Landsmótinu lokið

alt

Kvennakór Akureyrar er nú kominn heim úr ferðalagi sínu á landsmót íslenskra kvennakóra á Selfossi dagana 29. apríl – 1. maí.  Landsmót íslenskra kvennakóra er haldið á þriggja ára fresti á vegum Gígjunnar sem eru landssamtök kvennakóra. Mótið var nú haldið í áttunda sinn og sá Jórukórinn á Selfossi um framkvæmdina að þessu sinni. Mótið var hið stærsta frá upphafi því rúmlega 600 konur í 23 kórum voru skráðar til leiks.

Ferðin í heild var virkilega vel heppnuð og mótshald allt til fyrirmyndar. Kvennakór Akureyrar lagði af stað kl. 9 á föstudagsmorgni og kom heim um kl 00:30 aðfaranótt sunnudags. Það voru þreyttar en sælar og glaðar konur sem þá héldu hver til síns heima.

Eftir kvöldverð og setningu mótsins á föstudagskvöldi var haldið í óvissuferð á 11 rútum undir leiðsögn Bjarna Harðarsonar, sem fór algjörlega á kostum. Fyrsti áfangastaður var Kerið í Grímsnesi en þar var tekið á móti hópnum fyrst með trompetleik en síðan með einsöng og eldgleypum í báti á vatninu. Næst var haldið að Úlfljótsvatni þar sem langborðin svignuðu undan veglegum veitingum í mat og drykk. Trúbador söng og mannfjöldinn tók undir.

Að morgni laugardags var hafist handa við sameiginlegar æfingar allra kóranna í Iðu (Íþróttahúsi FSU) en eftir hádegið tóku við æfingar í vinnuhópum. Vinnuhópar mótsins voru: Dægurlagahópur undir stjórn Helenu Káradóttur, Björgvinshópur undir stjórn Björgvins Þ. Valdimarssonar, Í sveiflu með Kristjönu Stefánsdóttur, Flóaperlur undir stjórn Eyrúnar Jónasdóttur og Óperukórar undir stjórn Elínar Óskar Óskarsdóttur.

Á laugardeginum kl. 16 voru haldnir tvennir tónleikar, í Iðu og í Selfosskirkju, þar sem hver kór söng 2-3 lög af sínum prógrömmum. Tónleikarnir voru vel sóttir og má þess einnig geta að forsetahjónin heiðruðu kórana með nærveru sinni. Um kvöldið var hátíðarkvöldverður og dagskrá fram yfir miðnætti.

Á sunnudeginum hófust aftur æfingar í vinnuhópunum og eftir hádegið var sameiginleg æfing allra með undirleik Stórsveitar Suðurlands. Hátíðartónleikar hófust síðan í Iðu kl. 15:00, þar sem vinnuhóparnir fimm, sem töldu að meðaltali um 120 manns hver fluttu afrakstur sinnar vinnu. Að lokum sameinuðust allir þátttakendur á sviðið og fluttu þrjú lög við undirleik Stórsveitar Suðurlands og þar á meðal landsmótslag Gígjunnar 2011, Haustkvöld eftir Örlyg Benediktsson. Aðsókn á tónleikana var mjög góð og setið í hverju sæti í Iðu. Viðtökurnar voru einnig frábærar og eftir uppklapp voru áhorfendur kvaddir með laginu Vegir liggja til allra átta, sem átti vel við þar sem nú hélt hver kór til síns heima um mislanga vegu.

Mótsslit og kveðjukaffi með marsipantertu voru svo kl. 16:30-17:30.  Þar var boltanum varpað yfir á Kvennakór Akureyrar sem sér þá um að halda næsta landsmót kvennakóra árið 2014.