Saga kórsins og verkefni hans starfsárið 2010-2011
Við upphaf starfsársins 2010-2011 gengu úr stjórn þær Hafey Lúðvíksdóttur og Ragnhildur Ingólfsdóttir og í þeirra stað voru þær Una Þórey Sigurðardóttir og Una Berglind Þorleifsdóttir boðnar velkomnar í nýja stjórn ásamt Snæfríð Egilson, Ásdísi Stefánsdóttur og Soffíu Pétursdóttur.
Starfsemi haustsins hófst með markaði í Hlöðunni við Hamra og var hann haldinn þann 11. september. Þar var mikið um góðgæti og föt og ýmsa muni og „kór“ kvennakórsins söng nokkra slagara fyrir gesti og gangandi sem gæddu sér á indælis vöfflum og kaffi.
Fyrsta æfing starfsársins var 5. September 2010. Ekki var auglýst sérstaklega eftir nýjum konum en nokkrar konur komu þó til liðs við kórinn og voru um 60 konur í kórnum, þar af fjórar sem voru í fríi. Æfingarnar voru haldnar sem fyrr í Brekkuskóla nema þegar víkja þurfti fyrir annarri starfsemi þar, þá var æft í Lóni, í Hömrum og í Hlíð.
Æfingardagar kórsins voru tveir á starfsárinu, sá fyrri var haldinn í Valsárskóla þann 2. október 2010. Þangað kom Margrét Bóasdóttir og var með fræðslu og leiðbeiningar um það sem betur mætti fara. Þetta var sannarlega frábær dagur með fullt af nýjum hugmyndum og lærdómi . Síðari æfingardagurinn var svo haldinn í Stórutjarnaskóla þann 2. apríl, þar var æft frá klukkan 09:00 til að verða hálf sexog kröftunum eytt í að æfa landsmótslögin, enda stutt í Landsmót kvennakóra á Selfossi. Þessir æfingardagar hafa skipt mjög miklu og alltaf verið lærdómsríkir og skemmtilegir.
Kóradagur í Hofi var haldinn í Hofi þann 23. október þar sem kórar af Norðurlandi Eystra tóku þátt og sungu allan daginn í Hamraborg. Þetta var einstaklega skemmtileg hugmynd og er á döfinni að viðhalda þessu sem hefð, enda tókst dagurinn einstaklega vel.
Áætlað var að fara í haustferð á Siglufjörð á haustdögum, og hafði ferðanefndin skipulagt góða ferð þangað með stoppi í Kalda og á söfnum. Veðurspáin var okkur frekar óhliðholl og var því ákveðið að hafa haustskemmtun á Vélsmiðjunni í „boði“ ferðanefndar í stað haustferðar. Mæting var afar góð og maturinn var „geggjaður“ og boðið var upp á ýmis skemmtiatriði sem bæði kórkonur og puntstrá sáu um.
Okkar árlegu Styrktartónleikar fyrir mæðrastyrksnefnd, voru haldnir þann 21. Nóvember 2010 og að þessu sinni með aðstoð Æskulýðskórs Glerárkirkju undir stjórn Olgu Ásrúnar Stefánsdóttur. Tónleikarnir tókust vel, en aðsókn með minna móti.
Þann 5. desember voru haldnir jólatónleikarí Þorgeirskirkju í Ljósavatnsskarði og þar var tekið á móti okkur með kaffi og meðlæti. Á þessum tónleikum söng Eyrún Unnarsdóttir mezzósópran nokkkur lög með kórnum, alveg frábær söngkona þar á ferð. Tónleikarnir tókust einstaklega vel og þar var frumflutt jólalagið Jólin sem Jaan Alavere hafði tileinkað kórnum við ljóð eftir Anítu Þórarinsdóttur. Eftir tónleika var svo farið í kaffi á Fosshóliog kíkt á markaðsvörur og piparkökuhús.
