Í vetur hefur kórinn haft tvær öflugar konur sem stjórnendur. Frá hausti og fram til 1. mars var það hún Sóla og síðan hún Sigrún Magna og hafa þær séð um að þjálfa okkur fyrir landsmót íslenskra kvennakóra og fleiri verkefni vetrarins.
Myndir og texti um Sólu má sjá hér og Sigrúnu hér.
Gígjan, landssamband íslenskra kvennakóra stendur fyrir landsmóti á 3ja ára fresti. Skemmst er þess að minnast að vorið 2014 var landsmótið haldið hér á Akureyri.
Að þessu sinni verður mótið haldið á Ísafirði 11. -13. maí og hefur Kvennakór Ísafjarðar veg og vanda af framkvæmd þess.
Mikil eftirvænting er hjá okkur í Kvennakór Akureyrar og munum við leggja land undir fót snemma morguns þann 11. maí og koma heim aftur að kvöldi 14. maí.
Dagskráin samanstendur af æfingum í smiðjum, sameiginlegum æfingum og tónleikum þar sem kórarnir koma fram með sína dagskrá svo og með sameiginlegum afrakstri úr smiðjunum.
Lokatónleikarnir verða á laugardeginum 13. maí og dagskránni lýkur síðan með hátíðarkvöldverði og mótsslitum.