag, 6. ágúst var hreint stórkostlegur dagur hjá kórnum í Kanada. Við mættum fyrir kl. 10 í Gimli til þess að taka þátt í skrúðgöngu á hátíðinni. Við komum okkur fyrir á gríðarstórum trrukk- vagni, settumst þar á heybagga, með íslenska fánann í hönd, Daníel spilaði á harmoniku og við sungum. Vagninum var ekið í broddi fylkingar hring um bæinn. bæjarbúar og gestir höfðu komið sér vel fyrir á leið skrúðgöngunnar og fögnuðu okkur og öðrum í göngunni. Var þetta hin mesta upplifun og þótti sumum sem nú stæðu þeir á hátindi frægðar sinnar. Hátíðahöld í Gimligarði hófust síðan kl.13:00 og með fyrstu atriðum á dagskránni var söngur Kvennakórs Akureyrar. Að honum loknum komu sér fyrir à sviði bæjarstjórar Akureyrar og Gimli ásamt eiginkonum, Bjarni Benediktsson og frú, Atli Ásmundsson,ræðismaður og frú ásamt fleiri stórmennum sem ekki verða talin upp hér. Fjölmargar ræður voru haldnar og var kórinn til taks á sviði og söng meðal annars Fósturlandsins freyja við inngöngu fjallkonunnar svo og fleiri ættjarðarlög og þjóðsöngva Kanada og Íslands. Veðrið var stórfenglegt, glaða sólskin og hitinn um 25 stig. Dásamlegur dagur í alla staði og stórfengleg upplifun.
Í dag 5. ágúst ferðuðumst við frá Grand Forks í N.Dakota til Winnipeg og að lokinni innritun á hótel þar var haldið til Gimli. Ferðin stóð yfir frá kl. 9 um morguninn og til Gimli komum við kl. 16. Á landamærum USA og Kanada var búist við langri bið og mörgum erfiðum spurningum, en viti menn! Annar landamæravörðurinn var ung stúlka af íslensku bergi brotin, hún afgreiddi okkur á methraða, brosti breitt og var búin að æfa sig að segja TAKK. Að lokinni æfingu á tónleikastað hófust tónleikar, The Celebrity Concert i Johnson Hall kl. 19:30. Tónleikar þessir eru hluti af hátíðahöldum Íslendingadagsins og þar eru samankomnir Vestur-Íslendingar og ýmsir tignir boðsgestir. Bæjarstjórahjónin á Akureyri voru þar og fleiri gestir fra Íslandi, auk bæjarstjóra Gimli, formanns hátíðarnefndar og fleiri og fleiri. Það er skemmst frá því að segja kórinn fékk mikið lof fyrir sönginn og mátti víða sjá tár blika á hvörmum viðstaddra. Að lokum afhenti formaður hátíðarnefndar Daníel kórstjóra fjárstyrk til kórsins. Það voru ánægðar og þreyttar konur sem þá héldu heim á hótel í Wp, samt syngjandi hástöfum í rútunni.
Eftir flug til Minneapolis dagana 2. og 3. ágúst sameinuðust allir félagar og fylgifiskar Kvennakórs Akureyrar að kvöldi 3.ág. í smábænum Rogers. Að morgni 4.ág. var haldið norður á bóginn og ekið til Grand Forks með viðkomu i Clearwater, en hádegisverður snæddur í Alexandriu. Að honum loknum var þar skoðað norrænt byggðasafn og í lítilli kirkju á safnsvæðinu brast kórinn í söng, sem síðan var endurtekinn að ósk safngesta sem misstu af frumflutningi. Á morgun 5.ág. verður haldið til Winnipeg og Gimli.