Sagan 2010-2011

Saga kórsins og verkefni hans starfsárið 2010-2011

Við upphaf starfsársins 2010-2011 gengu úr stjórn þær Hafey Lúðvíksdóttur og Ragnhildur Ingólfsdóttir og í þeirra stað voru þær Una Þórey Sigurðardóttir og Una Berglind Þorleifsdóttir boðnar velkomnar í nýja stjórn ásamt Snæfríð Egilson, Ásdísi Stefánsdóttur og Soffíu Pétursdóttur.

Starfsemi haustsins hófst með markaði í Hlöðunni við Hamra og var hann haldinn þann 11. september. Þar var mikið um góðgæti og föt og ýmsa muni og „kór“ kvennakórsins söng nokkra slagara fyrir gesti og gangandi sem gæddu sér á indælis vöfflum og kaffi.

Fyrsta æfing starfsársins var 5. September  2010. Ekki var auglýst sérstaklega eftir nýjum konum en nokkrar konur komu þó til liðs við kórinn og voru um 60 konur í kórnum, þar af fjórar sem voru í fríi.  Æfingarnar voru haldnar sem fyrr í Brekkuskóla nema þegar víkja þurfti fyrir annarri starfsemi þar, þá var æft í Lóni, í Hömrum og í Hlíð.

Æfingardagar kórsins voru tveir á starfsárinu, sá fyrri var haldinn í Valsárskóla þann 2. október 2010. Þangað kom  Margrét Bóasdóttir og var með fræðslu og leiðbeiningar um það sem betur mætti fara. Þetta var sannarlega frábær dagur með fullt af nýjum hugmyndum og lærdómi . Síðari æfingardagurinn var svo haldinn  í Stórutjarnaskóla þann 2. apríl, þar var æft  frá klukkan 09:00 til að verða hálf sexog kröftunum eytt í að æfa landsmótslögin,  enda stutt í Landsmót kvennakóra á Selfossi.  Þessir æfingardagar hafa skipt mjög miklu og alltaf verið lærdómsríkir og skemmtilegir.

Kóradagur í Hofi  var haldinn í Hofi þann 23. október þar sem kórar af Norðurlandi Eystra tóku þátt og sungu allan daginn í Hamraborg. Þetta var einstaklega skemmtileg hugmynd og er á döfinni að viðhalda þessu sem hefð, enda tókst dagurinn einstaklega vel.

Áætlað var að fara í haustferð á Siglufjörð á haustdögum, og hafði ferðanefndin skipulagt góða ferð þangað með stoppi í Kalda og á söfnum. Veðurspáin var okkur frekar óhliðholl og var því ákveðið að hafa haustskemmtun á Vélsmiðjunni í „boði“ ferðanefndar í stað haustferðar. Mæting var afar góð og maturinn var „geggjaður“ og boðið var upp á ýmis skemmtiatriði sem bæði kórkonur og puntstrá sáu um.

Okkar árlegu Styrktartónleikar fyrir mæðrastyrksnefnd, voru haldnir þann 21. Nóvember 2010 og að þessu sinni með aðstoð  Æskulýðskórs  Glerárkirkju undir stjórn Olgu Ásrúnar Stefánsdóttur.  Tónleikarnir tókust vel, en aðsókn með minna móti.

Þann 5. desember voru haldnir jólatónleikarí Þorgeirskirkju í Ljósavatnsskarði  og þar var tekið á móti okkur með kaffi og meðlæti. Á þessum tónleikum söng  Eyrún Unnarsdóttir mezzósópran nokkkur lög með kórnum, alveg frábær söngkona þar á ferð. Tónleikarnir tókust einstaklega vel og þar var frumflutt  jólalagið Jólin sem Jaan Alavere hafði tileinkað kórnum við ljóð eftir Anítu Þórarinsdóttur. Eftir tónleika var svo farið í kaffi  á Fosshóliog kíkt á markaðsvörur og piparkökuhús. 

Árleg litlu-jól  voru haldin í  Brekkuskóla þann 12. desember í framhaldi af æfingu. Það mættu því miður ekki sérstaklega margar, en skemmtu sér engu að síður vel.

Síðasta verkefnið á árinu 2010 var svo söngur í miðbænum eftir beiðni frá Akureyrarstofu. Sungin voru nokkur lög fyrir framan Bláu könnuna í kulda og trekki, en tókst bara ágætlega og puntstráin hvöttu kórinn vel og vandlega til dáða.
Fyrsta æfing eftir áramót var haldin 9. janúar og tekist á við gömul og ný lög. Ákveðið var að halda tónleika á Góunni og því var tíminn vel nýttur til að æfa þau lög sem sungin yrðu þar.

GoRed dagur var haldinn á Hótel Kea þann 20. febrúar á konudaginn sjálfan og þar voru tekin nokkur valin lög í lok dagskrár.  Þetta var í annað skipti sem kórinn tók þátt í þessu  átaki til að vekja athygli á hjarta- og æðasjúkdómum kvenna.

Góutónleikar voru haldnir í Hofi þann 5. mars í salnum Hömrum og Eyrún Unnarsdóttir söng einsöng í nokkrum lögum. Þessir tónleikar voru með svolitlu breyttu sniði, þar sem inn á milli laga voru sagðar stuttar sögur og farið með ljóð tengd konum og góunni. Þessir tónleikar tókust einstaklega vel og var gerður góður rómur að söng og bundnu máli.  Eftir tónleika var snæddur kvöldverður á Vélsmiðjunni.
Að loknum þessum  tónleikum tóku við stífar æfingar og nú tekist  á við að æfa fyrir vortónleika og 8. landsmót íslenskra kvennakóra. Okkar þema varóperukórar og nú þurfti m.a. að takast á við að syngja á ítölsku og þýsku.

Svo var komið að því, Landsmót Kvennakóra á Selfossi helgina 29. Apríl – 1. Maí. Þátttaka frá Kvennakór Akureyrar var einstaklega góð, en 46 konur ásamt Daníel bjuggust til ferðar um hádegi á föstudegi og komu heim seint á sunnudagskvöldi. Tókst ferðin og mótið með eindæmum vel og allar voru þreyttar en ofurglaðar með góða ferð, upplifun og mikinn lærdóm. Kórinn fékk svo það hlutverk að halda næsta landsmót á Akureyri árið 2014. Frétt um ferðina má sjá HÉR.

Aðalfundurvar haldinn í Brekkuskóla 11. maí. Þá urðu talsverð umskipti í stjórninni þar sem formaðurinn Snæfríð Egilson lét af störfum, einnig varaformaður Ásdís Stefánsdóttir og meðstjórnandinn Una Berglind Þorleifsdóttir.  Í stað þeirra komu Arnfríður Kjartansdóttir, Eygló Arnardóttir og Kamilla Hansen, en áfram sátu Soffía Pétursdóttir og Una Þórey Sigurðardóttir.
Í undirbúningsnefnd fyrir landsmót kvennakóra 2014 voru kjörnar: Snæfríð Egilson, Anna Breiðfjörð og Hólmfríður Þorsteinsdóttir. Afmælisnefnd vegna 10 ára afmælis kórsins  var skipuð og í hana völdust: Helga Sigfúsdóttir, Helga Gunnlaugsdóttir, Inga Margrét Ólafsdóttir, Eygló Arnardóttir og Sóley Sturludóttir .
Fundir stjórnar ásamt fundum með nefndum voru 12 á á árinu. Stjórnin fór í vinnuferð í Illugastaði þar sem m.a. var gerð  „starfslýsing“ fyrir hverja nefnd sem verður aðgengileg á heimasíðu kórsins.

Vortónleikar voru haldnir í Laugaborg 22. maí og einsöngvari var Eyrún Unnarsdóttir, þar sem prógrammið var einstaklega skemmtilegt og fjölbreytt og tónleikarnir vel sóttir. Að þeim loknum hófst sumarfrí.

