Það er að koma að Kanadaferðinni!


Mynd af vagni í skrúðgöngu á Íslendingadeginum.

Kvennakór Akureyrar heldur nú í vikunni ásamt stjórnanda sínum vestur um haf á Íslendingaslóðir. Ferðinni er heitið til USA og Kanada, nánar tiltekið á Íslendingahátíð á Gimli.Flogið verður til Minnieapolis frá Keflavík og þaðan ekið í tveimur áföngum til Winnipeg, Markmið ferðarinnar er að taka þátt í árlegum hátíðahöldum Íslendinga í Gimili. Hátíðin á sér langa sögu, allt frá 1874, en hefur verið haldin í Gimli síðan 1932. Hún er einhver merkilegasta sinnar tegundar í Kanada, þar sem fólk af íslensku bergi brotið kemur saman ásamt gestum sem sækja hátiðina og er þar er mikið líf og fjör.

Sunnudaginn 5. ágúst er hópurinn kominn til Gimli og kíkir á hátíðahöldin yfir daginn og tekur síðan þátt í konsert um kvöldið ásamt fleiri tónlistarmönnum. Daginn eftir þann 6. ágúst er stórkostleg skrúðganga, þar sem ekið er um í vögnum og þar mun kórinn sitja með íslenska fána og jafnvel taka lagið undir harmonikuleik kórstjóra. Síðan hefst hátíðardagskrá þar sem fjallkonan kemur fram og ræður verða fluttar. Akureyri er vinabær Gimli og þar munu 150 ára afmælisfánarnir einnig blakta við hún og Eiríkur Björgvinsson, bæjarstjóri heimsækir hátíðina einnig af því tilefni.
Þriðjudaginn 7. ágúst verður haldið í skoðunarferð til Nýja Íslands en um kvöldið haldinn konsert í Riverton.

Á bakaleið er svo haldinn konsert í Minneapolis föstudaginn 10. ágúst og móttaka verður hjá Íslendingafélagi þar að honum loknum.
Laugardaginn 11. ágúst verður siglt um Missisippi og síðan haldið heim að kvöldi 12. ágúst. Í förinni eru 61 manns, 42 kórfélagar, kórstjóri og 18 makar. Kórkonur eru að vonum spenntar fyrir ferðinni og hafa æft stíft í allt sumar til að geta verið landi sínu og heimabæ til sóma.