Sagan 2011-2012

10 ára afmælistónleikar í Hömrum í Hofi

 Saga kórsins starfsárið 2011 – 2012

Á aðalfundi 11. maí 2011 varð töluverð breyting á stjórn en þá gengu þrjár konur úr stjórn, þær Snæfríð Egilson,  Ásdís Stefánsdóttir og  Una Berglind Þorleifsdóttir. Í þeirra stað komu; Arnfríður Kjartansdóttir, Eygló Arnardóttir og Kamilla Hansen. Áfram sátu Soffía Pétursdóttir og Una Þórey Sigurðardóttir.

Síðasta verkefni kórsins á starfsárinu 2010-2011 voru vortónleikarnir sem haldnir voru í Laugarborg sunnudaginn 22. maí.  Með kórnum söng Eyrún Unnarsdóttir messósópran. Náttúruöflin urðu til þess að andrúmsloftið í kórnum varð ansi dramatískt síðustu stundirnar fyrir tónleikana og ég hef grun um að hjarta þáverandi formanns hafi slegið nokkuð ört. Það byrjaði nefnilega að gjósa í Grímsvötnum með þeim afleiðingum að öllu flugi var aflýst á sunnudag og kórstjórinn staddur í Reykjavík  en tónleikarnir áttu að hefjast kl 16. En Daníel brást okkur ekki frekar en fyrri daginn, leigði bílaleigubíl í snatri og ók viðstöðulaust norður. Hann náði rétt mátulega að skipta um föt og var mættur á sinn stað á sviðinu í Laugarborg klukkan fjögur, rétt eins og ekkert hefði gerst. Eftir vortónleikana fóru kórkonur í langþráð sumarfrí.

Starfsárið 2011- 2012 var eitt af viðburðaríkustu árunum í sögu kórsins og rak hver viðburðurinn annan. Má þar helst nefna tíu ára afmæli kórsins,  veglega mæðrastyrkstónleika og fyrirhugaða ferð Kvennakórs Akureyrar á Íslendingaslóðir í Kanada í ágúst .

Fyrsta æfing haustið 2011 var haldin sunnudaginn 4. september í Brekkuskóla.  Áður hafði verið auglýst eftir nýjum konum í Dagskránni og einnig voru settar upp auglýsingar. Einnig voru kórkonur beðnar um að líta í kringum sig eftir álitlegum nýliðum í kórinn.
Þessi herferð bar ágætis árangur því það komu þó nokkrar konur í hópinn til okkar, bæði nýjar og eins konur sem höðu verið í kórnum á árum áður. Lögð var áhersla á það í byrjun starfsárs að halda vel utanum nýliðana strax í upphafi eiga raddformenn  og kórkonur allar þakkir skildar fyrir það. Eins og gengur týndist aðeins úr nýliðahópnum er leið á haustið og veturinn en langflestar héldu áfram.

Á haustdögum voru starfandi í kórnum um 66 konur, nokkrar kórkonur tilkynntu ótímabundin hlé og þrjár af nýliðunum hættu fyrir áramót. Um aðalfund að vori 2012 voru skráðar 59 konur í kórnum. Nokkrar konur sem ekki ætluðu að taka þátt í Kanadaför tóku hlé til hausts.

Árlegur haustmarkaður KvAk var haldinn í Hlöðunni á Hömrum laugardaginn 10. september. Var hann með hefðbundnum hætti, kórkónur mættu með ýmsan varning, s.s. fatnað, bækur, fjallagrös og þessháttar og þær sem ekki gátu lagt eitthvað til greiddu ákveðna upphæð. Boðið var upp á vöfflur og kaffi sem gestir og gangandi gæddu sér á undir indælum söng kórkvenna. En nú brá svo við að mjög lítið var af ætum varningi svo sem brauði og kökum. Kom þetta í kjölfar nýlegra reglugerða heibrigðisnefndar er bannaði sölu á heimatilbúnum mat nema úr heilbrigðisvottuðum eldhúsum. Það litla sem barst af brauði og sultum bókstaflega hvarf á augabragði.  Markaðurinn skilaði þó nokkrum hagnaði umfram kostnað.

KvAk konur mættu galvaskar í útvarpsþáttinn  Gestir út um allt  í Hofi sunnudaginn 6. nóv. Þar samdi og söng Ingó veðurguð hið rómaða lag um Kvennakór Akureyrar. Það var Snæfríð Egilson sem stóð fyrir þátttöku kórsins í þættinum og var það liður í því að auglýsa kórinn út á við.