Sagan 2009 – 2010

Stjórnin var að mestu óbreytt frá síðasta starfsári, en Anna Lilja Stefánsdóttir gekk þó úr stjórn og Soffía Pétursdóttir kom inn sem gjaldkeri í hennar stað.

Áður en æfingar hófust hélt kórinn útimarkað á Marki Eyjafjarðarsveit.þann 1.september 2009. Þar voru til sölu föt, ýmsir munir og „haustafurðir“. Einnig var boðið upp á vöfflur með rjóma og kaffi. Veðrið var dásamlegt og gekk þessi dagur frábærlega.

Æfingar starfsársins voru sem fyrr í Brekkuskóla.  67 konur voru skráðar í kórinn og Daníel var áfram kórstjóri. Hann tók allar konur í raddprufur og þó að nokkurar eftirvæntingar og streitu gætti hjá nokkrum stóðu þær sig allar mjög vel.  Mikael Jón Clarke stjórnaði nokkrum æfingum í stað Daníels og skiluðu þær æfingar líka miklu. Sem fyrr voru raddirnar líka að hittast og æfa út af fyrir sig og var það mjög jákvætt og má gera meira af því.

Æfingardagar voru tveir þetta árið, fyrri æfingardagurinn var í Hrísey 24. október og var þá æft frá kl. 9:30 og ferjan tekin heim um kvöldmatarleytið. Þennan dag var mikið sungið en einnig mikið borðað en veitingahúsið Brekka sá til þess að við fengjum góða og mikla næringu. Síðari æfingardagurinn var svo haldinn í Valsárskóla 20. mars og auk þess að syngja með Daníel þann daginn fengum við fræðslu frá Valdísi Jónsdóttur talmeinafræðingu og var „röraaðferðin“ rifjuð upp. Svo kom Guðmundur Óli Gunnarsson og stjórnaði meðan Daníel sinnti öðrum störfum. Kvenfélag Svalbarðsstrandar sá til þess að við fengjum góða næringu. Þetta voru mjög lærdómsríkir og skemmtilegir dagar sem gáfu ótrúlega mikið, bæði sönglega og félagslega.

Jólatónleikar til styrktar mæðrastyrksnefnd Akureyrar voru haldnir 29. nóvember og fengum við til liðs við okkur Barnakór Hrafnagilsskóla og Kvennakórinn Sölku á Dalvík. Stjórnendur kórann voru auk Daníels, María Gunnarsdóttir og Margot Kiis. Aðsókn var ágæt og söfnuðust 350.000 krónur sem afhentar voru mæðrastyrksnefnd í lok tónleika.

Litlu jólin voru haldin í Lóni og átti skemmti- og árshátíðarnefnd veg og vanda af stórskemmtilegri skemmtun og góðum veitingum. Mættu allar í sínu fínasta pússi og með pakka , en Daníel ásamt Þórunni Jónsdóttur og Sigríði Huldu Arnardóttur spiluðu undir söng og einnig var gengið í kringum „jólaborðið“.

Sungið var á Dvalarheimilinu Hlíð þann18. desember og aftur í miðbænum daginn eftir þann 19. desember í miklum kulda.

Sú nýbreytni var að við sungum tvenna jólatónleika með Karlakór Dalvíkur milli jóla og nýárs. Fyrri tónleikarnir voru í Akureyrarkirkju kl. 16:00 þann 27. desember og fengum við standandi lófaklapp fyrir Tvær stjörnur. Seinni tónleikarnir voru í Dalvíkurkirkju kl. 21:00 sama dag. Kórkonur fylktu liði í rútu út á Dalvík en það reyndist hálfgerð æfintýraferð þar sem hitakerfið í rútunni var bilað og Anna Dóra gerðist sjálfboðaliði sem „vinnukona“. En tónleikarnir gengu mjög vel og í lokin buðu karlakórsmenn okkur í nýja menningarhúsið sitt Berg og þar sem boðið var upp á kaffi og konfekt.
Æfingar hófust síðan aftur 10. Janúar eftir jólafrí.

Árshátíð kórsins var haldin með pompi og prakt 13. mars og var undirbúningur og stjórn hennar í höndum Skemmti- og árshátíðarnefndar, en einnig höfðu raddirnar hver í sínu lagi æft eitt skemmtiatriði. Árshátiðin tókst alveg stórkostlega, góður matur og frábær skemmtun og áttu þær Eygló, Kamilla, Kristbjörg, Una Berglind, Una Þórey og Inga Magga allan heiður skilið fyrir frábæran undirbúning og skemmtun og við hinar fyrir frábær skemmtiatriði. Þess má geta að miðaverð á árshátiðina var hlægilega lágt og má það þakka góðri fjáröflun og stöðu kórsins.

Kórinn var beðinn um söng á konudaginn á degi Go Red þann 21. febrúar á Hótel Kea. Dagurinn er haldinn til að efla fræðslu um forvarnir og áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma hjá konum. Kórinn söng í upphafi og lok dagskrár og fékk mjög góðar viðtökur.Mjög góð þátttaka kórkvenna var á þessum degi og mættu þær allar í einhverju rauðu sem og allir sem komu og hlustuðu á erindi og skemmtiatriði.

Aðalfundur Gígjunnar var haldinn 17. Október og mættu Ásdís og Snæfríð á hann. Sérstakur gestur á fundinum var Margrét Pálmadóttir, kórstjóri og ræddi hún við fundarkonur um hlutverk kvenna og að við þyrftum að vera duglegri að koma okkur á framfæri.
Fundir stjórnar voru um 11 talsins og þar með ekki taldir óformlegir fundir stjórnar og nefnda. Haldinn var almennur umræðufundur í Brekkuskóla til að kynna það sem framundan væri í kórastarfinu og fleira. Mæting hefði mátt vera betri, en við stefnum að því að hafa svona fundi í byrjun hvers starfsárs.

Fjáröflun hefur gengið ágætlega, en ákveðið var á síðasta aðalfundi að hækka félagsgjöldin í 2500 krónur á mánuði úr 2000 og er ætlunin að með því minnki þörfin á stöðugri fjáröflun. Eftir sem áður þarf þó að hafa ákveðna fjáröflun til að standa straum af útgjöldum og styrkjum til kórkvenna. Venja er að kórinn fari í ferðir og viljum við gjarnan halda því áfram en til þess að það sé hægt er nauðsynlegt að halda út fjáröflun. Einn kökubasar var haldinn á haustdögum á Glerártorgi, en því miður er nú alfarið búið að taka fyrir sölu á kökum þar. Ekki voru búin til ný jólakort þetta árið, en „gömlu“ jólakortin voru tekin upp, þeim pakkað að nýju og seld fyrir jólin og gekk það framar vonum.
Ómetanlegt er allar kórkonur séu virkar ogg nefndarkonur stóðu sig með stakri prýði og unnu gott og óeigingjarnt starf í þágu kórsins. Stjórnin hafðu fundi með meirihluta nefnda þennan vetur og þykja þeir fundir hafa styrkt samvinnu stjórnar og nefnda og gert nefndarstörfin sýnilegri.

Heimasíðan tók breytingum í vetur, en Aðalbjörg og sonur hennar Þórarinn Jóhannsson eiga veg og vanda að uppsetningu hennar. Sú nýbreytni varð að nú er lokað svæði á síðunni sem einungis kórkonur hafa aðgang að og hefur Aðalbjörg leiðbeint kórkonum um þessa nýju tækni. Hægt er að „spjalla“ þarna inni og er það góður möguleiki til skoðanaskipta. Einnig fengu formaður og gjaldkeri sín „eigin“ netföng á kvak.is

Kvennakór Suðurnesja kom í heimsókn helgina 7. – 9. maí og voru haldnir með þeim tónleikar í Laugarborg 8. maí og síðan boðið til kvöldverðar og skemmtunar á eftir. Tókst þessi heimsókn afar vel og gaman væri að endurgjalda heimsóknina við hentugleika.

