Sagan 2009 – 2010

Stjórnin var að mestu óbreytt frá síðasta starfsári, en Anna Lilja Stefánsdóttir gekk þó úr stjórn og Soffía Pétursdóttir kom inn sem gjaldkeri í hennar stað.

Áður en æfingar hófust hélt kórinn útimarkað á Marki Eyjafjarðarsveit.þann 1.september 2009. Þar voru til sölu föt, ýmsir munir og „haustafurðir“. Einnig var boðið upp á vöfflur með rjóma og kaffi. Veðrið var dásamlegt og gekk þessi dagur frábærlega.

Æfingar starfsársins voru sem fyrr í Brekkuskóla.  67 konur voru skráðar í kórinn og Daníel var áfram kórstjóri. Hann tók allar konur í raddprufur og þó að nokkurar eftirvæntingar og streitu gætti hjá nokkrum stóðu þær sig allar mjög vel.  Mikael Jón Clarke stjórnaði nokkrum æfingum í stað Daníels og skiluðu þær æfingar líka miklu. Sem fyrr voru raddirnar líka að hittast og æfa út af fyrir sig og var það mjög jákvætt og má gera meira af því.

Æfingardagar voru tveir þetta árið, fyrri æfingardagurinn var í Hrísey 24. október og var þá æft frá kl. 9:30 og ferjan tekin heim um kvöldmatarleytið. Þennan dag var mikið sungið en einnig mikið borðað en veitingahúsið Brekka sá til þess að við fengjum góða og mikla næringu. Síðari æfingardagurinn var svo haldinn í Valsárskóla 20. mars og auk þess að syngja með Daníel þann daginn fengum við fræðslu frá Valdísi Jónsdóttur talmeinafræðingu og var „röraaðferðin“ rifjuð upp. Svo kom Guðmundur Óli Gunnarsson og stjórnaði meðan Daníel sinnti öðrum störfum. Kvenfélag Svalbarðsstrandar sá til þess að við fengjum góða næringu. Þetta voru mjög lærdómsríkir og skemmtilegir dagar sem gáfu ótrúlega mikið, bæði sönglega og félagslega.

Jólatónleikar til styrktar mæðrastyrksnefnd Akureyrar voru haldnir 29. nóvember og fengum við til liðs við okkur Barnakór Hrafnagilsskóla og Kvennakórinn Sölku á Dalvík. Stjórnendur kórann voru auk Daníels, María Gunnarsdóttir og Margot Kiis. Aðsókn var ágæt og söfnuðust 350.000 krónur sem afhentar voru mæðrastyrksnefnd í lok tónleika.

Litlu jólin voru haldin í Lóni og átti skemmti- og árshátíðarnefnd veg og vanda af stórskemmtilegri skemmtun og góðum veitingum. Mættu allar í sínu fínasta pússi og með pakka , en Daníel ásamt Þórunni Jónsdóttur og Sigríði Huldu Arnardóttur spiluðu undir söng og einnig var gengið í kringum „jólaborðið“.

Sungið var á Dvalarheimilinu Hlíð þann18. desember og aftur í miðbænum daginn eftir þann 19. desember í miklum kulda.

Sú nýbreytni var að við sungum tvenna jólatónleika með Karlakór Dalvíkur milli jóla og nýárs. Fyrri tónleikarnir voru í Akureyrarkirkju kl. 16:00 þann 27. desember og fengum við standandi lófaklapp fyrir Tvær stjörnur. Seinni tónleikarnir voru í Dalvíkurkirkju kl. 21:00 sama dag. Kórkonur fylktu liði í rútu út á Dalvík en það reyndist hálfgerð æfintýraferð þar sem hitakerfið í rútunni var bilað og Anna Dóra gerðist sjálfboðaliði sem „vinnukona“. En tónleikarnir gengu mjög vel og í lokin buðu karlakórsmenn okkur í nýja menningarhúsið sitt Berg og þar sem boðið var upp á kaffi og konfekt.
Æfingar hófust síðan aftur 10. Janúar eftir jólafrí.

