Landsmóti íslenskra kvennakóra lauk á sunnudag

Landsmótstónleikar í Hofi 2014

Gígjan, landssamband íslenskra kvennakóra, stendur fyrir landsmótum á þriggja ára fresti. Nú um helgina 9.-11. maí var níunda landsmótið haldið á Akureyri. Kvennakór Akureyrar fékk það hlutverk fyrir þremur árum á Selfossi að sjá um skipulagningu og framkvæmd þessa móts. Tuttugu kvennakórar víðsvegar að af landinu komu til þátttöku og einn gestakór, Vox humana kom frá Mandal í Noregi. Það voru því á áttunda hundrað konur sem settu sterkan svip á bæjarlífið á Akureyri þessa helgi og söngurinn ómaði um bæinn.

kirkjutroppurMótið var sett á föstudegi í Menningarhúsinu Hofi en að afloknum kvöldverði í Íþróttahöllinni hélt allur skarinn niður í kirkjutröppur þar sem sungið var ljóðið Akureyri – Norðrið fagra eftir Stefán Vilhjálmsson við lag Jóns Ásgeirssonar við Maístjörnuna.  Að því loknu var haldið í miðbæinn þar sem nemendur úr Tónlistarskólanum skemmtu með söng og spili. Næst var safnast saman í Skátagili þar sem Anna Richardsdóttir framdi einn af sínum frægu gjörningum fyrir landsmótskonurnar. Þá var komið að einu atriðinu enn í þessari ferð um miðbæinn, gangan flæddi niður að Hofi, konurnar mynduðu hring um Hof, reyndar var hringurinn tvöfaldur og svo var Hofið umfaðmað af öllum þessum konum. Þar var svo dvalið um stund við veitingar og söng.

hof_umfadmÁ laugardeginum tók alvaran við. Unnið var í sex söngsmiðjum, sem hver hafði sitt þema með þremur lögum og dreifðust smiðjurnar víðs vegar um bæinn. Þar blönduðust þá nokkrir kórar saman í hverja smiðju og var fjöldinn í hverri smiðju um og yfir 100 manns. Við tóku þrotlausar æfingar ýmist í smiðjunum eða þá að þær sameinuðust í einn stóran kór sem æfði 4 lög.
Á laugardeginu var gert hlé á æfingum og þá voru haldnir tónleikar bæði í Hamraborg og í Hömrum í Hofi þar sem hver þátttökukór flutti nokkur lög af sínu eigin programmi. Um kvöldið var hátíðarkvöldverður í Íþróttahöllinni þar sem sr. Hildur Eir stjórnaði veislunni af sinni alkunnu snilld, Vox Humana frá Noregi söng fyrir hátíðargesti og voru hreint frábærar. Óskar Pétursson og Snorri Guðvarðsson skemmtu og hljómsveitin Einn og sjötíu lék fyrir dansi. Af og til var svo brugðið upp útsendingu frá Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva og líklega hefur þetta verið stærsta Eurovision-partý landsins.

Á sunnudeginum hófust æfingar kl 9 og áfram haldið með æfingar í smiðjum og í sameiginlegum kór. Afraksturinn var svo fluttur í Hamraborginni í Hofi kl. 15:00. Þar komu fram:
Gígjusmiðja, stjórnandi Sigrún Magna Þórsteinsdóttir; Madrigalasmiðja, stjórnandi Michael Jón Clarke; Norræn kvennakóralög, stjórnandi Ingibjörg Guðjónsdóttir; Rokksmiðja, stjórnandi Sigríður Eyþórsdóttir; Spunasmiðja, stjórnandi Eyþór Ingi Jónsson; Þjóðlagasmiðja, stjórnandi Guðmundur Óli Gunnarsson; Sameiginlegur kór, stjórnandi Guðmundur Óli Gunnarsson, sem einnig stjórnaði hljómsveit skipaðri félögum úr Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og kennurum úr Tónlistarskólanum á Akureyri. Fyrir hvert landsmót er samið við tónskáld um að semja sérstakt landsmótslag. Að þessu sinni varð Hugi Guðmundsson fyrir valinu og var lag hans við texta Jakobínu Sigurðardóttur, Vor í garði frumflutt á tónleikunum.

hatidartonleikarAð afloknum vel heppnuðum hátíðartónleikum voru mótsslit þar sem Una Þórey formaður Kvennakórs Akureyrar þakkaði mótsgestum fyrir komuna og mótsstjóri Margrét Bóasadóttir, stjórnendur og þátttökukórar fengu þakklætisvott fyrir afar vel unnin og vönduð störf. Formaður norska gestakórsins ávarpaði samkomuna á íslensku og þakkaði móttökurnar. Einnig fengu þær Snæfríð, Anna og Hólmfríður í landsmótsnefndinni verðskuldaðar þakkir fyrir frábært skipulag og alla yfirumsjón með mótinu. Formaður Gígjunnar, Þórhildur G. Kristjánsdóttir, þakkaði Kvennakór Akureyrar fyrir mótshaldið og mótttökurnar og afhenti síðan Kvennakór Ísafjarðar boltann, næsta landsmót íslenskra kvennakóra verður því haldið á Ísafirði vorið 2017.  Að þessu loknu  um kl. 18:00 var boðið upp á léttar veitingar og hélt síðan hver til síns heima og sumir um langan veg.

Kvennakór Akureyrar með Daníel Þorsteinsson í broddi fylkingar, þakkar kærlega og af öllu hjarta öllum sem tóku á einhvern hátt þátt í því að gera þetta landsmót sem veglegast.
Bautanum á Akureyri viljum við þakka fyrir dásamlegan mat alla helgina og héðan fór enginn svangur. Starfsfólk Hofs fær einnig okkar innilegustu þakkir fyrir frábæra þjónustu og aðstoð og það var mikil upplifun fyrir kórkonur að fá að syngja í þessu flotta menningarhúsi.
Kórkonur voru myndaðar í bak og fyrir alla helgina og heiðurinn að þeim myndum eiga þær ÁLFkonur Linda Ólafsdóttir og Helga Gunnlaugsdóttir.
Mótsstjóra og þátttökukórum, þá sérstaklega Kvennakórnum Sölku á Dalvík, er þakkað fyrir þeirra hlut til að gera þetta landsmót að skemmtilegum, litríkum og gefandi viðburði. Kórstjórum, söngsmiðjustjórum og hljóðfæraleikurum er einnig þakkað fyrir dásamlega samveru um helgina.
Minningin um ykkur öll og frábæra söngveislu lifir!

Fleiri myndir frá landsmótinu má sjá hér