Akureyri

Lag: Birgir Helgason. Ljóð: Jón Sigurðsson, ljósmyndari á Akureyri

Þú ríst sem drottning innst við Eyjafjörðinn
vor Akureyri, prýði Norðurlands.
Að vestan þýð þér brosir blómajörðin
en bárur austan leggj’a að fótum krans.
Þig sveipar gulli sumarnóttin fríða,
er sólin eldrauð kyssir þína vör
og höfn þín fögur býður gisting blíða
í björtum örmum ránar þreyttum knör.

Þú gulli stöfuð ætíð áttu’að vera
um aldir fram, með fagurbúin torg.
Lát merkið hreint og hátt við Súlur bera
og hvetja lýð til starfa’ í þinni borg.
Og gerðu börn þín sterk í lífsins stríði
og stattu frjáls við Ægiskonungs láð
og vertu Norðurlandsins ljós og prýði
í listum, fegurð, andans mennt og dáð.