Sagan 2012-2013

Alt 2 var í skemmtinefnd starfsárið 2012-2013

 

Breyting varð í stjórn Kvennakórs Akureyrar á aðalfundi kórsins 14. maí 2012. Soffía Pétursdóttir lét af störfum sem gjaldkeri kórsins og í hennar stað kom Anna Breiðfjörð Sigurðardóttir. Skipti þessi tóku þó ekki fullkomlega gildi fyrr en í desember 2012 sökum annríkis hjá Önnu. Áfram sátu í stjórn þær Arnfríður Kjartansdóttir, Eygló Arnardóttir, Kamilla Hansen og Una Þórey Sigurðardóttir.

Starfsárið 2012 – 2013 var ansi líflegt fram í desember en þeim mun rólegra eftir áramót. Í byrjun starfsárs voru skráðar 58 konur í kórnum. Ein hætti í haust en tvær bættust við -þannig að okkur fjölgaði um eina og skráðar konur því 59.

Árlegur haustmarkaður KvAk var haldinn laugardaginn 8. september í Hlöðunni við Litla Garð hjá fyrrum stjórnanda kórsins Þórhildi Örvarsdóttur. Boðið var uppá bakkelsi og sultur og svignuðu borðin undan ýmsum varningi. Að venju var einnig boðið upp á vöfflur og kaffi sem gestir og gangandi gæddu sér á undir indælum söng kórkvenna. Nokkur hagnaður var af deginum þótt ekki gildnuðu sjóðir kórsins mikið. En viðburður sem þessi er orðinn fastur liður í upphafi starfsárs, vekur athygli á kórnum auk þess að hrista kórfélaga saman.

Fyrsta æfing haustsins var sunnudaginn 16. september í Brekkuskóla. Að þessu sinni var ekki auglýst sérstaklega eftir nýjum konum en þess getið í bæjarmiðlum að sópranraddir væru sérstaklega velkomar í kórinn. Nokkrar nýjar konur mættu  á fyrstu æfingarnar og stoppuðu mislengi en af þeim ílengdust tvær konur.

Alt 2  var í skemmtilegu nefndinni þetta starfsár. Á liðnum vetri breyttust þær öðru hvoru í afar virðulegar dömur í félagsskap sem nefndist EVERYTHING TÚ.  Þær byrjuðu með stæl 30. september og buðu hinum óæðri röddum til teboðs fyrir æfinguna sem þann dag fór fram í Lóni. Í teboðinu kynntu dömurnar ,,iðrunarlaust, stórkostlega framtíðarsýn á skemmtidagskrá komandi vetrar,, .

Akureyrar akademían óskaði eftir söng kórsins laugardaginn 13. október. Kórkonur mættu galvaskar í Gamla Húsmæðraskólann við Þórunnarstræti og sungu nokkur lög við góðar undirtektir.

Kóradagur í Hofi var haldinn laugardaginn 27. október og tók Kvennakór Akureyrar þátt í dagskránni. Daníel kórstjóri var upptekinn þennan dag og kom Eyþór Ingi Jónsson í hans stað og stjórnaði kórnum með ágætum.

Þessa sömu helgi fór fram aðalfundur Gígjunnar,  landssambands íslenskra kvennakóra, í Reykjavík. Valdís Þorsteinsdóttir ásamt formanni mættu fyrir hönd KvAk á fundinn.

Mæðrastyrkstónleikarnir voru haldnir öðru sinni í Hamraborg Hofi 25. nóvember og hófust kl 16.  Meðsöngvarar að þessu sinni voru Eyrún Unnarsdóttir og Friðrik Ómar Hjörleifsson. Hljómsveitina skipuðu, Emil Þorri á slagverk, Aladár Rácz á flygil og Stefán Daði Ingólfsson á bassa.  Heiðursgestur á tónleikum var Jóna Berta Jónsdóttir en hún lét af störfum sem formaður mæðrastyrksnefndar á árinu. Tónleikarnir fóru vel fram og var góður rómur gerður að söng kórsins. Eftir tónleikana var haldið dömulegt jólakósýkvöld á Strikinu og snæddu kórkonur og kórstjóri súpu og nutu skemmtiatriða sem dömurnar í EVERYTHING TÚ sáu um. Nú bar svo við að erfiðara gekk að afla styrkja og varð upphæðin sem mæðrastyrksnefnd fékk heldur minni en árið 2012 eða kr 350 000. Það er mikil vinna að baki svona tónleikum og orðið ljóst að ekki svarar kostnaði að halda slíka tónleika í Hamraborg.

Sunnudaginn 9. desember sungu KvAk konur fyrir heimilisfólkið í Lögmannshlíð og tóku hefðbunda æfingu á sama stað á eftir.

Kórinn þátt í aðventutónleikum Karlakórs Eyjafjarðar sem fram fóru í Laugarborg 13. desember.  Ásamt fyrrrnefndum kórum tók Kirkjukór Laugalandssóknar þátt í tónleikunum. Þetta var hin besta skemmtun og virkilega gaman.

20. janúar 2013 hófust æfingar að nýju. Nýtt prógramm leit dagsins ljós, gamalt og nýtt í bland með fjölbreytni í fyrirrúmi.

