Sagan 2004 – 2005

Fyrsti stjórnarfundur var haldinn 31. ágúst til að undirbúa vetrarstrafið en alls voru formlegir stjórnarfundir 7, oftast haldnir í heimahúsum og auk þess haldnir nokkrir óformlegir samráðsfundir.

Fyrsta æfing var svo sunnudaginn 12. september í nýjum glæsilegum sal Brekkuskóla.
Æfingadagur var haldinn í Laugaborg 6. nóvember og einnig var æfingadagur 5. febrúar, en þá í sal Brekkuskóla.

Jólatónleikarnir til styrktar Mæðrastyrksnefnd Akureyrar voru að þessu sinni haldnir í Akureyrarkirkju fimmtudaginn 2. des. Þáttakendur ásamt okkur voru Stúlknakór Akureyrarkirkju og Kór Glerárkirkju. Í lok tónleikanna var Mæðrastyrksnefndinni afhentur afraksturinn, kr. 250 þúsund og að auki 50 þús. krónur sem gjöf frá kórnum.

Þann 19. febrúar var efnt til sameiginlegrar skemmtunar Karlakórs Eyjafjarðar og Kvennakórs Akureyrar í Laugaborg. Kórarnir skemmtu hver öðrum og gestum sínum með söng og skemmtiatriðum og á eftir var stiginn dans.

Sótt var um styrk frá Menningarmálanefnd Akureyrarbæjar og fengum við loforð um 200 þúsund króna styrk þetta árið, sem er hluti af föstum samningi til þriggja ára við Menningarsjóð Akureyrarbæjar.
Einnig sóttum við um styrk til Kea og fengum 150 þús krónur sem afhentar voru við athöfn á Fiðlaranum milli jóla og nýárs.

Vortónleikarnir okkar voru haldnir í Akureyrarkirkju sunnudaginn 3. apríl og tókust sérlega vel, giskað var á að í kirkjunni væru hátt í 200 manns. Sigrún Arna Arngrímsdóttir messósópran söng einsöng með kórnum og undirleikarar voru Eyþór Ingi Jónsson og Snorri Guðvarðsson.

Sungið var við messu í Akureyrarkirkju 1. maí og þann 11. maí söng kórinn í Íþróttahöllinni á samkomu vegna opinberrar heimsóknar forseta Íslands til Akureyrar.

Vetrarstarfið markaðist mikið af fyrirætlaðri ferð kórsins til Slóveníu í júní.
Ýmislegt var reynt til fjáröflunar og bar þar hæst útgáfu jólakorta sem gáfu góða raun, einnig var haldið skemmtikvöld í Vélsmiðjunni, sungið á KEAdegi á Glerártorgi og haldinn flóamarkaður mikill í hlöðunni í Litla-Garði laugardaginn 14. maí. Styrktarlínur í söngskrána gáfu góða raun og Íslandsbanki styrkti okkur um kr. 200 þús.

21. maí var haldið í vorferð og að þessu sinni var stefnan tekin á Skúlagarð í Kelduhverfi, m.a. til þess að heimsækja fyrrum stjórnanda okkar, Björn Leifsson, sem er skólastjóri Tónlistarskóla Öxarfjarðar. Í Skúlagarði héldum við tónleika kl. 17:00 og fengum einhvern slatta af tónleikagestum og ágætar undirtektir. Þaðan var haldið til Húsavíkur á veitingastaðinn Sölku þar sem við snæddum kvöldverð og horfðum á Eurovision. Að því loknu var sungið og trallað alla leiðina heim.

Þar með laukstarfsárinu 2004-2005 hjá þeim sem ekki fóru til Slóveníu en hinar tóku nokkrar æfingar í júní áður en haldið var af landi brott þann 23. júní. Nánar má lesa um það ferðalag hér.