Sagan 2015-2016

Ný stjórn var kosin á aðalfundi 6. september 2015. Kamilla Hansen gekk úr stjórn og í staðinn kom inn Sólveig Hrafnsdóttir. Stjórnin var þannig skipuð starfsárið 2015 – 2016: Formaður Arnfríður Kjartansdóttir sópran 1, varaformaður Sólveig Hrafnsdóttir alt 1, gjaldkeri Anna Sigurðardóttir sópran 2, ritari Valdís Þorsteinsdóttir sópran 1 og meðstjórnandi og lyklapétur Þórunn Jónsdóttir alt 1. Raddformenn voru Stella Sverrisdóttir í sópran 2, Guðrún Hreindís Hreinsdóttir í alt 1 og Lilja Jóhannsdóttir í alt 2. Enginn vildi taka þetta embætti að sér í sópran 1 . Stjórnandi kórsins var Daníel Þorsteinsson.

Starf vetrarins 2015-2016 hófst með hefðbundnum hætti, auglýst var eftir nýjum söngröddum í Dagskránni og raddprufur voru haldnar fyrir fyrstu æfingu, 13 september. Æfingar voru í Brekkuskóla einu sinni í viku, á sunnudögum kl. 16:45 – 19. Nokkrar æfingar þurfti þó að færa í MA, Lón og Hlíð þegar skólinn var upptekinn.

Á kvennafrídaginn, 24. október söng kórinn um morguninn fyrir framan hús Vilhelmínu Lever. Sama dag tók kórinn þátt í tónleikum KÍTÓN í Akureyrarkirkju.

Ákveðið var að endurtaka vortónleikana Dívur og drottningar. Lagalistinn var sá sami og um vorið og aftur með einsöngvurunum Þórhildi Örvarsdóttur og Ívari Helgasyni auk meðleikaranna Aladár Rácz á píanó og Péturs Ingólfssonar á bassa. Tónleikarnir voru Hömrum í Hofi 31. október og síðan í Ýdölum daginn eftir, 1. nóvember.
Sem jólatónleika bauðst kórnum að taka þátt í jólahugvekju 13. desember í Grundarkirkju ásamt Kór Laugalandsprestakalls, en Daníel Þorsteinsson stjórnar þeim kór líka. Kirkjan var stútfull og stemmingin hátíðleg.

1. desember söng kórinn nokkur lög í jólaboði rektors Háskólans á Akureyri.

Þorrasöngur var 29. janúar í Hlíð og Lögmannshlíð í samstarfi við félaga úr Karlakór Akureyrar-Geysi. Þetta er viðburður sem er að skapast hefð á, en söngfólkið skiptir sér í minni hópa og fer á allar deildir og syngur þorralög fullum hálsi.

Æfingabúðir voru á Húsabakka helgina 27. – 28. febrúar.

Tónleikar til heiðurs Birgi Helgasyni voru haldnir í Akureyrarkirkju 3. mars, í samstarfi við þrjá aðra kóra, Hymnodiu, Karlakór Akureyrar-Geysi og Rúnarkórinn.


Á sjómannadaginn 5. júní, tók kórinn þátt í skipulagðri dagskrá á vegum Akureyrarbæjar með því að syngja í Hofi.

Starfsárinu lauk síðan með viðburðaríkri ferð kórsins til Króatíu dagana 28. júní – 6. júlí 2016. Er ekki hallað á neinn þótt nefnt sé að fararstjórinn og kórmeðlimurinn Ana Korbar stóð sig með miklum sóma í að gera ferðina sem ánægjulegasta fyrir alla. Auk kórfélaga og maka voru Daníel Þorsteinsson stjórnandi og Aðalheiður Þorsteinsdóttir píanóleikari með í för. Flogið var með beinu flugi frá Akureyri til Ljubljana í Slóveníu og þaðan ekið á hótel í Vrsar þar sem gist var allan tímann. Haldnir voru þrennir tónleikar með alls fjórum kórum heimamanna.

Að lokinni Króatíuferðinni hætti Daníel störfum sem kórstjóri 31. júlí en Sólveig Anna Aradóttur tók að sér að vera stjórnandi kórsins.

Upplýsingamiðlun til kórkvenna var með margvíslegum hætti og þótti stjórn ástæða til að ítreka að upplýsingar til kórsins finnast fyrst og fremst á heimasíðu kórsins og í tölvupósti, þ.e. fyrir þær konur sem ekki ná að mæta á allar æfingar. Facebook er umræðusíða sem ekki allar eru með í og því ekki hægt að reiða sig á áreiðanleika þeirra upplýsinga. Nótur og fleira hefur verið gert aðgengilegt í gagnabanka á googledrive.

Tölfræði: Kóræfingar á starfsárinu voru 32, æfingabúðir voru einu sinni og komu í staðinn fyrir æfingadaga. Stjórnarfundir augliti til auglitis voru 9, þar af var stjórnandi með þrisvar og umræðuþræðir í lokuðum hóp stjórnar á facebook fjölmargir.

Byggt á skýrslu stjórnar 2015-2016.