Sungið var við messu í Akureyrarkirkju þann 15. maí og að síðustu voru haldnir vortónleikarnir 30. maí í Akureyrarkirkju. Að þessu loknu hófst sumarfrí.

Sagan 2008 – 2009

 

Sumarið 2008 hætti Arnór Vilbergsson kórstjórninni sem hann hafði haft með höndum í 3 ár. Þá hófst leit að nýjum stjórnanda, sem ekki tók langan tíma, því Jaan Alavere sem hafði verið úti með kórnum í Eistlandi þáði boðið um að gerast stjórnandi kórsins frá haustinu 2008.  Því miður sagði  Jaan starfi sínu lausu um áramót vegna veikinda. Enn hófst leit að nýjum stjórnanda og var þá Daníel Þorsteinsson fenginn til liðs við okkur frá febrúar 2009.

Starfsárið byrjaði annars með pompi og prakt 7.  september 2008.  Áður hafði kórinn þó tekið þátt í Akureyrarvöku í lok ágúst.
Útgáfutónleikar voru haldnir 10. október í Lóni þar sem geisladiskurinn var kynntur, en um leið var tækifærið notað til að kveðja Arnór og taka á móti Jaan.  Þetta voru flottir  tónleikar þar sem þeir kumpánar stjórnuðu báðir og seinna um kvöldið var horft á myndasýningu í  boði Helgu Gunnlaugsdóttur og Aðalbjargar og notið veitinga í  boði stjórnar og nokkurra kórfélaga.
Árlegir styrktartónleikar fyrir mæðrastyrksnefnd voru haldnir 30. nóvember. Þar nutum við liðsinnis Karlakórs Akureyrar Geysis og Söngfélagsins Sálubótar, Valmar Väljaots spilaði á píanó og Tarvo Nómm á bassa. Aldrei hafði áður safnast eins vel og nú og í lok tónleikana afhentum við stoltar Jónu Bertu 500.000 krónur.  Eftir þessa tónleika fór hluti kórkvenna og gæddu sér á dýrindis hlaðborði á La Vita Bella.
Á aðventunni hlaust kórnum sá stóri heiður að syngja á aðventutónleikum 6. desember með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, sem einnig hafði fengið einsöngvarana Dísellu Lárusdóttur og Jóhann Smára Sævarsson með sér. Þessir tónleikar tókust með eindæmum vel og var kórnum hrósað mikið fyrir góða frammistöðu,  en kórinn flutti m.a. annars lög eftir Jaan. Eftir tónleikana fór hluti af kórnum út að borða á Allanum með hljóðfæraleikurum og einsöngvurum og skemmtu sér konunglega yfir óvenjulegu en mjög góðu jólahlaðborði.
Litlu jólin voru einnig haldin á síðusta æfingardegi fyrir jól með hefðbundnu sniði.
Þórgnýr Dýrfjörð hjá Akureyrarstofu  bað um söng í miðbænum fyrir jólin og hittust  nokkrar konur úr kórnum með jólasveinahúfur og Jaan með nikkuna og sungu  fyrir gesti og gangandi í miðbænum í 10 stiga frosti. Að lokum fengum við fólk með okkur í að ganga í kringum jólatréð á Ráðhústorginu.

Haustönnin var þá á enda og  fyrsta æfing á nýju ári skipulögð  11. Janúar 2009.
Það fór þó á annan veg þar sem nú þurfti að finna nýjan stjórnanda eins og fyrr segir. Fyrsta æfing með nýjum stjórnanda varð ekki fyrr en 1. febrúar en fram að þeim tíma hafði kórinn hist og rætt málin, og einnig fengið Valdísi Jónsdóttur, talkennara til að koma og halda fyrirlestur um góða raddbeitingu, fræðslu um raddböndin og fleira og kynnti hún aðferð til að æfa raddböndin og þindina, svo kallaða röraaðferð.

Æfingarhelgar voru tvær á starfsárinu, 31. október hittist kórinn að Stórutjörnum og æfðu frá föstudegi til laugardags, og gistu í skólanum. Þetta var lærdómsrík og skemmtileg helgi þar sem einnig var pláss fyrir grín og gleði. Hin æfingarhelgin  fór fram í Brekkuskóla og Lóni, frá 13.-14. mars þar sem tekist var á við nýtt prógram ásamt nokkrum af lögunum okkar frá því um haustið. Þessi æfingardagur tókst líka mjög vel og var gott tækifæri til að kynnast nýjum stjórnanda. Á eftir var  boðið upp á Subway mat, gos og kökur.  Raddæfingar með stjórnanda voru nokkrar á starfsárinu og  kom Mikael Jón Clarke á tvær æfingar í forföllum Daníels.

Vortónleikar voru 2. maí í Laugaborg, og þangað komu um 100 gestir. Tónleikarnir gengu langt framar vonum og á eftir bauð kórinn upp á „afganga“ af 1. maí kaffinu og féll það í góðan jarðveg hjá tónleikagestum.  Um kvöldið var svo borðað saman og skemmt sér fram á nótt við söng og spil
Fundir stjórnar voru 11 á árinu og þá ekki meðtaldir óformlegir fundir stjórnar og fundir stjórnar og nefnda.

Á haustdögum var ákveðið að ráðast í að fá kórbúning á allan kórinn. Saumakompuna ásamt búninganefndinni hannaði flotta kjóla fyrir kórinn, sem fyrst voru notaðir í vorferðinni 2009 til Neskaupsstaðar.

Vinna nefnda var mjög góð, hafa þær unnið frábært starf og gert það að verkum að kórastarfið hefur gengið sem best fyrir sig.  Fjárjöflunarnefnd stóð fyrir 4 kökubösurum og einnig fékk kórinn það verkefni að vinna í Kjarnaskógi, verkefni sem var gaman að og öðruvísi að takast á við. Jólabasar var haldinn í Norðurporti þar sem seldar voru kökur og ýmis konar varningur, jólaskraut og fleira og þann 1. maí  var staðið fyrir frábæru kökuhlaðborði á hátíðasamkomu í Sjallanum  og fyrir það var greitt um 500.000 krónur.
Ferðanefndin sá til þess að konur gátu skemmt sér og farið áhyggjulausar í ferðalög á árinu, og þar má helst nefna Eistlandsferðina um sumarið 2008. Heimasíðunefndin sá til þess að upplýsingar og annað væri uppfært á heimasíðunni. Jólakortanefnd starfaði hjá kórnum og sá til þess að um jólin væri hægt að fá falleg jólakort með myndum eftir kórkonur og ekki síst falleg orð og ljóð með, sem er okkar aðalsmerki. Kaffinefndin sá til þess að þyrstar kórkonur gátu fengið sér kaffi í hléum, en breyting var þar á þegar ákveðið var að hætta við það. Nefndin starfaði þá áfram og sá um kaffi við önnur tækifæri. Raddformenn voru mjög virkir og sáu um að merkja við konur á æfingum og einnig að koma skilaboðum áfram eftir þörfum.

Vorferð var farin til Neskaupsstaðar helgina 5. – 7. Júní. Tókst sú ferð mjög vel, sungið var í Norðfjarðarkirkju á laugardeginum og voru tónleikarnir vel sóttir. Einnig var sungið við í sjómannadagsmessu á sunnudeginum ásamt kirkjukór Norðfjarðarkirkju og farið í siglingu um fjörðinn með báta- og skipaflotanum.
Kórinn tók einnig þátt í Akureyrarvöku og söng um borð í Húna ásamt Karlakór Akureyrar Geysi, en fjöldi manns var saman kominn við Húna til að hlýða á sönginn.