Árshátíð kórsins var haldin með pompi og prakt 13. mars og var undirbúningur og stjórn hennar í höndum Skemmti- og árshátíðarnefndar, en einnig höfðu raddirnar hver í sínu lagi æft eitt skemmtiatriði. Árshátiðin tókst alveg stórkostlega, góður matur og frábær skemmtun og áttu þær Eygló, Kamilla, Kristbjörg, Una Berglind, Una Þórey og Inga Magga allan heiður skilið fyrir frábæran undirbúning og skemmtun og við hinar fyrir frábær skemmtiatriði. Þess má geta að miðaverð á árshátiðina var hlægilega lágt og má það þakka góðri fjáröflun og stöðu kórsins.

Kórinn var beðinn um söng á konudaginn á degi Go Red þann 21. febrúar á Hótel Kea. Dagurinn er haldinn til að efla fræðslu um forvarnir og áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma hjá konum. Kórinn söng í upphafi og lok dagskrár og fékk mjög góðar viðtökur.Mjög góð þátttaka kórkvenna var á þessum degi og mættu þær allar í einhverju rauðu sem og allir sem komu og hlustuðu á erindi og skemmtiatriði.

Aðalfundur Gígjunnar var haldinn 17. Október og mættu Ásdís og Snæfríð á hann. Sérstakur gestur á fundinum var Margrét Pálmadóttir, kórstjóri og ræddi hún við fundarkonur um hlutverk kvenna og að við þyrftum að vera duglegri að koma okkur á framfæri.
Fundir stjórnar voru um 11 talsins og þar með ekki taldir óformlegir fundir stjórnar og nefnda. Haldinn var almennur umræðufundur í Brekkuskóla til að kynna það sem framundan væri í kórastarfinu og fleira. Mæting hefði mátt vera betri, en við stefnum að því að hafa svona fundi í byrjun hvers starfsárs.

Fjáröflun hefur gengið ágætlega, en ákveðið var á síðasta aðalfundi að hækka félagsgjöldin í 2500 krónur á mánuði úr 2000 og er ætlunin að með því minnki þörfin á stöðugri fjáröflun. Eftir sem áður þarf þó að hafa ákveðna fjáröflun til að standa straum af útgjöldum og styrkjum til kórkvenna. Venja er að kórinn fari í ferðir og viljum við gjarnan halda því áfram en til þess að það sé hægt er nauðsynlegt að halda út fjáröflun. Einn kökubasar var haldinn á haustdögum á Glerártorgi, en því miður er nú alfarið búið að taka fyrir sölu á kökum þar. Ekki voru búin til ný jólakort þetta árið, en „gömlu“ jólakortin voru tekin upp, þeim pakkað að nýju og seld fyrir jólin og gekk það framar vonum.
Ómetanlegt er allar kórkonur séu virkar ogg nefndarkonur stóðu sig með stakri prýði og unnu gott og óeigingjarnt starf í þágu kórsins. Stjórnin hafðu fundi með meirihluta nefnda þennan vetur og þykja þeir fundir hafa styrkt samvinnu stjórnar og nefnda og gert nefndarstörfin sýnilegri.

Heimasíðan tók breytingum í vetur, en Aðalbjörg og sonur hennar Þórarinn Jóhannsson eiga veg og vanda að uppsetningu hennar. Sú nýbreytni varð að nú er lokað svæði á síðunni sem einungis kórkonur hafa aðgang að og hefur Aðalbjörg leiðbeint kórkonum um þessa nýju tækni. Hægt er að „spjalla“ þarna inni og er það góður möguleiki til skoðanaskipta. Einnig fengu formaður og gjaldkeri sín „eigin“ netföng á kvak.is

Kvennakór Suðurnesja kom í heimsókn helgina 7. – 9. maí og voru haldnir með þeim tónleikar í Laugarborg 8. maí og síðan boðið til kvöldverðar og skemmtunar á eftir. Tókst þessi heimsókn afar vel og gaman væri að endurgjalda heimsóknina við hentugleika.

Sungið var við messu í Akureyrarkirkju þann 15. maí og að síðustu voru haldnir vortónleikarnir 30. maí í Akureyrarkirkju. Að þessu loknu hófst sumarfrí.