Kvennakór Akureyrar hélt tveggja daga æfingabúðir að Húsabakka í Svarfaðardal 25. – 26. janúar. Það er mikill hugur í kórkonum og mikið að gera að æfa fyrir landsmót kvennakóra í maí.
Æfingar hófust um kl. 10 á laugardagsmorgni og æft var stíft með smá hléum fyrir mat og drykk til kl 5 síðdegis. Auk kórstjórans Daníels var Sigrún Magna Þórsteinsdóttir kölluð til liðs, en hún er einmitt ein af kórstjórunum sem stjórna söngsmiðjum á landsmótinu.
Kórkonur skiptu með sér verkum og sáu sjálfar um að næra hópinn og er óhætt að segja að nóg var að bíta og brenna. Að afloknum kvöldverði var svo kvöldvaka þar sem hvert skemmtiatriðið öðru betra leit dagsins ljós. Að sjálfsögðu var svo fjöldasöngur við undirspil Daníels á píanó og Hildar Petru Friðriksdóttur á harmoniku. Nokkrir nátthrafnar fengu svo Þórunni Jónsdóttur til að draga fram gítarinn og sungu enn meira.
Á sunnudagsmorgni hófst dagskrá með morgunmat kl. 8:30 og að honum loknum sá Anna Breiðfjörð um að koma blóðinu á hreyfingu af sinni alkunnu snilld. Æfingar héldu síðan áfram með stuttum hléum til kl. 14, þá var gengið frá og haldið heim.
Helgin var mjög árangursrík í alla staði bæði sönglega og félagslega, mikið sungið, mikið hlegið og mikið talað.