Af álfum

Af álfum
Lag og texti: Karl Olgeirsson. Úts.: Heiðar Sigurðsson

Ferðalangur í fögrum mó
með skotthúfuna og mjóa skó.
Bráðum skellur á húmið grátt,
vita máttu að hug minn átt,
þú hug minn átt,
þú hug minn átt.

Fennir ofan í farinn veg,
ofankoman er ægileg,
en þér er borið það í blóð
að finna aftur týnda slóð,
týnda slóð, já,
týnda slóð.

Þegar ljósin dofna heimi í,
þegar jörðin nötrar af þrumugný,
þá mun lýsa upp gegnum myrkvaský
fagurt stjarnanna regn.

Ó, um álfabyggð,
í gegnum bergrisanna rann,
ó, hátt um fögur fjöll
fer kveðjan mín
frá hulduheimum til þín.

Ekki ertu með klæðin dýr,
heldur virðist þinn kostur rýr,
en enginn máttugri krafta ber
en þá sem þú berð í hjarta þér,
í hjarta þér,
í hjarta þér.

Ó, um álfabyggð…
Ferðalangur í fögrum mó
með skotthúfuna og mjóa skó.
Þú hverfur mínum sjónum brátt,
en vita máttu að hug minn átt,
þú hug minn átt, þú hug minn átt.