Sagan 2003 – 2004

Þegar kom fram í júlí 2003 kom í ljós að Björn Leifsson, stjórnandinn okkar ráðgerði að flytja úr bænum og því þurfti nú að huga að því að útvega nýjan stjórnanda. Eftir nokkrar eftirgrennslanir varð það úr að Þórhildur Örvarsdóttir tæki kórinn að sér.

12 stjórnarfundir voru haldnir á árinu. Fyrsti stjórnarfundur var haldinn 14. ágúst til að undirbúa vetrarstrafið en alls eru stjórnarfundir orðnir 12, ýmist haldnir á Bláu könnunni eða í heimahúsum.

Fyrsta æfingin haustið 2003 var sunnudaginn 14. september í sal Brekkuskóla.
Æfingadagur var haldinn í Laugaborg 15. nóvember og annar æfingadagur 7. febrúar á sama stað. – Helga Haraldsdóttir mætti í hléi og kenndi okkur smávegis í Yoga við mikla hrifningu.

Í desember voru sungin jólalög í Dvalarheimilinu Hlíð og í verslunarmiðstöðinni Sunnuhlíð og þann 4. desember varð það nýmæli hjá kórnum að haldnir voru tónleikar til styrktar Mæðrastyrksnefnd Akureyrar. Við fengum okkur til liðsinnis Karlakór Akureyrar-Geysi og Stúlknakór Akureyrarkirkju. Allur kostnaður við tónleikana, bæði hvað snerti húsnæði og tónlistarfólk var felldur niður og rann innkoman kr. 269 þúsund óskipt til Mæðrastyrksnefndar.

Sótt var enn um styrk frá Menningarmálanefnd Akureyrarbæjar og fengum við 75 þúsund krónur. Einnig sóttum við um styrk til Menningarsjóðs KEA en fengum ekkert að því sinni.

Sungið var á þorrablóti á Dvalarheimilinu Hlíð á Þorranum.

Ákveðið var að fara í tónleikaferð til Slóveníu sumarið 2005 og reyna að safna einhverjum peningum upp í ferðakostnaðinn. Auglýst var eftir konum til að standa fyrir fjáröflun fyrir ferðina. Eygerður Þorvaldsdóttir gaf sig fram og fékk með sér nokkrar konur og störfuð þær ötullega að málinu.

Tónleikarnir okkar voru haldnir í Glerárkirkju að þessu sinni þann 20. mars og tókust þeir vel. Undirleikarar voru Eyþór Ingi Jónsson á píanó og Snorri Guðvarðsson á gítar. Við fengum heldur færri áhorfendur en árið áður en þó um 130.
Sama kvöld var haldin 1. árshátíð kórsins. Tókst hún í alla staði mjög vel og skemmtum við okkur fram eftir nóttu í „Alþýðuhúsinu gamla” eða „Húsi aldraðra” við ýmis skemmtiatriði, söng og dans.

Sungið var í Borgarbíó á hátíðisdegi verkalýðsins 1. maí. Einnig sungum við á Myndlistarsýningu í Landsbankanum á Akureyri þar sem fjórar listakonur voru að opna sýningu á verkum sínum og er ein af þeim, Halla Gunnlaugsdóttir, félagi í kórnum.

Vorferðin að þessu sinn var tónleikahald á Blönduósi ásamt Karlakór Akureyrar – Geysi þann 21. maí. Sungið var í Blönduóskirkju, kórarnir sitt í hvor lagi og svo saman. Tónleikarnir voru sæmilega sóttir að sögn heimamanna eða um 40 manns. Á eftir komu svo kórarnir saman í félagsheimilinu og fengu þar súpu og salat frá veitingahúsinu Árbakkanum. Sungið var og trallað við undirleik þeirra Eyþórs Inga og Snorra þar á eftir en síðan haldið heim á leið í ausandi rigningu og roki.

Kórinn söng einnig við messu í Akureyrarkirkju sunnudaginn 9. maí, tókst það í alla staði mjög vel og síðan sungu um það bil 20 konur á aðstandendadegi í Hjúkrunarheimilinu Seli þann 8. maí. Þar með lauk starfsárinu 2003-2004.