Starfsárið í heild var mjög skemmtilegt og annasamt en einnig erfitt,  en vilji allra var að vera með skemmtilegan kór og  metnaðarfulla dagskrá.

 

Eistlandsför 2008

Dagbók úr söngför Kvennakórs Akureyrar til Eistlands í júní 2008.

Kvennakór Akureyrar lagði af stað kl. 23:30 föstudaginn 20. júní með rútu frá Akureyri til Keflavíkur og var förinni heitið í tónleikaferð til Eistlands. Það var mikill hugur í kórfélögum og allt vel skipulagt og undirbúið af hinni ágætu ferðanefnd. Undir morgun var komið til Keflavíkur og flogið þaðan til Helsinki. Hópurinn sem fór var 74 manns, þ.e. söngstjórinn, kórfélagar og makar, en undirleikarinn og fararstjórinn Jaan Alavere var farinn á undan til síns heimalands. Eftir nokkurra klukkutíma stopp í Helsinki var farið með 2800 manna glæsiferjunni Galaxy til Tallin og ekið þaðan í náttstað til borgarinnar Pärnu, en þangað var komið um 23:45 að staðartíma, um það bil 21 klst. eftir að lagt var af stað frá Akureyri. Það verður að segjast eins og er að hópurinn var fljótur að hverfa til herbergja eftir venjulegan vinnudag á föstudegi og tæplega sólarhringsferðalag að auki.

1. tónleikar.
Sunnudaginn 22. júní héldum við svo fyrstu tónleikana í Methodistakirkjunni Agape Church í Pärnu.  Tónleikagestir voru milli 50 og 100 manns og var dagskránni afar vel tekið. Að tónleikum loknum var haldið til kvöldverðar að Restaurant Sunset sem er fallegur staður við ströndina. Sungið stanslaust um kvöldið, nema þeir sem fylgdust með fótboltaleik Spánverja og Ítala.
Veðrið hér í dag var eins og á góðum sumardegi á Íslandi.

Ferðalag milli borga.
Þann 23. júní hélt hópurinn frá Pärnu inn í landið til Tartu sem er 100 þúsund manna borg og næststærsta borg Eistlands. Ferðin þangað gekk vel þó að vegirnir væru afar mjóir og ósléttir þannig að  tveggja hæða rútan okkar ruggaði og valt eins og skip í stórsjó. Þennan dag héldu Eistar upp á Jónsmessuna og sjálfstæði sitt og fór hópurinn að sjálfsögðu að kíkja á hvernig það væri gert. Þrátt fyrir slagveðursrigningu þann daginn þá var farið á hátíðahöldin og var það eins og við manninn mælt að þegar allir voru komnir í regnföt og með regnhlífar  þá slotaði rigningunni  og jafnvel sólin gægðist fram. Heimamenn buðu fyrst upp á skemmtiatriði sem minnti á Ólaf liljurós í 100 og eitthvað erindum á eistnesku, en viðstaddir gæddu sér á grillpinnum og feitum pylsum með grænmetisívafi sem steikt var risagrillum og horfðu á snarkandi varðeld.

2. tónleikar
Þann 24. júní var dagurinn tekinn snemma og  mætt fyrir hádegi í kirkjuna Jaani Kirik og hitað þar upp fyrir örtónleika í hádeginu eða kl. 12.15.  Kirkjan er 900 ára gömul og hefur tvisvar verið lögð í rúst, síðast í seinni heimsstyrjöldinni. Þar sungum við 6 lög við góðar undirtektir, áhorfendur um 40 manns.  Klukkan 17:00 héldum við svo alvöru tónleika á sama stað og tókust þeir feiknavel, áhorfendur, sem voru á annað hundrað, fóru að þeim loknum klappandi út úr kirkjunni. Um kvöldið var farið í siglingu með M/S Pegasus eftir á einni í Tartu og þar var feiknamikið sungið og trallað. Að því loknu var kvöldverður á Atlantis og þar var einnig mikið sungið og gaman er að geta þess að þar voru staddir tónleikagestir frá því fyrr um daginn, þeir höfðu mætt í hádeginu og einnig kl. 17 og svo með okkur í mat. Að sjálfsögðu tókum við svo óskalög fyrir þessa nýju aðdáendur okkar.

Skoðunarferð um Suður-Eistland.
Miðvikudaginn 25. júni var alveg ágætis veður, það kom smá rignarskvetta en annars bara þurrt og þokkalegt og hiti á að giska 17 stig. Hópurinn dreif sig þá kl. 10:00 í ferðalag til Suður-Eistlands. Ekið var sem leið lá til Taevaskoja sem er afar fallegur staður við ána Ahja, þar má m.a. finna heilsulind sem sagt er að bæti alla kvilla og yngi mann upp. Var þar drukkið ótæpilega úr lindinni og að lokum óttuðust menn helst að kvennakórinn yrði orðinn að stúlknakór á næstu tónleikum. Staður þessi minnti okkur einn helst á Ásbyrgi, nema það að klettarnir eru úr ljósum sandsteini. Í ferðinni var einnig skoðaður ferðaþjónustubúgarðurinn Haanjamehe.
Næsti áfangastaður var hæsta fjall Eistlands, Suur Munamägi, heilir 318 metrar á hæð! Til þess að hækka fjallið aðeins settu Eistar þar upp turn allmikinn árið 1939 og hækkuðu hann svo 1959 þannig að þarna gátum við náð 346,7 metra hæð og virt fyrir okkur útsýnið úr turninum.

Haldið til Tallin.
Á fimmtudegi 26. júní  yfirgáfum við borgina Tartu og héldum til Tallin. Á leiðinni þangað hringdu þau Gestur Einar og Hrafnhildur í morgunútvarpi rásar 2 í varaformann kórsins, Agnesi Arnardóttur, til að fá fréttir af ferðalaginu og að sjálfsögðu var þá tekið lagið fyrir þau í beinni útsendingu.
Við komuna til Tallin var byrjað á því að fara í Rocca al Mare, en það er nokkurs konar Árbæjarsafn þar sem rakin er saga húsakosts og mannlífs frá 17. öld og fram undir okkar daga. Að því loknu var tekin önnur skoðunarferð undir leiðsögn eisneskra fararstjóra og nú í gamla bæinn í Tallin sem er alveg  stókostlegur. Að síðustu var svo farið með okkur á sönghátíðasvæðið Tallinna Lauluväljak (Tallin Song Festival Grounds) þar sem sviðið rúmar 15 þúsund manns og þar eru m.a. haldnar afar fjölmennar kórahátíðir og aðrar alþjóðlegar sönghátíðir. Við (52 konur)  mátuðum okkur á sviðið og tókum lagið með glæsibrag, en vorum afskaplega litlar á þessu risastóra sviði.

3. tónleikar.
Síðasti dagurinn hófst með æfingu kl. 10 í Pühavaimu kirkju. Síðan sungum við á torginu fyrir framan kirkjuna kortér fyrir kl 12, sem varð auðvitað til þess að fjöldi fólks fylgdi okkur inn í kirkjuna og hlustaði á tónleikana sem hófust kl. 12:00 á hádegi.  Þessir tónleikar tókust bara feiknavel og stöðugur straumur fólks var um kirkjuna á meðan við sungum, gróflega áætlað komu þar um 150 manns.
Að tónleikum loknum hófust búðarferðir, borgarskoðun eða kaffihúsarölt allt eftir smekk hvers og eins, síðan var sameinast í lokakvöldverði á veitingahúsinu Peppersack. Ferðin hafði verið aldeilis frábær og kvöddum við nú Eistland með tregablöndnum tilfinningum.

