Sagan 2018-2019

Á aðalfundi Kvennakórs Akureyrar, sem haldinn var í Brekkuskóla þann 16. september 2018, gekk Anna Breiðfjörð Sigurðardóttir úr stjórninni en Sigríður Jónsdóttir gaf kost á sér og fékk staðfestingu fundarkvenna. Stjórnin veturinn 2018-2019 var þá skipuð þeim Þórunni Jónsdóttur, formanni, Höllu Sigurðardóttur, varaformanni, Valdísi Björk Þorsteinsdóttur, ritara, Sigríði Jónsdóttur, gjaldkera, og Margréti Ragúels meðstjórnanda og lyklaverði. Raddformenn voru Guðrún Hreinsdóttir alt 1, Lilja Jóhannsdóttir alt 2, Hafdís Þorvaldsdóttir sópran 1 og Stella Sverrisdóttir sópran 2.

Starf vetrarins hófst með æfingu 9. september. Æfingar voru sem fyrr einu sinni í viku í Brekkuskóla, á sunnudögum kl. 16:45-19:00, en nokkrar æfingar voru færðar um set þegar skólinn var upptekinn.

Stærsta verkefni vetrarins var undirbúningur fyrir ferð Kórsins til Ítalíu í lok júní. Kórinn tók þá þátt í kóramóti í Verona í fjóra daga en að því loknu færði hann sig yfir til Sirmione við Garda vatn, þar sem dvalið var í viku. Ana Korbar leiddi starf ferðanefndar við undirbúning ferðarinnar með stakri prýði.

Sigrún Magna Þórsteinsdóttir hélt áfram um stjórnartaumana þennan vetur. Miklar annir og þung verkefnastaða hennar varð til þess að í lok vetrar sagði hún starfi sínu lausu. Hún lauk starfi vetrarins með því að fylgja kórnum til Ítalíu um sumarið og var stjórn síðan innan handar við leit að staðgengli. Stjórn Kvennakórs Akureyrar þakkar Sigrúnu Mögnu kærlega fyrir vel unnin störf, en hún hafði farið með stjórn kórsins síðan í mars 2017. Eftir töluverða leit að nýjum kórstjóra náðist samkomulag við Valmar Väljaots sem tók að sér stjórn kórsins næsta vetur.

Kórinn hélt jólatónleika í Akureyrarkirkju að kvöldi 13. desember. Tónleikarnir voru vel sóttir og heppnuðust vel. Sem greiðsla fyrir afnot af kirkjunni söng kórinn í Bleikri messu þann 14. október.

Vortónleikar kórsins voru haldnir á mæðradaginn, þann 12. maí í Akureyrarkirkju. Kórinn söng í messu um morguninn en tónleikarnir voru svo kl. 14:00. Kvennakór Háskóla Íslands tók þátt undir stjórn Margrétar Bóasdóttur, en með kórunum léku Helena Guðlaug Bjarnadóttir á píanó, Michael Weaver á saxofón og Þorleifur Jóhannsson á slagverk. Tónleikarnir lukkuðust afar vel og eftir á var tónleikagestum boðið til kökuhlaðborðs að hætti kórkvenna.

Kórinn söng einnig við nokkur önnur tækifæri, svo sem á Ráðhústorgi á kvennafrídaginn, Glerártorgi, í Lystigarðinum, í Hofi 19. júní, í Hlíð og á Akureyrarvöku við Húna. Jaan Alavere hélt stóra tónleika í Ídölum 6. apríl í tilefni af sextugsafmæli sínu og tók kórinn þátt í þeim.

Fjáröflunarbingó með kaffiveitingum voru haldin 7. október og 24. febrúar. Undirbúningur og framkvæmd þeirra voru í höndum alt 2 og sópran 2. Þau gengu bæði vel og voru vel sótt.

Æfingahelgi var haldin 26.-28. október á Hótel Natura á Þórisstöðum á Svalbarðsströnd, þar sem kórinn æfði, gisti og hélt kvöldskemmtun. Kórnum var skipt í hópa sem undirbjuggu myndbönd með ævintýraþema, sem sýnd voru þá um kvöldið. Þá var einnig haldinn æfingadagur 2. febrúar og einnig að Þórisstöðum. Veturinn 2019-2020 munu æfingar kórsins flytjast úr Brekkuskóla í sal Menntaskólans á Akureyri.

Stjórnin hélt 9 fundi með fundargerðum yfir veturinn en hafði milli þeirra víðtækt samstarf í gegnum Facebook, tölvupóst og aðra miðla. Stjórnandi sat suma fundir stjórnar og gekk það samstarf vel.

Í lok vetrar voru 60 konur skráðar í kórinn. Fyrsti alt var fjölmennasta röddin, skipuð 20 konum. Þá voru 17 konur í sópran tvö, 13 í alt tvö og fámennasta röddin var sópran eitt með 10 konum.

Byggt á skýrslu stjórnar 2018-2019.