Vetrarstarfið hófst 1. september en þá var haldinn markaður að Marki í Eyjafjarðarsveit og tókst hann með eindæmum vel. Nú skyldi tekið hraustlega til hendinni, utanlandsferð næsta sumar og því augljóst að bretta þyrfti upp ermar í fjáröflun. Einnig var stefnan tekin á geisladisksupptöku um vorið.
Æfingar hófust síðan 9. september og voru sem fyrri ár í Brekkuskóla.
Þegar ákvörðun hafði verið tekin um að ráðast í upptöku á geisladiski var ákveðið að taka sönginn föstum tökum. Heimir Ingimarsson var fenginn til að koma og vera með raddæfingar og samhliða því var boðið upp á tónfræðikennslu og fór þetta fram í október og nóvember. Einnig var talsvert um það að aukaæfingar væru haldnar á fimmtudögum, allt til að tryggja það að tónaflóðið hljómaði sem best mætti vera.
Hinir árlegu jólatónleikar til styrktar Mæðrastyrksnefnd voru haldnir 1. desember í Glerárkirkju. Að þessu sinni voru fengin til liðs við okkur Gospelkór Akureyrar ásamt Sigurði Ingimarssyni og einmig fluttu börn úr Brekkuskóla atriði úr söngleiknum “Kraftaverk á Betlehemstræti”.
Jólagleði kórsins var síðan haldin í lok síðustu æfingar fyrir jólafrí þann 13. desember í Brekkuskóla. Að vanda var glatt á hjalla.
Æfingadagar starfsársins voru 3 að þessu sinni. Sá fyrsti var haldinn 17. nóvember í Brekkuskóla, annar þann 23. febrúar í Valsárskóla á Svalbarðseyri og sá þriðji 15. mars í Brekkuskóla.
Fundir stjórnar á starfsárinu voru 10 auk nokkurra annarra funda með hinum ýmsu nefndum kórsins.
Í byrjun apríl var ákveðið að sletta aðeins úr klaufunum og var komið saman til að spila keilu eina kvöldstund og varð þetta hið skemmtilegasta kvöld.
Með vorinu var síðan komið að stóru stundinni, 24.-27. apríl streymdu konur í Laugarborg til fundar við Didda fiðlu til að taka upp geisladisk. Þetta var stórkostleg helgi sem tókst með ágætum. Geisladiskurinn Sólardans á vori leit svo dagsins ljós í júlí 2008.
Kórinn tók að sér að syngja á Seli í apríl og gekk það vel, einnig við messu í Akureyrarkirkju á Sjómannadaginn 1. júní. Í júlí söng kórinn við tvö brúðkaup í Akureyrarkirkju.
Vortónleikarnir voru haldnir í Akureyrarkirkju 4. maí. Þar nutum við liðsinnis Jaan Alavere frá Eistlandi sem spilaði undir fyrir okkur á píanóið. Tónleikarnir fengu góðar viðtökur og sagt var að kórinn hefði tekið miklum framförum frá síðasta ári. Þar kom til dugnaður kórkvenna enda var mikil vinna lögð í söngstarfið þennan vetur og því gott að heyra að það hafði borið árangur.
Fjáraflanir voru nú öflugri en áður og óhætt að segja að kórkonur hafi sýnt mikinn dugnað við þær. Hefðbundnar fjáraflanir eins og jólakortasala og söfnun styrktarlína fyrir kórinn tókust mjög vel. Kórinn hélt 3 kökubasara á Glerártorgi, 10. nóvember, 7. mars og 2 apríl þar sem vel safnaðist í hvert skipti. Einnig sýndu konur mikinn dug þegar kórinn tók að sér að sjá um kaffið í Sjallanum í tilefni af 1. maí hátíðarhöldum og haft var á orði að sjaldan eða aldrei hefðu veisluföng þar verið glæsilegri.
Rúsínan í pylsuendanum þetta starfsárið var svo Eistlandsferðin. Lagt var af stað frá Akureyri með rútu föstudagskvöldið 20. júní og komið aftur heim að kvöldi 28. júní.
Hópurinn sem fór var 74 manns, þ.e. söngstjórinn, Arnór B. Vilbergsson og frú, kórfélagar og nokkrir makar þeirra, en undirleikarinn og fararstjórinn Jaan Alavere var farinn á undan til síns heimalands. Dagbók úr ferðalaginu má sjá hér.