Breyttur söngur

Ljóð: Hulda.  Lag: Þóra Marteinsdóttir.

Uppi’ í brekku Litli-lækur
lék og söng og hló;
fyrir blóm og bláa steina
bylgjugígju sló.

Söng um vor er von og yndi
vakti sólin góð,
en í kvöldsins kyrrð og blíðu
kvað hann vögguljóð.

Söng um barna ljúfa leiki,
litla bæinn minn.
Sætar, glaðar sæluvonir
söng í hugann inn.

Og hann syngur og hann líður
enn hinn sama stig;
en — uppi’ í brekku Litli-lækur
ljóðar nú um þig.