Heimferðin.
Laugardagurinn 28. júní var tekinn snemma, og ekið sem leið lá að brottfararstað ferjunnar Linda Express sem flutti okkur frá Tallin til Helsinki. Á hafnarbakkanum þar beið okkar fulltrúi rútufyrirtækisins sem skipulagði rútuferðirnar og færði Önu Korbar fararstjóra okkar blómvönd. Að sjálfsögðu sungum við þá fyrir hann í staðinn og að því loknu var okkur ekið á flugvöllinn í Helsinki. Þaðan flugum við svo til  Keflavíkur og lentum þar kl. 16:00 að íslenskum tíma. Flestir tóku þá rútuna heim til Akureyrar en aðrir fóru á eigin bílum eða með flugi. Það var frekar þreytulegur en ánægður hópur hópur sem steig út úr rútunni við Brekkuskóla kl. 23:15, enda liðnir 18 klukkutímar frá því ferðalagið hófst.
Óhætt er að segja að ferðin hafi tekist afbragðsvel, skipulag og fararstjórn var eins og best varð ákosið. Skoðunarferðir voru mjög fræðandi og vel til þeirra vandað og viðtökur hreint frábærar.

Sagan 2007 – 2008

Vetrarstarfið hófst 1. september en þá var haldinn markaður að Marki í Eyjafjarðarsveit og tókst hann með eindæmum vel.  Nú skyldi tekið hraustlega til hendinni, utanlandsferð næsta sumar og því augljóst að bretta þyrfti upp ermar í fjáröflun.  Einnig var stefnan tekin á geisladisksupptöku um vorið.

Æfingar hófust síðan 9. september og voru sem fyrri ár í Brekkuskóla.

Þegar ákvörðun hafði verið tekin um að ráðast í upptöku á geisladiski var ákveðið að taka sönginn föstum tökum.  Heimir Ingimarsson var fenginn til að koma og vera með raddæfingar og samhliða því var boðið upp á tónfræðikennslu og fór þetta fram í október og nóvember.  Einnig var talsvert um það að aukaæfingar væru haldnar á fimmtudögum, allt til að tryggja það að tónaflóðið hljómaði sem best mætti vera.

Hinir árlegu jólatónleikar til styrktar Mæðrastyrksnefnd voru haldnir 1. desember í Glerárkirkju.  Að þessu sinni voru fengin til liðs við okkur Gospelkór Akureyrar ásamt Sigurði Ingimarssyni og einmig fluttu börn úr Brekkuskóla atriði úr söngleiknum “Kraftaverk á Betlehemstræti”.

Jólagleði kórsins var síðan haldin í lok síðustu æfingar fyrir jólafrí þann 13. desember í Brekkuskóla.  Að vanda var glatt á hjalla.

Æfingadagar starfsársins voru 3 að þessu sinni.  Sá fyrsti var haldinn 17. nóvember í Brekkuskóla, annar þann 23. febrúar í Valsárskóla á Svalbarðseyri og sá þriðji 15. mars í Brekkuskóla.

Fundir stjórnar á starfsárinu voru 10 auk nokkurra annarra funda með hinum ýmsu nefndum kórsins.

Í byrjun apríl var ákveðið að sletta aðeins úr klaufunum og var komið saman til að spila keilu eina kvöldstund og varð þetta hið skemmtilegasta kvöld.

Með vorinu var síðan komið að stóru stundinni, 24.-27. apríl streymdu konur í Laugarborg til fundar við Didda fiðlu til að taka upp geisladisk.  Þetta var stórkostleg helgi sem tókst með ágætum.  Geisladiskurinn Sólardans á vori leit svo dagsins ljós í júlí 2008.

Kórinn tók að sér að syngja á Seli í apríl og gekk það vel, einnig við messu í Akureyrarkirkju á Sjómannadaginn 1. júní. Í júlí söng kórinn við tvö brúðkaup í Akureyrarkirkju.

Vortónleikarnir voru haldnir í Akureyrarkirkju 4. maí.  Þar nutum við liðsinnis Jaan Alavere frá Eistlandi sem spilaði undir fyrir okkur á píanóið.  Tónleikarnir fengu góðar viðtökur og sagt var að kórinn hefði tekið miklum framförum frá síðasta ári.  Þar kom til dugnaður kórkvenna enda var mikil vinna lögð í söngstarfið þennan vetur og því gott að heyra að það hafði borið árangur.

Fjáraflanir voru nú öflugri en áður og óhætt að segja að kórkonur hafi sýnt mikinn dugnað við þær.  Hefðbundnar fjáraflanir eins og jólakortasala og söfnun styrktarlína fyrir kórinn tókust mjög vel.  Kórinn hélt 3 kökubasara á Glerártorgi, 10. nóvember, 7. mars og 2 apríl þar sem vel safnaðist í hvert skipti.  Einnig sýndu konur mikinn dug þegar kórinn tók að sér að sjá um kaffið í Sjallanum í tilefni af 1. maí hátíðarhöldum og haft var á orði að sjaldan eða aldrei hefðu veisluföng þar verið glæsilegri.

Rúsínan í pylsuendanum þetta starfsárið var svo Eistlandsferðin.  Lagt var af stað frá Akureyri með rútu föstudagskvöldið 20. júní og komið aftur heim að kvöldi 28. júní.
Hópurinn sem fór var 74 manns, þ.e. söngstjórinn, Arnór B. Vilbergsson og frú, kórfélagar og nokkrir makar þeirra, en undirleikarinn og fararstjórinn Jaan Alavere var farinn á undan til síns heimalands. Dagbók úr ferðalaginu má sjá hér.

Sagan 2006 – 2007

Æfingar starfsársins 2006-2007 hófust 17. september í sal Brekkuskóla. Nokkrir nýir félagar gengu í kórinn og voru um 80 í upphafi vetrar. Kórstjóri var eins og árið á undan Arnór B. Vilbergsson.

Þann 6. október hélt Þórhildur Örvarsdóttir fyrrum kórstjóri Kvennakórsins raddþjálfunardag sem stóð frá 16:00 til 21:00. Tókst hann með ágætum, og var þátttaka góð.

Árshátíð kórsins var að þessu sinni haldin föstudaginn 20. október í Lóni við Hrísalund. Þátttakendur voru um 80 og skemmtu sér konunglega. Árshátíðarnefnd og skemmtinefnd sáu um framkvæmdina og stóðu sig með stakri prýði.

Æfingardagar voru tveir þetta starfsárið, eins og venja er til. Hinn fyrri var í Brekkuskóla 4. nóvember, en sá síðari var 11. febrúar einnig í Brekkuskóla.

Jólatónleikar til styrktar Mæðrastyrksnefndar Akureyrar voru haldnir sunnudaginn 26.nóvember í Glerárkirkju. Í þetta skiptið fengum við með okkur Kór Akureyrarkirkju og Barnakóra Akureyrarkirkju. Stjórnendur kóranna Arnór Brynjar Vilbergsson og Eyþór Ingi Jónsson léku einnig undir ásamt Stefáni Gunnarssyni, Halla Gulla og Snorra Guðvarðssyni sem einnig var kynnir tónleikanna. Eins og fyrr gáfu allir vinnu sína, tónlistarfólkið, auglýsendur og Glerárkirkja. Aldrei hefur safnast eins mikið og nú og vorum við afar þakklátar.

Litlu jólin voru haldin í Brekkuskóla 17. desember og hafði skemmtinefnd veg og vanda af undirbúningi þeirra að þessu sinni. Æfingar hófust að nýju eftir jólafrí þann 7. janúar.

Kórinn söng í messu Í Glerárkirkju 10. des og í messu á mæðradaginn 13. maí í Akureyrarkirkju. Einnig var sungið fyrir eldri borgara 2. febrúar á þorrablóti í Hlíð.

