Betlikerlingin

Ljóð: Gestur Pálsson. Lag: Sigvaldi S. Kaldalóns. Úts. Jan Móravek

Hún hokin sat á tröppu, en hörkufrost var á
og hnipraði sig saman, uns í kuðung hún lá
og kræklóttar hendurnar titra til og frá
um tötrana að fálma, sér velgju til að ná.
Og augað var sljótt sem þar slokknað hefði ljós
í stormbylnum tryllta um lífsins voða ós.
Það hvarflaði glápandi, stefnulaust og stirt,
og staðnæmdist við ekkert, svo örvæntingarmyrkt.

Á enni sátu rákir og hrukka hrukku sleit,
þær heljarrúnir sorgar, sem enginn þýða veit.
Hver skýra kann frá prísund og plágum öllum þeim,
sem píslarvottar gæfunnar líða hér í heim?
Hún var kannski perla, sem týnd í tímans haf
var töpuð og glötuð, svo enginn vissi af,
eða gimsteinn, sem forðum var greyptur láns í baug,
en glerbrot var hún orðin á mannfélagsins haug.