Í dag 5. ágúst ferðuðumst við frá Grand Forks í N.Dakota til Winnipeg og að lokinni innritun á hótel þar var haldið til Gimli. Ferðin stóð yfir frá kl. 9 um morguninn og til Gimli komum við kl. 16. Á landamærum USA og Kanada var búist við langri bið og mörgum erfiðum spurningum, en viti menn! Annar landamæravörðurinn var ung stúlka af íslensku bergi brotin, hún afgreiddi okkur á methraða, brosti breitt og var búin að æfa sig að segja TAKK. Að lokinni æfingu á tónleikastað hófust tónleikar, The Celebrity Concert i Johnson Hall kl. 19:30. Tónleikar þessir eru hluti af hátíðahöldum Íslendingadagsins og þar eru samankomnir Vestur-Íslendingar og ýmsir tignir boðsgestir. Bæjarstjórahjónin á Akureyri voru þar og fleiri gestir fra Íslandi, auk bæjarstjóra Gimli, formanns hátíðarnefndar og fleiri og fleiri. Það er skemmst frá því að segja kórinn fékk mikið lof fyrir sönginn og mátti víða sjá tár blika á hvörmum viðstaddra. Að lokum afhenti formaður hátíðarnefndar Daníel kórstjóra fjárstyrk til kórsins. Það voru ánægðar og þreyttar konur sem þá héldu heim á hótel í Wp, samt syngjandi hástöfum í rútunni.