Ættjarðarkvæði

Ljóð: Þorsteinn Gylfason. Lag: Þorvaldur Gylfason.
Tileinkað Vigdísi Finnbogadóttur

Þú siglir alltaf til sama lands
um svalt og úfið haf.
Þótt ef til vill sértu beggja blands
og brotsjór á milli lífs og grands,
þú kynnir að komast af.

Ef landið eina er landið þitt
er leiðin firna ströng.
Það marar í hafi með hrímfjall sitt
og hengingarklett og útburðarpytt.
Og saga þess sár og löng.

Samt skeytirðu ekki um önnur lönd
í einangrun tryggðabands.
Þótt bryddi á ísum við innstu rönd
þú siglir án afláts með seglin þönd
til sama kalda lands.