Miðasala hafin á Hátíðartónleika Landsmóts kvennakóra

Miðasala er nú hafin á Hátíðartónleika Landsmóts kvennakóra sem haldnir verða sunnudaginn 11. maí í Hofi.

Miða á tónleikana má nálgast á vefsíðu Hofs  eða á midi.is

Landsmót íslenskra kvennakóra verður haldið á Akureyri dagana 9. – 11. maí og sér Kvennakór Akureyrar um skipulagningu mótsins. Yfir 700 konur úr 20 kórum víðsvegar af landinu og einum frá Noregi taka þátt í mótinu. Dagskráin er vegleg og skemmtileg þannig að allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.

Sunnudaginn 11. maí kl. 15:00 verða stórtónleikar í Hamraborg og munu konurnar skipta sér í sex söngsmiðjur sem hver flytur þrjú lög. Allir þátttakendur landsmótsins mynda síðan einn stóran kór við undirleik hljómsveitar undir stjórn okkar ástsæla Guðmundar Óla Gunnarssonar, stjórnanda Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands. Þá frumflytur stórkórinn landsmótslagið  ásamt því að syngja þrjú önnur lög. Hugi Guðmundsson tónskáld samdi landsmótslagið að þessu sinni við ljóð Jakobínu Sigurðardóttur, Vor í Garði.

Söngsmiðjurnar eru fjölbreyttar og höfum við fengið hæfileikaríkt tónlistarfólk til að stjórna þeim.

Gígjusmiðja undir stjórn Sigrúnar Mögnu Þórsteinsdóttur, organista Akureyrarkirkju en þetta eru lög úr fórum kvennakórsins Gígjunnar á Akureyri og Jakobs Tryggvasonar.

Madrigalasmiðja undir stjórn Michael Jóns Clarke, söngvara og söngkennara við Tónlistarskólann á Akureyri.

Norræn kvennakóralög undir stjórn Ingibjargar Guðjónsdóttur, söngkonu og kórstjóra Kvennakórs Garðabæjar.

Rokksmiðja undir stjórn Sigríðar Eyþórsdóttur, kórstjóra Íslenska kvennakórsins í Kaupmannahöfn.

Spunasmiðja undir stjórn Eyþórs Inga Jónssonar, organista í Akureyrarkirkju.

Þjóðlagasmiðja undir stjórn Guðmundar Óla Gunnarssonar, stjórnanda Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands og tónlistarstjóra Íslensku óperunnar.