Vortónleikar voru haldnir í Akureyrarkirkju laugardaginn 24. mars. Undirleikarar voru þau Helga Bryndís Magnúsdóttir á píanó og Halli Gulli á trommur og stjórnandi var að sjálfsögðu Arnór B. Vilbergsson. Einsöngvari var Hildur Tryggvadóttir, sópran en auk hennar voru í fyrsta sinn í sögu kórsins einsöngvarar úr kórnum, þær Hólmfríður Þorsteinsdóttir, Linda Guðmundsdóttir, Sigríður Hulda Arnardóttir og Snæfríð Egilson. Tónleikarnir tókust með eindæmum vel og hafa aldrei fyrr verið svo vel sóttir. Má það m.a. þakka því að kórkonur seldu 3 miða hver í forsölu. Umfjöllun í fjölmiðlum var með besta móti og m.a. sungum við í beinni útsendingu í svæðisútvarpi Norðurlands. Eftir tónleikana var snæddur léttur kvöldverður á Vélsmiðjunni.

Jólakortahönnun og sala tókst vel þetta árið. Upp úr áramótum tók svo til starfa kraftmikil fjáröflunarnefnd. Þær gengu vasklega til starfa og brydduðum uppá ýmsum fjáröflunum.

Stjórnarfundir starfsársins 2006-2007 voru alls 8 auk ýmissa vinnufunda og vinnustunda. Auk stjórnarinnar störfuðu þó nokkrar nefndir innan kórsins, og einnig raddformenn og nótnavörður. Nefndirnar má sjá á sérstakri síðu undir tenglinum Stjórn.
Aðalfundur Gígjunnar var 10. mars og fór formaður kórsins ein á hann í þetta skiptið.
Aðalfundur Kvennakórs Akureyrar var haldinn 15. maí 2007 í Brekkuskóla. Mæting var nokkuð góð og umræður líflegar.

Laugardaginn 2. júní fengum við kvennakórinn Vox Femine í heimsókn til Akureyrar. Við sungum með þeim í Akureyrarkirkju og við Sundlaug Akureyrar og röltum svo syngjandi niður Listagil og niður í bæ. Þetta tókst prýðilega og höfðu kórfélagar beggja kóra gaman af.

Starfsárið 2006-2007 endað með því að taka þátt í Kórastefnu í Mývatnssveit helgina 7. – 10. júní. Listrænn stjórnandi Kórastefnunnar er Margrét Bóasdóttir sem er aðildarkórum Gígjunnar vel kunn. Á lokatónleikunum að þessu sinni fluttu kvennakórar heimstónlist, en blandaður kór og stúlknakór fluttu Mass of the Children eftir John Rutter ásamt Sinfoníuhljómsveit Norðurlands. Lynnel Joy Jenkins kom frá Bandaríkjunum til þess að stjórna heimstónlistinni hjá kvennakórunum sem sóttu kórastefnuna. Hún hefur nýverið lokið doktorsprófi í kórstjórn og er ein af aðalstjórnendum American Boychoir. Óhætt er að segja að afar lærdómsríkt og ánægjulegt hafi verið að taka þátt í þessarri dagskrá.

Sagan 2005 – 2006

Fyrsti formlegi stjórnarfundur nýrrar stjórnar var haldinn 8. september. Alls urðu formlegir fundir 8 haldnir á Héraðsskjalasafninu, Bláu Könnunni eða í heimahúsum.

Þann 17. júlí flutti Þórhildur kórstjóri af landi brott. Nokkrar stjórnarkonur heimsóttu hana og kvöddu hana formlega með gjöf fyrir hönd kórsins. Í stað hennar var ráðinn sem kórstjóri Arnór B. Vilbergsson, sem okkur var að góðu kunnur og hafði oft starfað með kórnum sem undirleikari.

Þann 19. júlí héldum við myndakvöld á Amtscafé og var Ana Korbar heiðruð á fertugsafmæli sínu með gjöf frá kórnum fyrir frábæra fararstjórn og skipulagningu í Slóveníuferðinni.

Fyrsta æfing var svo sunnudaginn 11. september í Brekkuskóla. Æfingadagar voru tveir að venju, sá fyrri í Sal aldraðra í Bjargi þann 12. nóvember en sá seinni í Þelamerkurskóla þann 11. mars.

Árshátíðin var haldin í Bjargi að loknum fyrri æfingadeginum. Skemmtinefndin sá um árshátíðina og tókst hún í alla staði mjög vel.

Jólatónleikarnir, til styrktar Mæðrasktyrksnefnd, voru að þessu sinni haldnir í Brekkuskóla þann 4. desember. Þáttakendur ásamt okkur voru Stúlknakór Akureyrarkirkju og Karlakór Eyjafjarðar. Tónleikarnir tókust mjög vel og söfnuðust 206 þús. krónur, en kórinn lagði fram viðbót þannig að Mæðrastryrksnefnd voru afhentar um 250 þús. krónur.

Kórinn kom fram á nokkrum stöðum fyrir utan hefðbundið tónleikahald. Á kvennafrídaginn, þann 24. október voru sungin nokkur lög við hátíðahöld í Sjallanum, sungið var fyrir Framsóknarflokkinn 26. nóvember í Ketilhúsinu og fyrir viðskiptavini á Glerártorgi þann sama dag. Hluti af kórnum söng í Seli þann 13. desember og einnig var sungið við opnun skemmtistaðarins Rocco þann 1. apríl.
Þann 7. apríl héldum við vel heppnað skemmtikvöld í Laugaborg ásamt Karlakór Eyjafjarðar þar sem kórarnir skemmtu hver öðrum með söng og gamanmálum.

Litlu jólin voru haldin í Lóni 11. desember, sungin jólalög og smakkað á jólabakstri og fleira góðgæti.

Fjáraflanir á starfsárinu voru sala jólakorta, styrktarlínur í söngskrá og kaffismökkun fyrir Kaffibrennslu Akureyrar. Kórinn er með 3ja ára samning við Menningarsjóð Akureyrarbæjar, fyrir árið 2005 var styrkurinn kr. 200 þús. og fyrir árið 2006 kr. 250 þús.

Vortónleikarnir voru haldnir í Akureyrarkirkju sunndudaginn  26. mars. Þeir tókust mjög vel og voru um 200 manns í kirkjunni. Andrea Gylfadóttir söng einsöng með kórnum og Eyþór Ingi Jónsson og Snorri Guðvarðsson spiluðu undir.

Heimasíða fyrir kórinn var opnuð í janúar og höfum við fengið mjög jákvæð viðbrögð við henni. Hönnuður hennar er Þórarinn Jóhannsson nemi í Margmiðlunarskólanum og aðstoðar hann einnig við uppfærslu síðunnar.

Föstudaginn 12. maí kl. 17:00 lagði kórinn af stað í vorferð til Suðurnesja og haldnir voru tónleikar með Kvennakór Suðurnesja í Ytri Njarðvíkurkirkju, með undirleikurunum Geirþrúði Fanneyju Bogadóttur á píanó og Einari Þór Jóhannssyni á gítar. Kvennakór Suðurnesja tók afar vel á móti okkur og sáu þær til þess ásamt okkur sjálfum að helgin varð okkur ógleymanleg.  Þar með lauk starfsárinu 2005-2006

Sagan 2004 – 2005

Fyrsti stjórnarfundur var haldinn 31. ágúst til að undirbúa vetrarstrafið en alls voru formlegir stjórnarfundir 7, oftast haldnir í heimahúsum og auk þess haldnir nokkrir óformlegir samráðsfundir.

