Tónleikar í Laugarborg á annan í hvítasunnu

Vortónleikar Kvennakórs Akureyrar eru tileinkaðir söngför til Kanada á komandi sumri.

Kvennakór Aureyrar er nú á 11. starfsári og hefur í vetur haldið þrenna tónleika. Nú er komið að fjórðu tónleikunum, en það eru hinir árlegu vortónleikar sem að þessu sinni verða haldnir í Laugarborg þann 28. maí.

Kórinn stefnir í sumar á sína þriðju tónleikaferð til útlanda. Árið 2005 var farið til Slóveníu, 2008 til Eistlands en nú er förinni heitið á Íslendingarslóðir í  Kanada. Kórinn mun koma fram á Íslendingadeginum í Gimli en heldur auk þess tónleika í Riverton og Minneapolis.

Söngskráin á tónleikunum í Laugarborg er afar fjölbreytt og má þar finna bæði íslensk og erlend lög, allt frá þjóðlögum til nýrra tónsmíða og þarna má m.a. finna sýnishorn af því sem kórinn ætlar að flytja fyrir frændur okkar í Vesturheimi. Má þar m.a. nefna Ísland ögrum skorið, God save the Queen, ítalska lagið Con te Partiro, þjóðsöng Kanada og Haust á Akureyri, en það er lag og ljóð Akureyringanna Birgis Helgasonar og Arnar Snorrasonar.
Í upphafi og á milli laga á tónleikunum verða smá innslög með ýmsum fróðleik sem tengjast Vestur-Íslendingum á einhvern hátt. Stjórnandi Kvennakórs Akureyrar er Daníel Þorsteinsson og mun hann einnig annast undirleik.

Tónleikarnir verða haldnir í Laugarborg á 2. í hvítasunnu, þann 28. maí kl. 15:00. Aðgangseyrir er kr. 2000.- en frítt fyrir 14 ára og yngri. Innifalið í verðinu er kaffi og vöfflur að tónleikum loknum, en vinsamlegast athugið að ekki er tekið við greiðslukortum.