Vögguvísa

Lag: Páll Ísólfsson. Ljóð: Davíð Stefánsson. Radds.: Jakob Tryggvason.

Nú læðist nótt um lönd og sæ,
og læst er höll og kofa.
Og allt er hljótt um borg og bæ,
og barnið á að sofa.
Að fjallabaki sefur sól,
og sofið er í hverjum hól.
Í sefi blunda svanabörn,
og silungur í læk og tjörn.

Og sofðu, barn mitt, vært og vel.
Ég vagga ungum sveini.
Í draumi fær þú fjöruskel
og fugl úr ýsubeini.
Og hvað sem verður kalt og hljótt
og hvað sem verður dimmt í nótt,
og hvað sem villt af vegi fer,
þá vakir drottinn yfir þér.