Föstudaginn 1. febrúar söng  kvennakórinn ásamt Karlakór Akureyrar á þorrablóti í Hlíð og var þetta annað árið í röð sem kórarnir sameinuðust af þessu tilefni.

Vorfagnaður KvAk var haldinn í Pakkhúsinu, Hafnarstræti 19, föstudaginn 5.apríl. Það voru hinar hinar háæruverðugu dömur í EVERYTHING TÚ sem stóðu fyrir fagnaðinum og verður þessi skemmtun lengi í minnum höfð. Þemað var Indverskt, matur og búningar í samræmi við það.

Kórfundur var haldinn á undan æfingunni  7. apríl. Upphaflega átti að halda fundinn á haustönn en sökum ýmissa uppákoma frestaðist hann. Arnfríður Kjartansdóttir hafði veg og vanda af skipulagningu fundarins. Rætt var í hópum um fyrirfram ákveðin málefni er þóttu vera ofarlega í huga kórkvenna. Fundurinn þótti takast vel. Niðurstöður voru kynntar í lok fundarins og hefur stjórn einnig haft þessar niðurstöður til athugunar og lærdóms.

Á æfingunni 21. apríl sungum við óformlega fyrir heimilsfólk Hlíðar, þ.e. án stjórnanda, en   Þórunn Jónsdóttir sá um undirleik á gítar.  Þórhildur Örvarsdóttir sá um æfinguna í fjarveru Daníels og fór ítarlega i raddbeitingu.

Fjölumdæmis- þing Lionshreyfingarinnar á Íslandi var haldið í Hofi  helgina 10. -12. maí og söng kvennakórinn nokkur lög á lokahófi þingsins. Það var ágætis æfing fyrir vortónleikana síðar í mánuðinum.

Vortónleikar kórsins fóru fram helgina 25. – 26. maí. Laugardaginn 25.maí voru haldnir tónleikar í Blönduóskirkju og óku kórkonur til Blönduóss með rútu. Á leið vestur var stoppað í Varmahlíð og sungin nokkur lög fyrir gesti og gangandi. Fámennt en góðmennt var á tónleikunum á Blönduósi en söng kórsins var vel tekið af áheyrendum. Eftir tónleika var komið við á Heilbrigðisstofnuninni á Blönduósi og sungið fyrir heimilisfólkið þar. Að því loknu var snæddur kvöldverður á veitingastaðnum Pottinum. Undir borðum var slegið á létta strengi og létu dömurnar í EVERYTHING TÚ formlega af störfum í skemmtinefnd.  Daginn eftir eða sunnudaginn 26. maí hélt kórinn seinni tónleika sína í Hömrum Hofi. Þeir tónleikar tókust mjög, þeir voru teknir upp og gátu kórkonur fengið CD diska með þessum upptökum á kostnaðarverði.

Æfingadagar voru tveir á áætlun samkvæmt venju. Sá fyrri átti að vera 3. nóvember en endaði sem löng æfing 18.nóv. sökum veðurs og veikinda. Seinni æfingadagurinn var 2. mars og gekk samkvæmt áætlun. Jaan Alavere var Daníel til aðstoðar á seinni æfingadeginum og reyndist sú tilhögun vel. Sem fyrr var æft í Valsárskóla og notið staðgóðra veitinga hjá Kvenfélagi Svalbarðsstrandar.

Fjármál. Fjáraflanir voru í lágmarki. Haustmarkaðurinn  og sala á uppskriftabókinni voru einu fjáraflanir kórsins á árinu. Samningur náðist við Akureyrarbæ um aukinn styrk, er hann nú sambærilegur við styrk til KAG og samið var til þriggja ára. Norðurorka veitti styrki til samfélagsverkefna í ársbyrjun og fékk KvAk styrk upp á kr 150.000.-

Nefndastörf gengu ágætlega, allar nefndir voru mannaðar nema tónleikanefnd.  Eins og á síðast ári hefur verið lögð mikil og góð vinna í kynningar og auglýsingar.

Heimasíðan hefur verið í uppfærslu. Sú vinna hefur gengið hægt en örugglega. Formaður fundaði með völdum konum um samræmingu á nefnda og starfslýsingum á heimasíðu.

Kórpési fæddist á starfsárinu. Móðir hans og hugmyndasmiður er Madda (Margrét Einarsdóttir) í alt 2.  Pési er mesta þarfaþing og ætti að vera staðalbúnaður í tösku hverrar kórkonu. Í Pésa er að finna allar helstu upplýsingar um kórinn, auk netfanga og símanúmera kórkvenna.

Æfingastöðum kórsins hefur fjölgað. Eins og áður þurftum við stundum að víkja úr Brekkuskóla vegna uppákoma þar. Við höfum fengið inni í öldrunarheimilum Akureyrar og greitt fyrir greiðann með söng. Svo njótum við enn velvildar KAG, Karlakórs Akureyrar-Geysis. Í vetur höfum við sungið í Lóni, Hlíð, Lögmannshlíð, Laugarborg og nú síðast í MA.

Fundir stjórnar hafa verið allnokkrir á árinu eða alls 12.  Minna fór fyrir fundum með nefndum en formaður og stjórn voru í ágætum samskiptum við nefndarkonur.

Landsmót íslenskra kvennakóra verður haldið á vordögum 2014 og í vetur var landsmótsnefndin komin á fullt við að vinna að undirbúningi þess.