Laugardaginn 10. mars héldu gallvaskar Kvak-konur af stað frá Akureyri um kl. hálf níu að morgni og var ferðinni heitið í Valsárskóla á Svalbarðsströnd.
Tilgangurinn með ferðinni var að syngja og æfa sig allan liðlangan daginn undir dyggri stjórn kórstjórans Daníels Þorsteinssonar. Fyrst var æft af kappi til hádegis en þá var tekið til við hinar frábæru kræsingar Kvenfélags Svalbarðsstrandar, sem nú sem fyrr tók að sér sjá kórnum fyrir mat og drykk.
Að því búnu var aftur tekið til við söngæfingar, en í næsta hléi var mætt Eva Reykjalín, danskennari með meiru sem sá til þess að hrista duglega upp í mannskapnum með hressilegum danssporum.
Aftur var sest að kræsingum frá kvenfélaginu og nú voru veitingarnar á við meðal fermingarveislu. Samt sem áður var sungið og æft fram til kl. 5, þá var haldið heim eftir vel heppnaðan dag.