Kórahátíð í Hofi

Síðastliðið haust tók Kvennakór Akureyrar þátt í mikilli kórahátíð í Hofi.  Þessi viðburður þótti þá takast svo vel að hann verður endurtekinn nú í október, nánar tiltekið laugardaginn 27. október, og að sjálfsögðu verður Kvennakór Akureyrar aftur með. Fram koma 20 kórar af öllu Norðurlandi og koma þeir fram einn af öðrum frá kl. 10:00 og allt þar til þeir sameinast í einum stórum kór kl. 17:00 undir stjórn Eyþórs Inga Jónssonar. Þá flytja kórarnir sameiginlega þrjú lög, þar af tvö eftir heiðurstónskáld hátíðarinnar, Birgi Helgason.

Boðið verður upp á námskeið og fyrirlestur í Hömurm sama dag, auk þess sem Kóramarkaður verður starfræktur frá kl. 12 til 16, þar sem hægt verður að kynna sér og kaupa útgefið efni kóranna.

Aðgangur að hátíðinni er ókeypis og allir velkomnir. Nánar um hátíðina má sjá á: http://www.menningarhus.is/is/vidburdir-og-midasala/vidburdayfirlit/2012-2013/korahatid-i-hofi-1