Kvennakór Akureyrar sækir Blönduós heim þann 25. maí næst komandi en þá heldur kórinn sína fyrri vortónleika í Blönduóskirkju kl 15:00.
Síðari vortónleikarnir verða daginn eftir þann 26. maí í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri. Báðir tónleikarnir hafa yfirskriftina „Sólin þaggar þokugrát“, en það er tilvísun í eitt af lögunum sem eru á efnisskránni í ár og hefur einnig skírskotun í komandi sumar og sól.
Kvennakór Akureyrar er þekktur fyrir mjög fjölbreytt lagaval, hann tekst á við skemmtileg og ögrandi verkefni af ýmsu tagi og fer ekki alltaf troðnar slóðir í þeim efnum. Á efnisskránni í ár má finna lög frá ýmsum tímum, allt frá 16. til 21. aldar, sungin á íslensku, ensku, norsku og sænsku. Nýjasta lagið samdi Þóra Marteinsdóttir fyrir 10 ára afmæli Gígjunnar, landssamband íslenskra kvennakóra í apríl s.l. við ljóð Huldu skáldkonu og nefnist það Breyttur söngur. Nokkrir kvennakórar landsins hafa tekið þetta lag á sína efnisskrá en þetta verður frumflutningur Kvennakórs Akureyrar á því og einnig frumflutningur hér norðan heiða.
Tónleikarnir í Blönduóskirkju, laugardaginn 25. maí, hefjast kl. 15:00. Miðasalan er við innganginn en athuga ber að ekki er tekið við greislukortum.
Tónleikarnir í Hömrum í Menningarhúsinu Hofi, sunnudaginn 26. maí, hefjast kl 16:00. Miðasala er við innganginn og á midi.is.
Kórstjóri og undirleikari er Daníel Þorsteinsson. Aðgangseyrir er kr. 2500.- en ókeypis fyrir börn að 14 ára aldri.