Æfingar komnar af stað og spennandi vetur framundan

Æfingar hófust af fullum krafti 4. september s.l. og nú hafa bæst við níu konur frá því í fyrra. Tvennir tónleikar verða fyrir jól, kórinn fagnar 10 ára starfsafmæli þann 19. nóvember með tónleikum og hátíð og síðan verða hinir árlegu tónleikar fyrir Mæðrastyrksnefnd Akureyrar haldnir í Hofi 8. desember.  Nánari fréttir um tónleika á vorönn koma síðar en rúsínan í pylsuendanum á þessu starfsári verður söngför til Kanada í byrjun ágúst 2012 !

Tvennir tónleikar í Hofi

Kvennakór Akureyrar stendur fyrir tvennum tónleikum í Hofi á haustönninni. 

Þeir fyrri verða sérstakir 10 ára afmælistónleikar kórsins. Þar verða rifjaðir upp gamlir smellir í bland við nýja. Stjórnendur kórsins þessi 10 ár hafa verið Björn Leifsson, Þórhildur Örvarsdóttir, Arnór Vilbergsson, Jaan Alavere og Daníel Þorsteinsson og hefur lagavalið verið mjög fjölbreytt, eins og sjá má hér. Tónleikarnir verða í Hömrum í Menningarhúsinu Hofi þann 19. nóvember.

Seinni tónleikarnir eru árlegir styrktartónleikar fyrir Mæðrastyrksnefnd Akureyrar. Slíkir tónleikar hafa verið haldnir skömmu fyrir jól allt frá árinu 2003.  Þá hefur kórinn fengið aðra kóra og tónlistarmenn til liðs við sig og að þessu sinni er meiningin að halda veglega tónleika í aðalsalnum í Hofi þann 8. desember. Nánar verður sagt frá þessum tónleikum síðar og þá hvaða tónlistarfólk kemur til liðs við kórinn.

Kórstarfið að hefjast eftir sumarfrí

Það er ýmislegt spennandi og skemmtilegt framundan hjá Kvennakór Akureyrar á næstunni eins og til dæmis 10 ára afmæli kórsins, sem haldið verður upp á með pompi og prakt þann 19. nóvember. Nánar verður sagt frá því síðar.

Haustmarkaður KvAk  verður haldinn 10 september í Hlöðunni að Hömrum (tjaldstæðinu/ útilífsmiðstöð skáta) eins og í fyrra.
Þar verður sitt af hverju tagi á boðstólum, ætt og óætt, til dæmis, handverk, fatnaður, fjallagrös, ber (vonandi) og margt fleira.

Fyrsta æfing starfsársins er áætluð sunnudaginn 4. september kl 17:00 og þá verður einnig auglýst eftir nýjum kórfélögum.

Fréttir af aðalfundinum

Aðalfundur KvAk var haldinn í Brekkuskóla 11. maí s.l. Á dagskrá voru venjuleg aðalfundarstörf, skýrsla formanns, skýrsla gjaldkera, kosningar í stjórn og fleira. Þá var rætt um nýafstaðið landsmót kvennakóra og undirbúning fyrir næsta landsmót árið 2014, en þá verður það einmitt í umsjón Kvennakórs Akureyrar og haldið á vordögum á Akureyri.

Nokkrar umræður voru um 10 ára afmæli kórsins en ætlunin er að halda upp á það í haust. Skipuð hefur verið nefnd til undirbúa afmælishaldið og er formaður hennar Helga Sigfúsdóttir.

Talsverð umskipti urðu í stjórninni þar sem formaðurinn Snæfríð Egilson lét af störfum, einnig varaformaður Ásdís Stefánsdóttir og meðstjórnandinn Una Berglind Þorleifsdóttir.  Í stað þeirra komu Arnfríður Kjartansdóttir, Eygló Arnardóttir og Kamilla Hansen, en áfram sitja Soffía Pétursdóttir og Una Þórey Sigurðardóttir. Ný stjórn skiptir með sér verkum eftir stjórnarskipti 1. september.  Með haustinu verður einnig kosið í nefndir.

Aðalfundur 11. maí

Aðalfundur Kvennakórs Akureyrar er haldinn í dag 11. maí í Brekkuskóla.

Dagskrá:

Fundur settur
Skipan fundarstjóra og fundarritara
Lestur fundargerðar síðasta aðalfundar
Skýrsla stjórnar og umræður
Ársreikingar félagsins lagðir fram til umræðu og samþykktar
Kosning tveggja skoðunarmanna ársreikninga og eins til vara
Kosning stjórnar
Lagabreytingar
Önnur mál
    10 ára afmæli Kvennakórs Akureyrar
    Drög að dagskrá næsta haust
    Landsmót 2014 – hugarflug
    Annað
Fundi slitið
Að venju verður boðið upp á pizzur og gos frá Jóni Spretti.

Landsmótinu lokið

alt

Kvennakór Akureyrar er nú kominn heim úr ferðalagi sínu á landsmót íslenskra kvennakóra á Selfossi dagana 29. apríl – 1. maí.  Landsmót íslenskra kvennakóra er haldið á þriggja ára fresti á vegum Gígjunnar sem eru landssamtök kvennakóra. Mótið var nú haldið í áttunda sinn og sá Jórukórinn á Selfossi um framkvæmdina að þessu sinni. Mótið var hið stærsta frá upphafi því rúmlega 600 konur í 23 kórum voru skráðar til leiks.