Árleg litlu-jól voru haldin í Brekkuskóla þann 12. desember í framhaldi af æfingu. Það mættu því miður ekki sérstaklega margar, en skemmtu sér engu að síður vel.
Síðasta verkefnið á árinu 2010 var svo söngur í miðbænum eftir beiðni frá Akureyrarstofu. Sungin voru nokkur lög fyrir framan Bláu könnuna í kulda og trekki, en tókst bara ágætlega og puntstráin hvöttu kórinn vel og vandlega til dáða.
Fyrsta æfing eftir áramót var haldin 9. janúar og tekist á við gömul og ný lög. Ákveðið var að halda tónleika á Góunni og því var tíminn vel nýttur til að æfa þau lög sem sungin yrðu þar.
GoRed dagur var haldinn á Hótel Kea þann 20. febrúar á konudaginn sjálfan og þar voru tekin nokkur valin lög í lok dagskrár. Þetta var í annað skipti sem kórinn tók þátt í þessu átaki til að vekja athygli á hjarta- og æðasjúkdómum kvenna.
Góutónleikar voru haldnir í Hofi þann 5. mars í salnum Hömrum og Eyrún Unnarsdóttir söng einsöng í nokkrum lögum. Þessir tónleikar voru með svolitlu breyttu sniði, þar sem inn á milli laga voru sagðar stuttar sögur og farið með ljóð tengd konum og góunni. Þessir tónleikar tókust einstaklega vel og var gerður góður rómur að söng og bundnu máli. Eftir tónleika var snæddur kvöldverður á Vélsmiðjunni.
Að loknum þessum tónleikum tóku við stífar æfingar og nú tekist á við að æfa fyrir vortónleika og 8. landsmót íslenskra kvennakóra. Okkar þema varóperukórar og nú þurfti m.a. að takast á við að syngja á ítölsku og þýsku.
Svo var komið að því, Landsmót Kvennakóra á Selfossi helgina 29. Apríl – 1. Maí. Þátttaka frá Kvennakór Akureyrar var einstaklega góð, en 46 konur ásamt Daníel bjuggust til ferðar um hádegi á föstudegi og komu heim seint á sunnudagskvöldi. Tókst ferðin og mótið með eindæmum vel og allar voru þreyttar en ofurglaðar með góða ferð, upplifun og mikinn lærdóm. Kórinn fékk svo það hlutverk að halda næsta landsmót á Akureyri árið 2014. Frétt um ferðina má sjá HÉR.
Aðalfundurvar haldinn í Brekkuskóla 11. maí. Þá urðu talsverð umskipti í stjórninni þar sem formaðurinn Snæfríð Egilson lét af störfum, einnig varaformaður Ásdís Stefánsdóttir og meðstjórnandinn Una Berglind Þorleifsdóttir. Í stað þeirra komu Arnfríður Kjartansdóttir, Eygló Arnardóttir og Kamilla Hansen, en áfram sátu Soffía Pétursdóttir og Una Þórey Sigurðardóttir.
Í undirbúningsnefnd fyrir landsmót kvennakóra 2014 voru kjörnar: Snæfríð Egilson, Anna Breiðfjörð og Hólmfríður Þorsteinsdóttir. Afmælisnefnd vegna 10 ára afmælis kórsins var skipuð og í hana völdust: Helga Sigfúsdóttir, Helga Gunnlaugsdóttir, Inga Margrét Ólafsdóttir, Eygló Arnardóttir og Sóley Sturludóttir .
Fundir stjórnar ásamt fundum með nefndum voru 12 á á árinu. Stjórnin fór í vinnuferð í Illugastaði þar sem m.a. var gerð „starfslýsing“ fyrir hverja nefnd sem verður aðgengileg á heimasíðu kórsins.
Vortónleikar voru haldnir í Laugaborg 22. maí og einsöngvari var Eyrún Unnarsdóttir, þar sem prógrammið var einstaklega skemmtilegt og fjölbreytt og tónleikarnir vel sóttir. Að þeim loknum hófst sumarfrí.