Hópefli að Húsabakka

Samhentar konur í hópeflinu.

 

Starfsemi kórsins fór vel af stað í haust og að þessu sinni var ákveðið að byrja á því að hrista hópinn saman og bjóða nýjar konur sérstaklega velkomnar. Í því skyni var efnt til hópferðar að Húsabakka í Svarfaðardal föstudaginn 20. sept og gist þar í eina nótt. Áður höfðu kórfélagar í um það bil 8 manna hópum tekið þátt í leik sem byggðist á því að hittast, leysa einhver verkefni saman og safna með því stigum. Verkefnin voru mynduð og send inn til dómara og á Húsabakka voru síðan birt úrslit og haldin myndasýning.  Landsmótsnefnd fyrir Landsmót kvennakóra sem haldið verður í maí kynnti tilhögun og verkefni fyrir undirbúning mótsins. Að síðustu komu tveir vaskir Dalvíkingar og tóku fyrir hópefli með alls kyns æfingum og leikjum undir berum himni.  Ferðin tókst afar vel og komu kórfélagar til baka með bros á vör og vel undirbúnir fyrir fyrstu söngæfinguna þann 22. september.