Kórinn syngur í Gimli-garði við hátíðadagskrá á Íslendingadeginum 6. ágúst 2012. Fjallkonan nýkomin á svið.
Eftir frábærlega vel heppnaða söngför til Kanada hellir kórinn sér nú á fullt í næstu verkefni. Fyrst er þó við hæfi að færa öllum þeim sem styrktu kórinn til fararinnar bestu þakkir, hvort sem það var með auglýsingum eða með öðrum hætti.
Nú eru hátíðahöld vegna 150 ára afmælis Akureyrarkaupstaðar að ná hámarki og tekur kórinn þátt í þeim með söng á hátíðardagskrá á Akureyrarvelli laugardaginn 1. september kl. 14:00. Einnig má þess vænta að kórinn komi fram seint um kvöldið sama dag í Hofi.
Fimmtudaginn 6. september mun kórinn halda tónleika í Hjúkrunar- og dvalarheimilinu Hlíð kl. 19:00, en heimilið fagnar 50 ára afmæli sínu um þessar mundir. Í fyrstu hét heimilið Elliheimili Akureyrar og var byggt af Akureyrarbæ með stuðningi kvenfélagsins Framtíðarinnar. Heimilið var vígt 29. ágúst 1962 á 100 ára afmæli Akureyrarbæjar.
Árlegur haustmarkaður verður haldinn í Hlöðunni í Litla Garði laugardaginn 8. sept. og hefst hann kl 13:00. Þar verður ýmislegt á boðstólum, s.s. kökur, brauð, sultur, fjallagrös, fatnaður og margt fleira. Kórkonur taka lagið og hægt verður að kaupa kaffi og vöfflur á staðnum.