Ferðin í heild var virkilega vel heppnuð og mótshald allt til fyrirmyndar. Kvennakór Akureyrar lagði af stað kl. 9 á föstudagsmorgni og kom heim um kl 00:30 aðfaranótt sunnudags. Það voru þreyttar en sælar og glaðar konur sem þá héldu hver til síns heima.

Eftir kvöldverð og setningu mótsins á föstudagskvöldi var haldið í óvissuferð á 11 rútum undir leiðsögn Bjarna Harðarsonar, sem fór algjörlega á kostum. Fyrsti áfangastaður var Kerið í Grímsnesi en þar var tekið á móti hópnum fyrst með trompetleik en síðan með einsöng og eldgleypum í báti á vatninu. Næst var haldið að Úlfljótsvatni þar sem langborðin svignuðu undan veglegum veitingum í mat og drykk. Trúbador söng og mannfjöldinn tók undir.

Að morgni laugardags var hafist handa við sameiginlegar æfingar allra kóranna í Iðu (Íþróttahúsi FSU) en eftir hádegið tóku við æfingar í vinnuhópum. Vinnuhópar mótsins voru: Dægurlagahópur undir stjórn Helenu Káradóttur, Björgvinshópur undir stjórn Björgvins Þ. Valdimarssonar, Í sveiflu með Kristjönu Stefánsdóttur, Flóaperlur undir stjórn Eyrúnar Jónasdóttur og Óperukórar undir stjórn Elínar Óskar Óskarsdóttur.

Á laugardeginum kl. 16 voru haldnir tvennir tónleikar, í Iðu og í Selfosskirkju, þar sem hver kór söng 2-3 lög af sínum prógrömmum. Tónleikarnir voru vel sóttir og má þess einnig geta að forsetahjónin heiðruðu kórana með nærveru sinni. Um kvöldið var hátíðarkvöldverður og dagskrá fram yfir miðnætti.

Á sunnudeginum hófust aftur æfingar í vinnuhópunum og eftir hádegið var sameiginleg æfing allra með undirleik Stórsveitar Suðurlands. Hátíðartónleikar hófust síðan í Iðu kl. 15:00, þar sem vinnuhóparnir fimm, sem töldu að meðaltali um 120 manns hver fluttu afrakstur sinnar vinnu. Að lokum sameinuðust allir þátttakendur á sviðið og fluttu þrjú lög við undirleik Stórsveitar Suðurlands og þar á meðal landsmótslag Gígjunnar 2011, Haustkvöld eftir Örlyg Benediktsson. Aðsókn á tónleikana var mjög góð og setið í hverju sæti í Iðu. Viðtökurnar voru einnig frábærar og eftir uppklapp voru áhorfendur kvaddir með laginu Vegir liggja til allra átta, sem átti vel við þar sem nú hélt hver kór til síns heima um mislanga vegu.

Mótsslit og kveðjukaffi með marsipantertu voru svo kl. 16:30-17:30.  Þar var boltanum varpað yfir á Kvennakór Akureyrar sem sér þá um að halda næsta landsmót kvennakóra árið 2014.

Landsmót á Selfossi 29. apríl – 1. maí

Landsmót kvennakóra verður haldið á Selfossi dagana 29. apríl til 1. maí n.k. þar sem 22 kvennakórar eða um 600 konur koma saman.

Landsmót íslenskra kvennakóra er haldið á þriggja ára fresti  á vegum Gígjunnar sem eru  landssamtök kvennakóra.  Mótið er nú haldið í áttunda sinn og mun Jórukórinn á Selfossi sjá um framkvæmdina í þetta sinn. 

Dagskráin hefst kl. 17:30 á föstudeginum með móttöku og afhendingu mótsgagna og kvöldverði.  Að því loknu verður farið í óvissuferð.

Á laugardeginum verðar æfingar frá kl. 9 að morgni og síðan haldnir tónleikar á tveimur stöðum, þ.e. í Selfosskirkju og í Iðu, Íþróttahúsi Fjölbrautarskóla Suðurlands. Um kvöldið er svo hátíðarkvöldverður og dansleikur í Íþróttahúsi Sólvallaskóla.

Á sunnudegi hefjast æfingar kl. 9:30 og að þeim loknum verða hátíðartónleikar í Iðu kl. 15:00 – 16:30 þar sem Stórsveit Suðurlands kemur til liðs við kórana. Mótinu lýkur með kveðjukaffi í Íþróttahúsi Sólvallaskóla.

Kvennakór Akureyrar hefur ekki áður tekið þátt landsmóti og er mikill hugur og spenningur í gangi fyrir þáttökunni í þessari glæsilegu dagskrá sem Jórukórinn á Selfossi hefur skipulagt. Nánar um landsmóti má sjá á vef þeirra  http://jorukorinn.is/Jorukorinn_-_Selfossi/Landsmot.html