Fyrsta æfing var svo sunnudaginn 12. september í nýjum glæsilegum sal Brekkuskóla.
Æfingadagur var haldinn í Laugaborg 6. nóvember og einnig var æfingadagur 5. febrúar, en þá í sal Brekkuskóla.

Jólatónleikarnir til styrktar Mæðrastyrksnefnd Akureyrar voru að þessu sinni haldnir í Akureyrarkirkju fimmtudaginn 2. des. Þáttakendur ásamt okkur voru Stúlknakór Akureyrarkirkju og Kór Glerárkirkju. Í lok tónleikanna var Mæðrastyrksnefndinni afhentur afraksturinn, kr. 250 þúsund og að auki 50 þús. krónur sem gjöf frá kórnum.

Þann 19. febrúar var efnt til sameiginlegrar skemmtunar Karlakórs Eyjafjarðar og Kvennakórs Akureyrar í Laugaborg. Kórarnir skemmtu hver öðrum og gestum sínum með söng og skemmtiatriðum og á eftir var stiginn dans.

Sótt var um styrk frá Menningarmálanefnd Akureyrarbæjar og fengum við loforð um 200 þúsund króna styrk þetta árið, sem er hluti af föstum samningi til þriggja ára við Menningarsjóð Akureyrarbæjar.
Einnig sóttum við um styrk til Kea og fengum 150 þús krónur sem afhentar voru við athöfn á Fiðlaranum milli jóla og nýárs.

Vortónleikarnir okkar voru haldnir í Akureyrarkirkju sunnudaginn 3. apríl og tókust sérlega vel, giskað var á að í kirkjunni væru hátt í 200 manns. Sigrún Arna Arngrímsdóttir messósópran söng einsöng með kórnum og undirleikarar voru Eyþór Ingi Jónsson og Snorri Guðvarðsson.

Sungið var við messu í Akureyrarkirkju 1. maí og þann 11. maí söng kórinn í Íþróttahöllinni á samkomu vegna opinberrar heimsóknar forseta Íslands til Akureyrar.

Vetrarstarfið markaðist mikið af fyrirætlaðri ferð kórsins til Slóveníu í júní.
Ýmislegt var reynt til fjáröflunar og bar þar hæst útgáfu jólakorta sem gáfu góða raun, einnig var haldið skemmtikvöld í Vélsmiðjunni, sungið á KEAdegi á Glerártorgi og haldinn flóamarkaður mikill í hlöðunni í Litla-Garði laugardaginn 14. maí. Styrktarlínur í söngskrána gáfu góða raun og Íslandsbanki styrkti okkur um kr. 200 þús.

21. maí var haldið í vorferð og að þessu sinni var stefnan tekin á Skúlagarð í Kelduhverfi, m.a. til þess að heimsækja fyrrum stjórnanda okkar, Björn Leifsson, sem er skólastjóri Tónlistarskóla Öxarfjarðar. Í Skúlagarði héldum við tónleika kl. 17:00 og fengum einhvern slatta af tónleikagestum og ágætar undirtektir. Þaðan var haldið til Húsavíkur á veitingastaðinn Sölku þar sem við snæddum kvöldverð og horfðum á Eurovision. Að því loknu var sungið og trallað alla leiðina heim.

Þar með laukstarfsárinu 2004-2005 hjá þeim sem ekki fóru til Slóveníu en hinar tóku nokkrar æfingar í júní áður en haldið var af landi brott þann 23. júní. Nánar má lesa um það ferðalag hér.

Söngför til Slóveníu 2005

Söngferð Kvennakórs Akureyrar til Slóveníu sumarið 2005.

Kvennakór Akureyrar hélt í sína fyrstu söngferð til útlanda þann 23. júní s.l. Hópurinn allur var 71 manns og samanstóð af 47 kórkonum, 20 eiginmönnum (puntstráum) og einu barni, einsöngvaranum Sigrúnu Örnu Arngrímsdóttur, kórstjóranum Þórhildi Örvarsdóttur, undirleikaranum Eyþóri Inga Jónssyni og mökum þeirra. Ferðin stóð í 2 vikur, tónleikar og skipulagðar skoðunarferðir voru í fyrri vikunni, en afslöppun á Portorož í þeirri seinni og hélt hluti af hópnum heim eftir fyrri vikuna.

Lagt var af stað frá Akureyri í rútu kl. 22:00 að kvöldi 22. júní og ekið til Keflavíkur þaðan sem flogið var um morguninn kl. 06:00. Lent var í Trieste á Ítalíu um hádegisbilið og þar tók á móti okkur fararstjórinn Damjan en hann og tveir rútubílstjórar áttu að sjá um okkur næstu vikuna. Ekið var rakleiðis til Nova Gorica í Slóveníu og gist þar fyrstu nóttina að aflokinni skoðunarferð í vínræktarhéraðið Goriška Brda.

Föstudaginn 24. júní var haldið norður í Triglav þjóðgarðinn, en þar er einstaklega fallegt og sjást þar hæstu tindar Júlíönsku Alpanna. Ekið var yfir 1611 m hátt fjallaskarð Vršic, síðan haldið áfram til Bohinj og þar var gist næstu tvær nætur. Bohinj dalurinn er að hluta til í fyrrnefndum Triglav-þjóðgarði. Hótelið okkar stendur við samnefnt vatn og þar var farið í bátsferð, gönguferð, paragliding og kláfferju upp á fjallið Vogel í 1535 m. hæð.

Að kvöldi laugardagsins 25. júní tók svo alvaran við en þá héldum við okkar fyrstu tónleika í kirkju í Bohinjska Bistrica á þjóðhátíðardegi Slóvena, 25. júní. Fengum við þokkalega aðsókn og ágætar undirtektir og var okkur boðið í drykki og meðlæti í safnaðarheimilinu á eftir.

Sunnudaginn 26. júní var lagt af stað til Bled. Það er dásamlega fallegur staður, himinblátt stöðuvatn með lítilli eyju, sem reyndar er eina eyjan í Slóveníu. Í henni er kirkja en bærinn umhverfis vatnið blómstraði á miðöldum sem áningarstaður pílagríma til þessarar kirkju. Þetta er eitt mesta ferðamannasvæði Slóveníu og er þekkt fyrir náttúrufegurð, heilsuræktarhótel og möguleika á iðkun ýmissa íþróttagreina og tómstunda.

Frá Bled var haldið til héraðsins Komenda, en þaðan er ein kórkonan okkar, hún Ana Korbar. Fjölskylda hennar opnaði heimili sitt fyrir okkur og hélt okkur frábæra veislu í mat og drykk og þökkuðum við fyrir okkur með söng. Því næst var haldið í bæinn Komenda. Þar tóku á móti okkur karl og kona í þjóðbúningum sem leiddu okkur um bæinn og í hina herlegustu veislu í boði ferðafélags bæjarins. Að lokum vorum við leyst út með gjöfum, hvert og eitt. Að sjálfsögðu var aftur sungið til að þakka fyrir sig.

Um kvöldið héldum við okkar aðra tónleika og nú undir beru lofti fyrir utan kirkjuna í Komenda. Í hléinu söng karlakór staðarins og einnig var þar þjóðdansasýning, mjög skemmtileg. Áheyrendur voru glaðir og undirtektir mjög góðar. Að afloknum tónleikum var kvöldverður í veitingahúsinu Pri Zajcu og enn sýndu heimamenn í Komenda sína frábæru gestrisni með því að veita okkur fría drykki með matnum. Því næst var ekið til höfuðborgarinnar Ljubljana og gist þar í tvær nætur.

Mánudaginn 27. júní vorum við um kyrrt í höfuðborginni og skoðuðum okkur um og versluðum. Ljubljana er mikil menningarborg og mætast þar gamli og nýi tíminn og menning austurs og vesturs. Íbúar eru um 280 þúsund.

