Desember

Ljóð: Petra Björk Pálsdóttir og Þórarinn Hjartarson. Lag: Petra Björk Pálsdóttir

Er dimma fer í desember
dagur styttist enn,
þá hugsa ég um hátíð er
halda munum senn,
ég kveiki öllum kertum á
og kökur geri flott,
og hangikjötið hugsa’ um þá
og hendi því í pott.

En gjöfum ekki gleyma má,
ég gef þeim sem ég vil,
því allir fallegt eitthvað fá,
það besta sem er til (er til).
Og jólaklukkur klingja um ból,
þá komin eru jól.

Er dimma fer í desember
dagur styttist enn,
þá hugsa ég um hátíð er
halda munum senn.
Ég set upp eina seríu
og söngla jólalag
og þeytist um með þvottaklút
á Þorláksmessudag.

Þá jólaljósin lýsa mér
ég læt mig dreyma um það,
að glampi þeirra gefi mér
þá gleði í hjartastað (í hjartastað).
Við sálma munum syngja
og segjum heims um ból.