Tíu ára afmæli kórsins var haldið með pomp og prakt laugardaginn 19. nóvember. Um undirbúning og framkvæmd sá sérskipuð afmælisnefnd undir styrkri stjórn Helgu Sigfúsdóttur. Afmælishátíðin byrjaði á veglegum tónleikum í Hömrum Hofi þar sem farið var yfir sögu kórsins frá upphafi í mæltu máli og söng. Æfingar kórsins frá í september höfðu miðast við að æfa úrval laga sem kórinn hafði sungið undir stjórn fyrri stjórnenda. Auk þess var frumflutt ljóð einnar kórkonunnar, Önnu Dóru Gunnarsdóttur við lag Daníels.  Kórinn söng við undirleik hljómsveitar sem sett var saman af þessu tilefni. Við  píanóið sat Aladár Rácz, Pétur Ingólfsson sá um bassann og Emil Þorri Emilsson um trommur. Helga Sigfúsdóttir sagði sögu kórsins og fór algerlega á kostum. Tónleikarnir tókust mjög vel í alla staði. Þess má geta að tónleikarnir voru teknir upp og var t.d. öllum stjórnendum kórsins fyrr og nú gefin upptaka með tónleikunum og sögu kórsins.

Um kvöldið mættu kórkonur ásamt mökum út í Hlíðarbæ þar sem haldin var heljarinnar veisla. Snorri Guðvarðar  sá um veislustjórn af sinni alkunnu snilld. Um skemmtiatriði sáu kórkonur sjálfar. Óllum að óvörum komu félagar úr Karlakór Akureyrar/Geysi og sungu nokkur lög fyrir veislugesti við góðar undirtektir. Að lokum var dansað fram á nótt við undirleik Snorra og hljómsveitar hans.

Mæðrarstyrkstónleikarnir voru  haldnir í Hamraborg í Hofi  8. desember. Þeir voru haldnir af miklum metnaði og fengum við söngfólkið Guðrúnu Gunnarsdóttur og Ívar Helgason í lið með okkur ásamt hljómsveitinni góðu frá afmælistónleikunum.  Allt tónlistarfólkið gaf vinnu sína og  voru Mæðrastyrksnefnd færðar kr. 560 þúsund í lok tónleikanna. Tónleikarnir heppnuðust mjög vel og höfðu áheyrendur orð á því að mikil orka og gleði hefðu streymt frá kórnum.

Jólasamvera var haldin í beinu framhaldi af síðustu æfingunni fyrir jól þann 11. des. Þar var fámennt en góðmennt og skemmtu kórkonur og Daníel sér góða stund við skemmtilestur auk þess að gæða sér á ýmsum kræsingum. Auk þess var nýja matreiðslubókin, Kvakandi krásir, kynnt.

Jólasöngur í miðbænum 17. des.  að beiðni Akureyrarstofu var síðasta verkefni kórsins fyrir jól.  KvAk konur sungu að venju fyrir framan Bláu könnuna í kulda og trekk og fengu sér svo heitt kakó á eftir ásamt Daníel.

Fyrsta æfingin á árinu 2012 var haldin 8. janúar í Brekkuskóla. Þá var byrjað að æfa nýtt prógram sem tók mið af væntanlegri Kanadaferð kórsins.

Jónas Þór fararstjóri og ferðaskipuleggjandi kom 26. janúar og kynnti væntanlega Kanadaferð fyrir kórnum en töluverðar breytingar höfðu orðið á fyrirkomulagi ferðarinnar frá upphafi. Í framhaldi af þeirri heimsókn ákváðu þó langflestar kórkonur að halda sínu striki og fara í ferðina þrátt fyrir breytta ferðatilhögun.

10. febrúar sungu KvAk konur ásamt félögum úr K.A.G. á þorrablóti í Hlíð við góðar undirtektir og sunnudaginn 25. mars var sungið fyrir vistfólk í Kjarnalundi og Hlíð.

Að beiðni Þjóðræknisfélags Íslands söng kórinn á kynningarfundi þess og Utanríkisráðuneytisins á Amtbókasafninu laugardaginn 31. mars. Auk þess að syngja hlustuðum við á frábæran fyrirlestur Atla Ásmundssonar (aðalræðismanns Íslands í Winnipeg) um Vestur – Íslendinga.

Sunnudaginn 6. maí  hélt kórinn tónleika í Siglufjarðarkirkju ásamt Karlakór Akureyrar/Geysi og félögum úr Karlakór Siglufjaðar.  Eftir sönginn fengu kórarnir súpu og salat á Kaffi Rauðku áður en haldi var heim á leið eftir vel heppnaða tónleika.

