Það er mikið um að vera hjá kórnum þessa dagana. Næsta sunnudag verður haldinn æfingadagur í Valsárskóla, þar sem stíf dagskrá verður frá kl. 9 að morgni og til kl 18 síðdegis. Þarna verða tekin fyrir lög sem sungin verða á tónleikum haustsins.
Fyrst er að nefna afmælistónleika sem haldnir verða í tilefni af 10 ára afmæli Kvennakórs Akureyrar! Tónleikarnir verða haldnir laugardaginn 19. nóvember kl. 15:00 í Hömrum í Menningarhúsinu Hofi. Á tónleikunum verða tekin lög frá tímabili hvers stjórnanda, en þeir hafa verið fimm talsins. Efnisskráin verður því afar fjölbreytt og endurspeglar það sem kórinn hefur fengist við á þessum 10 árum.
Um kvöldið koma svo núverandi og fyrrverandi félagar ásamt gestum saman í Hlíðarbæ og fagna þessum tímamótum.
Fimmtudaginn 8. desember kl. 20:00 verða haldnir aðrir stórtónleikar þar sem fram fer árleg söfnun fyrir Mæðrastyrksnefnd Akureyrar. Á tónleikunum sem haldnir verða í Hamraborg í Menningarhúsinu Hofi fær kórinn til liðs við sig góða gesti, þ.e. hina góðkunnu söngkonu Guðrúnu Gunnarsdóttur og Ívar Helgason, söngvara, leikara og dansara. Þetta verður frábær skemmtun sem enginn má missa af og það besta er að allur ágóðinn af tónleikunum rennur beint til þeirra sem ekki geta haldið sín jól án stuðnings okkar hinna.
Sjáumst öll í Hofi 19. nóvember og 8. desember !