Þegar dagarnir styttast

Lag: Arnór Vilbergsson. Ljóð: Rósa Aðalsteinsdóttir

Þegar dagarnir styttast og dimmir um storð,
sérðu dýrðlega stjörnu, þar ljómar Guðs orð,
um fæðingu hans, sem varð frelsari manna,
og færði´okkur jólin og gleðina sanna.

Þau færast nær og nær,
og nú er allt svo bjart,
er kærleiks hátíð, kristni hans
skal klædd í jólaskart.

Og svo kveikjum við ljósin á kertunum hér,
er við komum nú saman að fagna hjá þér,
sem gafst okkur lífið og gleðina bjarta.
Sú gleði er Jesús, í sérhverju hjarta.

Þau færast nær og nær,….

Svo er upp renna jólin og annríkið dvín,
verða englar á ferð, þar sem kvöldstjarnan skín.
Er barnsaugun glitra í ljósanna ljóma,
þau lyfta upp hug þegar sálmarnir hljóma.