Vortónleikar voru haldnir í Laugarborg 29. maí.  Efnisskráin var tileinkuð ferð Kvennakórins á Íslendingaslóðir í Kanada. Prógrammið var fjölbreytt, blanda af íslenskum þjóðlögum ásamt nýjum og gömlum perlum.
Vortónleikarnir báru eins og áður sagði sterkan svip af því sem framundan var – söngferðalag á Íslendingaslóðir í Vesturheimi. Af því tilefni var tekin útimynd af kórnum með þjóðfánann og íslenska náttúru í baksýn, myndasmiður var Freydís Heiðarsdóttir en hún hafði einnig aðstoðað við myndatökur og vinnslu auglýsinga.

Kanadafarar héldu æfingum áfram fram að brottför, samtals voru haldnar fimm æfingar í júní og júlí. Auk æfinganna var haldinn einn undirbúningsfundur með Jónasi fararstjóra.

Kvennakór Akureyrar fór í söngferðalag til Bandaríkjanna og Kanada dagana 2-14. ágúst. Það er skemmst frá því að segja að ferðin tókst með miklum ágætum. Auk þess að taka þátt í hátíðahöldum á Íslendingadeginum í Gimli, söng kórinn á þrennum tónleikum, á hátíðatónleikum í Gimli, í Riverton og í Minneapolis við mjög góðan orðstý. Nánari ferðasögu má sjá hér.

Akureyrarkaupstaður átti 150 ára afmæli á árinu 2012 og aðalhátíðahöldin voru laugardaginn 1. september. Kvennakór Akureyrar tók þátt í hátíðadagskrá sem fram fór á Akureyrarvelli þann dag. Þar söng kórinn þrjú lög í mjög metnaðarfullri og velheppnaðri dagskrá.
Kórinn hóf aftur upp raust sína síðar um kvöldið og þá í Menningarhúsinu Hofi. Þar gafst þeim er áttu bókaða viðburði í Hofi á komandi mánuðum tækifæri til að kynna sig og vakti söngur KvAk jákvæða athygli hlustenda.

Dvalarheimilið Hlíð átti einnig afmæli á árinu 2012 og þar voru mikil hátíðahöld í byrjun september. Af því tilefni hélt KvAk  tónleika fyrir heimilsfólk Hlíðar fimmtudaginn 6. september þar sem kórinn söng sumarprógrammið við góðar undirtektir. Segja má að söngurinn í Hlíð hafi verið síðasti viðburðurinn á starfsárinu 2011 – 2012.

Æfingadagar kórsins á árinu voru tveir samkvæmt venju. Sá fyrri var 30. október en sá seinni 10. mars. Báðir æfingadagarnir voru haldnir í Valsárskóla og sá Daníel einn um að æfa okkur. Að venju sá Kvenfélag Svalbarðsstrandar um mat og drykk af sinni alkunnu snilld.

Fjáraflanir voru nokkrar á starfsárinu. Þar ber fyrst að nefna áðurnefndan markað í byrjun september. Svo var ráðist í eina kleinusölu á haustdögum. Auk þess var farið í jólakortagerð og sölu í desember auk þess að vera með söluborð í Bónus einn dag fyrir jól. En sú fjáröflun sem mestu skilaði og fékk auk þess jákvæðustu umfjöllunina var útgáfa uppskriftarbókar kórfélaga; Kvakandi krásir.  Fyrsta upplag seldist upp svo prenta þurfti meira. Valdís Þorsteinsdóttir hafði veg og vanda af útgáfunni en kórfélagar lögðu til uppskriftir.

Nefndir voru allar mannaðar að tónleikanefnd undanskilini.  Stjórnin fundaði með ferða- og fjáröflunarnefndum eftir þörfum og auk þess verið í ágætu sambandi við aðrar nefndir. Meira var lagt í kynningar á kórnum út á við en oft áður.  Landsmótsnefnd hóf vinnu fyrir væntanlegt landsmót  íslenskra kvennakóra hér á Akureyri vorið 2014.

Æfingar voru í Brekkuskóla en þennan vetur þurfti oft að víkja þaðan vegna ýmissa uppákoma m.a. viðgerða á sal. Þá var æft  í Hlíð og Dynheimum í Hofi, en mest þó í Lóni.  Gott samstarf var við Karlkór Akureyrar/Geysi varðandi lán á húsnæði og pöllum og í staðinn hjálpuðu KvAk konur tvívegis til við veisluhöld á þeirra vegum.

Fundir stjórnar frá aðalfundi 2011 voru 16 fundir, þar af 13 síðan stjórnarnskipti urðu í byrjun starfsárs 2011-2012.