Þriðjudaginn 28. júní ókum við svo af stað áleiðis til Vinska Gora, en það er heimabyggð fararstjórans Damjan. Þar skoðuðum við m.a. dádýrabú og grunnskóla staðarins og þáðum þar kökur og kruðerí sem mamma fararstjórans hafði bakað handa okkur. Næst var haldið á Spa-hótelið Topolšica og farið í sund, nudd eða sólbað eftir geðþótta, en síðan gert klárt fyrir þriðju og síðustu tónleikana, sem haldnir voru í kirkju í þorpinu Ponikva pri Žalcu ekki langt frá Vinska Gora. Þessir tónleikar tókust alveg sérdeilis vel og að sögn Þórhildar kórstjóra, sem nú var að stjórna okkur í síðasta sinn, höfðum við aldrei sungið betur. Fengum við frábærar undirtektir, kirkjan var nánast full af fólki, hitinn var kæfandi og svitinn bogaði af kórnum. Í hléinu léku tvær stúlkur á sítar og kirkjukór staðarins söng nokkur lög, þar á meðal „Undir dalanna sól” á íslensku! Urðum við afar snortnar af því og reyndar öllum þessum frábæru móttökum og gestrisni sem okkur var sýnd, því þarna var svo einnig boðið til veislu í safnaðarheimilinu á eftir.

Miðvikudaginn 29. júní héldum við lengra til austurs á leið til Jeruzalem, sem er mikið vínræktarsvæði. Á leiðinni var komið við á ferðaþjónustubýli, þar sem snæddur var léttur hádegisverður og færasti slóvenski barþjónninn sýndi listir sínar í kokteilagerð.
Þegar lokið var skoðun á Jeruzalem og búið að bragða á afurðum héraðsins var haldið til baka og suður á bóginn að Postonja hellunum og borðað og gist þar á Hotel Jama. Á leiðinni hrepptum við versta veður, þrumuveður og hvassviðri.

Fimmtudaginn 30. júní fórum við að afloknum morgunverði að skoða Postojnska Jama sem er með stærstu dropasteinshellum í heimi. Þeir eru um 20 km langir, alveg ótrúlegt náttúruundur og er farið um þá að hluta til með lest. Að því loknu var komið að kveðjustund, því að nú var hluti hópsins, eða 8 manns, að fara í 4-daga ævintýraferð til Trenta, og annar hluti, eða 19 manns, að fara heim til Íslands. Restin af hópnum hélt til Portorož til vikudvalar, en það er á 46 km strandlengju sem Slóvenía á að sjó við Adríahafið. Hitinn þar var ca 25-35 stig og oftast sólskin en einnig fengum við nokkrum sinnum að sjá og finna fyrir alvöru þrumuveðri og tilheyrandi rigningu. Heimleiðis héldum við svo frá Trieste að morgni dags þann 7. júlí og vorum komin heim til Akureyrar um kl. 22:00 um kvöldið, sólbrennd og með sælubros.

Þessi fyrsta ferð Kvennakórs Akureyrar út fyrir landsteinana verður okkur öllum sem tókum þátt í henni alveg ógleymanleg. Slóvenía er dásamlega fallegt land, einstaklega snyrtilegt og laust við rusl og fólkið sérlega gestrisið og afslappað. Gleðin, samstaðan og jákvæðnin í hópnum okkar var aðdáunarverð og við vorum stoltar af því að fá tækifæri til að kynna íslenska tónlist og kórsöng á erlendri grund. Við viljum hér með þakka hjartanlega öllum þeim sem aðstoðuðu okkur og gerðu okkur kleift að komast til Slóveníu og það er enginn vafi á því að innan fárra ára munum við reyna að komast aftur í svipaða ferð.

Sagan 2003 – 2004

Þegar kom fram í júlí 2003 kom í ljós að Björn Leifsson, stjórnandinn okkar ráðgerði að flytja úr bænum og því þurfti nú að huga að því að útvega nýjan stjórnanda. Eftir nokkrar eftirgrennslanir varð það úr að Þórhildur Örvarsdóttir tæki kórinn að sér.

12 stjórnarfundir voru haldnir á árinu. Fyrsti stjórnarfundur var haldinn 14. ágúst til að undirbúa vetrarstrafið en alls eru stjórnarfundir orðnir 12, ýmist haldnir á Bláu könnunni eða í heimahúsum.

Fyrsta æfingin haustið 2003 var sunnudaginn 14. september í sal Brekkuskóla.
Æfingadagur var haldinn í Laugaborg 15. nóvember og annar æfingadagur 7. febrúar á sama stað. – Helga Haraldsdóttir mætti í hléi og kenndi okkur smávegis í Yoga við mikla hrifningu.

Í desember voru sungin jólalög í Dvalarheimilinu Hlíð og í verslunarmiðstöðinni Sunnuhlíð og þann 4. desember varð það nýmæli hjá kórnum að haldnir voru tónleikar til styrktar Mæðrastyrksnefnd Akureyrar. Við fengum okkur til liðsinnis Karlakór Akureyrar-Geysi og Stúlknakór Akureyrarkirkju. Allur kostnaður við tónleikana, bæði hvað snerti húsnæði og tónlistarfólk var felldur niður og rann innkoman kr. 269 þúsund óskipt til Mæðrastyrksnefndar.

Sótt var enn um styrk frá Menningarmálanefnd Akureyrarbæjar og fengum við 75 þúsund krónur. Einnig sóttum við um styrk til Menningarsjóðs KEA en fengum ekkert að því sinni.

Sungið var á þorrablóti á Dvalarheimilinu Hlíð á Þorranum.

Ákveðið var að fara í tónleikaferð til Slóveníu sumarið 2005 og reyna að safna einhverjum peningum upp í ferðakostnaðinn. Auglýst var eftir konum til að standa fyrir fjáröflun fyrir ferðina. Eygerður Þorvaldsdóttir gaf sig fram og fékk með sér nokkrar konur og störfuð þær ötullega að málinu.

Tónleikarnir okkar voru haldnir í Glerárkirkju að þessu sinni þann 20. mars og tókust þeir vel. Undirleikarar voru Eyþór Ingi Jónsson á píanó og Snorri Guðvarðsson á gítar. Við fengum heldur færri áhorfendur en árið áður en þó um 130.
Sama kvöld var haldin 1. árshátíð kórsins. Tókst hún í alla staði mjög vel og skemmtum við okkur fram eftir nóttu í „Alþýðuhúsinu gamla” eða „Húsi aldraðra” við ýmis skemmtiatriði, söng og dans.

Sungið var í Borgarbíó á hátíðisdegi verkalýðsins 1. maí. Einnig sungum við á Myndlistarsýningu í Landsbankanum á Akureyri þar sem fjórar listakonur voru að opna sýningu á verkum sínum og er ein af þeim, Halla Gunnlaugsdóttir, félagi í kórnum.

Vorferðin að þessu sinn var tónleikahald á Blönduósi ásamt Karlakór Akureyrar – Geysi þann 21. maí. Sungið var í Blönduóskirkju, kórarnir sitt í hvor lagi og svo saman. Tónleikarnir voru sæmilega sóttir að sögn heimamanna eða um 40 manns. Á eftir komu svo kórarnir saman í félagsheimilinu og fengu þar súpu og salat frá veitingahúsinu Árbakkanum. Sungið var og trallað við undirleik þeirra Eyþórs Inga og Snorra þar á eftir en síðan haldið heim á leið í ausandi rigningu og roki.

Kórinn söng einnig við messu í Akureyrarkirkju sunnudaginn 9. maí, tókst það í alla staði mjög vel og síðan sungu um það bil 20 konur á aðstandendadegi í Hjúkrunarheimilinu Seli þann 8. maí. Þar með lauk starfsárinu 2003-2004.