Söngför til Siglufjarðar 6. maí

Kvennakór Akureyrar


Karlakór Akureyrar – Geysir

Sunnudaginn 6 maí n.k. leggur Kvennakór Akureyrar land undir fót til Siglufjarðar. Kórinn er þó ekki einn á ferð því með í för er Karlakór Akureyar – Geysir og ætla kórarnir að halda sameiginlega tónleika í Siglufjarðarkirkju. Karlakór Siglufjarðar tekur á móti kórunum og syngur nokkur lög með Karlakór Akureyrar-Geysi. Jónas Þór Jónasson syngur einsöng með kórnum og kvartett skipaður félögum úr Karlakór Akureyrar Geysi tekur einnig lagið.
Söngskráin er afar fjölbreytt og má þar finna bæði íslensk og erlend lög, allt frá þjóðlögum til nýrri tónsmíða. Sungin eru lög við ljóð kunnra höfunda svo sem Davíðs Stefánssonar, Jónasar Hallgrímssonar, Steingríms Thorsteinssonar, Megasar o.fl. en einnig syngja kórarnir á ensku, þýsku, ítölsku og japönsku svo nokkuð sé nefnt.

Kvennakór Akureyrar  er á leið í söngferðalag til Kanada í ágúst næstkomandi og er því efnisskráin orðin afar þjóðleg og fjölbreytt.

Stjórnandi Kvennakórs Akureyrar er Daníel Þorsteinsson og mun hann einnig annast undirleik. Stjórnandi Karlakórs Akureyrar-Geysis er Valmar Väljaots. 

Tónleikarnir í Siglufjarðarkirkju hefjast kl. 15:00, miðar seljast við innganginn og kosta kr. 2000.- . Að loknum tónleikum þiggja kórfélagar veitingar á Kaffi Rauðku, áður en haldið verður heim á leið.


Karlakór Siglufjarðar í Siglufjarðarkirkju